Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:04:16 (1417)

1996-11-19 19:04:16# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:04]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er a.m.k. ekki fjölmennið að tala yfir. Það er þó gaman að tala yfir mönnum sem hafa fengist við málaflokkinn og hafa þá trúlega innsýn í það hvað verið er að fjalla um.

Aðeins út af upphafsorðum hv. 4. þm. Austurl. um að hér sé um mikilvægan málaflokk að ræða, þá get ég tekið undir það. Ég held að engum blandist hugur um að það er mikilvægt hlutverk fyrir hið opinbera að fást við þennan málaflokk og efni sem þar er fjallað um í góðu formi og sýna því tilhlýðilega, eigum við að segja, virðingu eða gefa því gaum eins og vera ber. Auðvitað er svo með sum mál að þau eru vinsælli í hv. Alþingi en önnur en ég veit ekki hvort þetta flokkast undir að vera með þeim vinsælli. Líklega sýnir þátttakan í umræðunum að svo er ekki.

En burt séð frá þessu gerði hv. þm. nokkrar athugasemdir. Hv. þm. beindi ekki mörgum fyrirspurnum til mín beint en hann gerði nokkrar athugasemdir við frv. og á auðvitað eftir að koma að því aftur síðar þar sem hann á sæti í hv. nefnd sem fær málið til meðhöndlunar og kemur þá áfram þeim athugasemdum sem hann vildi ekki taka tíma í að fara yfir núna, en taldi þær vera nokkrar, m.a. um texta og önnur efnisatriði.

Hv. þm. finnst frv. ekki nógu háreist eða málaflokknum nægur sómi sýndur, eins og það er lagt fyrir. Ég tel, og ítreka það sem kom fram í framsögu minni, að vel hafi verið staðið að undirbúningi.

Af því að hv. þm. ræddi sérstaklega um að sjálfsagt mætti finna dæmi þess að aðrar stofnanir væru að fara inn á verksvið Landmælinga og ekki væri skýrt á um það kveðið hvar skil væru, verkefni stofnunarinnar og verkefni annarra, þá vil ég minna á að haft var samband og viðræður fóru fram við allar þær stofnanir sem mest hafa gagn af og þörf fyrir Landmælingar og kortagerð. Ég taldi upp Landsvirkjun, Vegagerðina, Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skipulag ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Samband ísl. sveitarfélaga. Allir þessir aðilar komu að frv., fengu það síðan sent í drögum og gerðu athugasemdir. Þeir sem töldu sig hafa ástæðu til að gera athugasemdir gerðu það. Ég leyfi mér því að fullyrða að nokkuð vel hafi verið að máli staðið.

Um textann, hvort hann er fullkominn eða ekki, þá er það sjálfsagt þannig með öll okkar mannanna verk að eflaust á það oft við og er ég þá ekki að tala um þetta frv. sérstaklega. Vafalaust á það oft við í frumvarpssmíð og jafnvel í lagasmíð þegar frv. koma til baka frá nefndunum til þingsins til samþykktar, að ýmislegt mætti betur fara í texta. Ég ætla ekki að fara út í ágreining um það en vil geta þess að oftast eru frumvörp frá umhvrn. send til málnefndar til yfirlestrar og yfirferðar þannig að reynt er eftir því sem tök eru á að vanda textasmíð. Svo getur menn auðvitað greint á um efnisatriði textans, hvort allt er tekið fram sem þar ætti að vera og hvort nægilega skýrt að kveðið.

Það er stundum sagt líka að það sé lagasmíð ekki til framdráttar að hafa hana svo niður njörvaða að allt sé tínt til í smáatriðum. Lagasmíð eða lög eru oft skoðuð sem rammi um starfsemi og þarf ekki að vera til tjóns fyrir þá starfsemi sem verið er að fjalla um eða þær stofnanir að svo sé háttað. Um það eru sjálfsagt skiptar skoðanir hvernig ber að standa að því í hverju einu tilviki.

Ég held að hér hafi verið vel að staðið. Það sem menn settu fram og gerðu grein fyrir er efnislega það sem umhvrn. og þeir sem unnu að málinu ætluðu sér. Við yfirlestur þeirra tillagna, nefndarálits og þess frv., sem nefndin síðan smíðaði og sendi frá sér, hef ég ekki séð ástæðu til að gera við það umtalsverðar athugasemdir. Ég hef því lagt þetta fram í því formi sem það er. En eins og ég hef oft áður tekið fram þegar ég hef lagt frumvörp fram og sent til nefndar, tel ég að sjálfsagt sé og eðlilegt að nefndirnar vinni vel og vandi sitt verk. Ef eitthvað hefur yfirsést í ráðuneyti eða við undirbúning að frumvarpssmíð þykir mér fyrst og fremst vænt um það og gott ef nefnd telur ástæðu til að gera þar bót á. Ég geri ekki athugasemdir við það ef efnisatriðum er ekki umtalsvert breytt eða a.m.k. sé það þá gert í samráði við þann sem leggur málið fram, í þessu tilfelli umhvrh.

Hv. þm. talaði einnig um að aðrar stofnanir færu ef til vill inn á verksvið Landmælinga, kannski vegna þess að verkaskipting væri óljós eða þá að Landmælingar, sem stofnun, hefðu ekki fjármagn eða bolmagn til að sinna sínum verkefnum eins og vera bæri, og þá er það auðvitað verkefni fjárveitingavaldsins, löggjafans, á hverjum tíma og hefur það verið niðurstaða löggjafans að búa þá þannig að viðkomandi stofnun. Sjálfsagt hafa Landmælingar þurft að búa við það, eins og svo margar aðrar stofnanir, að vera þröngt skammtað úr hnefa og ef til vill ekki fengið sínu framgengt í öllu, sem sú stofnun hefur viljað, rétt eins og tvímælalaust á við um margar aðrar stofnanir og við þekkjum fjölmörg dæmi um. Ég get tekið um það dæmi þar sem öðruvísi hefði mátt standa að en gert hefur verið og þróunin hefur orðið. Það á reyndar ekki við um starfsemi Landmælinganna. Það dæmi sem ég ætla að taka og heyrir reyndar undir umhvrn. líka er Veðurstofan. Við höfum nokkur dæmi þess að aðrar stofnanir hafa verið að setja upp búnað sem kalla má veðurathugunarstöðvar, eins og t.d. Vegagerðin hefur gert. Vegagerðin hefur komið uppi á fjallvegum og víðar aðstöðu sem kannski má segja að hefði ekkert síður átt að heyra undir Veðurstofuna en Vegagerðina þó það skipti kannski ekki öllu máli. En sjálfsagt má finna ýmis dæmi um að verkefni skarist og einstaka stofnanir telji að þær verði, starfa sinna vegna, að koma upp einhverri þjónustu sem löggjafinn hefur kannski álitið að ætti að vera annars staðar en þetta hefur nú þróast svona.

Ég nefni þetta sem dæmi en get tekið undir þessa athugasemd frá hv. þm. Ég veit ekki hvort athugasemdin á endilega erindi inn í umræðuna um þetta frv., hvort það skiptir einhverju máli þar heldur hvernig búið er að stofnununum í starfsumhverfi þeirra og fjárveitingum þannig að þær geti sinnt sínum verkefnum.

Hv. þm. orðaði líka hugmyndir sínar eða tillögur um að Landmælingum Íslands mætti skipta upp á fleiri staði, þ.e. stofnunin starfaði með annaðhvort útibúum eða skipti verkþáttum á milli landshluta. Það má auðvitað segja að slíkt geti átt við um ýmsar stofnanir. Nokkrar stofnanir sem ríkið rekur starfa á þann hátt. Við höfum áður talað um starfsemi Vegagerðarinnar sem er dreifð um landið, starfsemi Pósts og síma og sjálfsagt á það við um fleiri opinberar stofnanir. En það eru yfirleitt mjög stórar stofnanir, miklu stærri en sú sem við erum að tala um og spurning hvort skynsamlegt er í þeim tilvikum þegar um smærri stofnanir er að ræða, þó ég telji alls ekki útilokað að þannig sé háttað með stofnanir. Ég er þá ekki að tala sérstaklega um Landmælingar Íslands heldur almennt það viðhorf að vel getur verið að þó að stofnun sé ekki mjög fjölmenn, 10, 20, 30 manna, þá geti hún ekki af fullum krafti og skipulega deilt upp starfsemi sinni og starfað á fleiri en einum stað. Ég tel að það geti vel átt við þó að það hafi ekki verið niðurstaða mín í sambandi við þá hugmynd eða þá tillögu sem ég hef lagt fram og þá ákvörðun sem tekin hefur verið síðan og samþykkt í ríkisstjórn að flytja Landmælingar Íslands af Reykjavíkursvæðinu og upp á Akranes. En það mál er ekki hér sérstaklega til umræðu og ég ætla þess vegna ekki að fara fleiri orðum um það.

Hv. þm. nefndi að ef til vill væru ekki rétt viðbrögð við því að verkáætlanir stofnunarinnar hafi ekki verið lagðar fram fyrir þing eins og lög kveða á um að hverfa frá því að slík verkáætlun skuli lögð fyrir þingið og hana skuli leggja fyrir ráðherra eða ráðuneytið og ráðherra síðan staðfesta ef ástæða þykir til. En ég vil leyfa mér að fullyrða að það sé ekki vegna þess að verkáætlanir hafa ekki verið lagðar fyrir þingið að þessi tillaga er hér uppi. Það er hins vegar fyrst og fremst vegna þess að ég tel að skynsamlegt sé að slík verkáætlun fari til ráðuneytisins. Hún á ekki endilega erindi inn í þing eða verkáætlanir fyrir hinar ýmsu stofnanir. Það kemur síðan fyrir þingið að ákveða fjárveitingar til stofnananna og það er auðvitað verkefni fjárveitingavaldsins, löggjafans, á því sviði. En að verkáætlanir um hinar einstöku eða ýmsu framkvæmdir og þau verk sem eru í gangi á hverjum tíma eigi í öllum tilfellum erindi hingað inn í þing, það tel ég ekki.

[19:15]

Við höfum nokkur dæmi um það, t.d. áætlanagerð í vegagerð sem er mjög stórt mál. Þar er fjallað um mikla fjármuni og í þeim ályktunum sem lagðar eru fyrir þingið er fjallað um fjárveitingar til einstakra verkefna. Þetta á við líka í sambandi við hafnaráætlanir sem hafa verið lagðar hér inn. Eitt sinn var það a.m.k. svo þegar ég átti sæti í fjárveitinganefnd, sem svo hét fyrir nokkrum árum, að í fjárlagafrv. birtust líka fjárveitingar til verkefna á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, á vegum Pósts og síma o.fl., svo ég nefni einhver dæmi. Ég held að það sé aflagt núna, fylgi ekki sundurliðun í fjárlagafrv. eða í fjárlögum þegar þau eru samþykkt. Ég tel því að það sé ekki mál sem á sérstaklega erindi hingað inn og þess vegna er gerð tillaga um breytingu á því efni. Þó að þetta megi að sjálfsögðu flokkast undir lögbrot sem það auðvitað er, að fylgja ekki eftir lögum og leggja ekki áætlanir fyrir þingið, held ég að það brot sé í fyrsta lagi kannski ekki mjög alvarlegt, en í öðru lagi hafi þetta þróast svo og helgast af því að menn töldu að það ætti ekki sérstakt erindi hingað.

Hv. þm. spurði um og ræddi breytingarnar varðandi höfundarréttinn. Ég hef kannski ekki skoðað það svo sérstaklega að ég hafi á því aðra skoðun en þá sem maður hlýtur að lesa út úr frv., þ.e. að talið sé eðlilegt að ríkið sem slíkt sé eigandi að þeim gögnum og upplýsingum sem Landmælingarnar vinna og komast yfir. Landmælingar Íslands eru aðeins stjórnsýslustofnun á vegum ríkisins og ríkið þess vegna eigandinn að þessum gögnum þó að þetta sé svona árétting á því hvernig að þessu beri að standa. Kannski tengist þetta líka því --- ég segi kannski vegna þess að ég hef ekki skoðað þetta mál sérstaklega eða velt því fyrir mér --- að stofnunin skuli nú heyra undir ráðuneyti sem fjallar um allan málaflokkinn í heild. Áður var þessi stofnun hluti af --- ég held að það hafi verið rétt sem kom fram hjá hv. þm. --- Vegagerðinni og heyrði undir samgrn. næst á undan umhvrn. Þetta er fyrsta lagabreytingin sem gerð er eftir að stofnunin færist undir umhvrn. svo að það hefur verið talin eðlileg gjörð eða þróun að kveða skýrt á um höfundarréttinn þó að mér finnist það kannski ekki vera stóra málið.

Ég sé að tími minn er að hlaupa frá mér. Það hafa ef til vill verið fleiri atriði sem hv. þm. velti hér upp og vildi heyra skoðanir ráðherra á. Það kemur þá væntanlega í ljós ef ég hef gleymt einhverju.

En rétt að lokum man ég eftir því að hv. þm. var að tala um fjármögnun stofnunarinnar. Mér finnst einu gilda í hvaða röð það er talið upp. Hér er talað um að stofnunin skuli afla sér ákveðinna sértekna með sölu á þjónustu sinni, en að öðru leyti skuli starfsemi stofnunarinnar greiðast af framlögum á fjárlögum. Núna er það svo að af um 150 millj. kr. veltu minnir mig að um 100 millj. séu frá ríkinu en 50 millj. í sértekjum þannig að það er enginn minni hluti og engin aukastærð í þessu dæmi, síður en svo.