Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 18:35:21 (1415)

1996-11-19 18:35:21# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:35]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um landmælingar og kortagerð. Frv., sem er 159. mál þingsins, flutt á þskj. 176, var samið af nefnd sem skipuð var 21. febrúar 1995 til að fara yfir og endurskoða starfsemi Landmælinga Íslands, samanber lög nr. 31/1985, um Landmælingar Íslands. Nefndinni var sérstaklega ætlað að fjalla um eftirfarandi atriði:

1. Að skilgreina framtíðarhlutverk Landmælinga Íslands í stjórnsýslu og framkvæmd kortagerðar á vegum ríkisins og tengsl stofnunarinnar við innlenda og erlenda aðila sem annast landmælingar og kortagerð.

2. Að gera tillögur um hentugt rekstrarform stofnunarinnar með hliðsjón af framtíðarhlutverki.

3. Að fjalla um höfundarrétt stofnunarinnar á kortum sem hún framleiðir og hvernig best megi tryggja þann rétt.

4. Að vinna frumvarp til laga um Landmælingar Íslands með hliðsjón af breyttu hlutverki stofnunarinnar.

Nefndin lagði áherslu á að ná til þeirra stofnana sem háðar eru landmælingum og kortagerð í störfum sínum, auk þess sem sérstaklega var leitað til starfsmanna Landmælinga, sérstaklega forstjóra, skrifstofustjóra og deildarstjóra. Kallað var til fundar með forsvarsmönnum Landsvirkjunar hf., Vegagerðarinnar, Orkustofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skipulags ríkisins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. En þessir aðilar eru helstu notendur korta í landinu. Í framhaldi af fundum með áðurnefndum aðilum voru þeim send drög að frv. til athugasemda og þeir sem á annað borð skiluðu skriflegum athugasemdum eða óskuðu eftir að fá að hitta nefndina voru kallaðir á fund þar sem farið var yfir athugasemdirnar lið fyrir lið. Það er því skoðun mín að frv. það sem hér um ræðir hafi verið unnið á fagmannlegan hátt og í góðu samráði við bæði starfsmenn Landmælinga Íslands sem og þær stofnanir sem eru helstu notendur korta hér á landi. Til að fyrirbyggja misskilning vil ég að það komi skýrt fram þegar í upphafi máls, að tilurð frv. sem og framlagning tengist alls ekki þegar ákveðnum flutningi á starfsemi Landmælinga Íslands til Akraness, enda fjallar frv. um landmælingar og kortagerð sem málaflokk en ekki aðeins starfsemi stofnunarinnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara náið yfir gildandi lög og sögulega þróun landmælinga og kortagerðar enda góð grein gerð fyrir þeim þætti í athugasemdum við lagafrv. Ég vil frekar staldra við framtíð landmælinga og kortagerðar. Að mati þeirrar nefndar sem samdi frv. er helsti galli gildandi laga sá að þau fjalla ekki um málaflokkinn sem slíkan, þ.e. landmælingar og kortagerð, heldur eingöngu um stofnunina Landmælingar Íslands. Þannig skortir ákvæði um málaflokkinn í heild auk þess sem ákvæði laganna um stjórnsýsluhlutverk Landmælinga eru ófullnægjandi. Þannig er t.d. ekki ljóst hver eru markmiðin með framkvæmd landmælinga þar sem lögin taka eingöngu á þeim verkefnum sem Landmælingum er ætlað að vinna og skyldum annarra aðila til þess að afhenda Landmælingum gögn. Ákvæði laganna um höfundar- og útgáfurétt eru ekki í samræmi við meginreglur höfundarréttarins og ákvæðin um fjármögnun starfsemi Landmælinga Íslands eru þar að auki ekki í samræmi við núverandi framkvæmd. Þá telur nefndin þann galla vera á framkvæmd laganna að ákvæði þeirra um gerð verkáætlana hefur aldrei verið framfylgt. Á öllum þessum atriðum er tekið í frv.

Nefndin leggur ekki til að rekstrarformi stofnunarinnar verð breytt. Hún verður áfram ríkisstofnun. Í staðinn leggur hún til að verkefni ríkisins á sviði landmælinga og kortagerðar, sem Landmælingum Íslands er falið að vinna að, verði skilgreind ítarlegar, þ.e. skyldur ríkisins til þess að reka tiltekna starfsemi. Ég tel rétt að benda á að nefndin leitaði upplýsinga um starfsemi landmælinga- og kortastofnana í nágrannalöndunum en þar hefur verið horfið frá fyrri ætlunum um að breyta rekstrarformi þeirra t.d. í hlutafélagaform og verða þær áfram reknar sem ríkisstofnanir. Byggist þetta á að ríkisvaldið verði að vera í forsvari og ábyrgt á sviði landmælinga og kortagerðar þótt hægt sé að fela framkvæmdina öðrum aðilum svo sem á hinum frjálsa markaði. Þannig ber þess að geta að ýmis verkefni og viðhald grunnupplýsinga er kostnaðarsamt og erfitt að velta því yfir á einstaka kaupendur þjónustunnar.

Endurskoðunarnefndin fjallaði sérstaklega um höfundarrétt Landmælinga Íslands á kortum sem stofnunin framleiðir og leggur til að hann verði eign ríkisins en ekki stofnunarinnar eins og er í dag auk þess sem lagt er til að fylgt verði reglum höfundarréttarins, sbr. lög nr. 73/1972, með síðari breytingum, svo sem um fyrningu höfundarréttar.

Það er ljóst að hin öra þróun landmælinga og kortagerðar mun auka þörf fyrir kort og landfræðilegar upplýsingar á stafrænu formi. Þannig munu landfræðileg gagnasöfn á stafrænu formi verða grunnur í landfræðilegum upplýsingakerfum en þau gegna mikilvægu hlutverki við skipulag og stjórnsýslu. Framtíðarhlutverk Landmælinga Íslands, sem lagt er til að verði stjórnsýslustofnun á sviði landmælinga og kortagerðar, verður fyrst og fremst öflun, úrvinnsla og geymsla landfræðilegra gagna. Einnig verður það hlutverk stofnunarinnar að sinna þörfum samfélagsins fyrir landfræðilegar upplýsingar, svo sem stofnana, fyrirtækja og einstaklinga, og tryggja gæði gagnanna. Stofnunin yrði þannig að taka virkan þátt í upplýsingasamfélaginu og bera ábyrgð á því sviði innan landmælinga og kortagerðar sem eru sameiginlegur grunnur fyrir landupplýsingakerfi og jafnframt að taka þátt í að tengja landfræðileg gagnasöfn við önnur gagnasöfn þjóðfélagsins.

Þannig yrðu Landmælingar Íslands grunnstofnun í tengslum við skipulagsmál og skipulag sem byggja á landmælingum og kortagerð. Það yrði hlutverk Landmælinga að viðhalda stafrænum kortum og landfræðilegum gagnasöfnum, þróa möguleika á samtengingu við önnur gagnasöfn og vera miðstöð þekkingar og aðferðafræði á sviði landmælinga og kortagerðar. Sem framleiðandi yrðu Landmælingar að bjóða vörur og þjónustu, svo sem kort og landfræðileg gögn, samkvæmt óskum viðskiptamanna.

Á fáum sviðum er eins nauðsynlegt að treysta tengsl við útlönd og á sviði landmælinga og kortagerðar og yrði stofnunin að stuðla að samvinnu við erlenda aðila á sviði kortagerðar og landfræðilegra upplýsinga. Koma fram sem fulltrúi Íslands í slíku samstarfi, vernda hagsmuni landsins og skiptast á vitneskju á þessu sviði.

Helstu nýmælin sem felast í frv. eru að lögin ná til málaflokksins alls, þ.e. landmælinga og kortagerðar og kveðið er á um yfirstjórn málaflokksins og skal hún vera í umhvrn. en Landmælingar Íslands skulu vera stjórnsýslustofnun málaflokksins.

Verkefni Landmælinga eru skilgreind ítarlegar en áður og heimilað að gerðir verði samningar við aðra aðila um framkvæmd einstakra verkþátta og verkefna. Þannig kæmi vel til greina að ákveðnir verkþættir svo sem loftmyndataka, heildsala og smásala korta og gagna yrði í höndum annarra aðila.

Gert er ráð fyrir sérstakri stjórn yfir stofnuninni sem yrði skipuð þremur aðilum og byggist það á því að Landmælingar og hvers konar landfræðileg gagnaöflun verður stöðugt mikilvægari þáttur í stjórnsýslunni og að notkun upplýsinga snertir fjölmarga málaflokka, stofnanir og ráðuneyti og því ástæða til að efla stefnumörkun á þessu sviði frá því sem nú er.

Kveðið er á um skyldur til samræmingar vinnslu og vistunar gagna er tengjast landmælingum og kortagerð. Lögð er af sú skylda að leggja verkefnaáætlanir fyrir Alþingi, enda hefur slíkt aldrei verið gert þrátt fyrir ótvíræð lagaákvæði, en þær skulu í staðinn lagðar fyrir umhvrh.

Kveðið er á um höfundar-, afnota- og útgáfurétt ríkisins á því sem Landmælingar Íslands vinna og er vísað til höfundalaga, nr. 73/1972, eftir því sem við á, en ástæðulaust er að aðrar reglur gildi um höfundarrétt í þessu tilviki. Fjármögnun og gjaldskrárákvæði eru gerð skýrari og færð til nútímans.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. en vil ítreka að ég tel að vel hafi verið staðið að gerð þess. Ég leyfi mér að leggja til að frv., verði að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.