Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:25:54 (1422)

1996-11-19 19:25:54# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:25]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast við ýmsu sem ég nefndi. Mér fannst hins vegar skorta allverulega á að þar væri vikið að aðalatriðum sem ég taldi mig hafa reynt að koma til skila. Hæstv. ráðherra fór tiltölulega lauslega yfir sviðið. Það er kannski vegna þess að ég hafði ekki orðað hugsun mína nógu skýrt.

Ég ítrekaði því þá gagnrýni mína hversu óljós skilin eru varðandi hvað Landmælingum Íslands er ætlað að sinna annars vegar og hins vegar sem eftirlátið yrði öðrum stofnunum eða einkaaðilum að annast. Það finnst mér mikilvægt atriði. Ég náði ekki hvað hæstv. ráðherra sagði í framsögu þannig að mér væri ljóst hvort það stæði til að draga úr einhverju af því sem er núverandi starfsemi Landmælinga Íslands, t.d. að því er varðar útgáfu og sölu á kortum. Ég bið hæstv. ráðherra að skýra það aðeins nánar þar sem ég náði ekki hvað fólst í orðum hans í framsögu um þetta efni, en þetta er svona hluti af þessari afmörkun sem ég er að víkja að.

Ég er ekki að biðja um að farið sé í lagatexta að útfæra smáatriði. Ég er ekki að biðja um það þó að ég hafi nefnt dæmi um að það væru búnar til heilar lagagreinar um það sem mér sýndist vera tiltölulega léttvæg atriði. En það skortir mjög á að meginlínur séu markaðar með frv. Það er aðalágalli frv. og ég tel mig hafa fært fyrir því nokkur rök nú þegar.

Hæstv. ráðherra talaði um verkáætlun. Hann var að afsaka þá tillögu að hún ætti ekki að fara lengra en inn á borð hæstv. ráðherra eða inn í ráðuneyti, en ekki til þingsins. Mér er með öllu óskiljanlegt hvers vegna hæstv. ráðherra vill ekki nota þessa áætlun, sem ætlað er að móta til fjögurra ára í senn og endurskoða árlega, sem tæki til að koma á framfæri upplýsingum um stefnu Landmælinga Íslands og eftir atvikum með athugasemdum ráðuneytisins við þá stefnumörkun, til Alþingis Íslendinga. Ég veit ekki hvaða tregða það er að koma slíku efni á framfæri við þingið. Ég sé í rauninni engin skynsamleg rök fyrir því að mæla svo fyrir. Það sem gerst hefur í þessum efnum er síst af öllu til eftirbreytni. Það er hægt að lagfæra það öðruvísi en breyta því sem til var ætlast á sínum tíma. Ég vona, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra muni fallast á að þetta mætti betur fara.

Ég þakka fyrir ábendingar sem fram komu hjá hæstv. ráðherra um að breytingar megi gjarnan verða á þessu frv., enda séu þær unnar í samvinnu við hæstv. ráðherra og ég treysti því að það geti orðið til þess að styrkja það málefni sem ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra hefur áhuga á að fái traustari lagaramma og bætta undirstöðu, svo mikilvægt mál sem hér er á ferðinni.

En fáein atriði vildi ég nefna frekar, virðulegur forseti, sem snerta málið og vildi gjarnan fá viðbrögð hæstv. ráðherra þar að lútandi. Ég tel ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af stöðu Landmælinga Íslands eins og hún er nú og því sé þörf á því að treysta stofnunina, bæði hvað snertir verkefnin, þ.e. hvaða verkefnum á að sinna, og fjárhagsstöðu hennar í framtíðinni. Það leysum við út af fyrir sig ekki með lögum í eitt skipti fyrir öll en það skiptir samt miklu máli.

[19:30]

Hvers vegna hefur verið sú tregða að framkvæma og leggja út í öfluga stafræna kortagerð í mælikvarðanum 1:25.000 og byggja undir það landfræðilega upplýsingakerfi sem því átti að fylgja og hafði aðeins verið lagt út í sem tilraunaverkefni og var markað á þeim tíma sem þessi mál heyrðu undir samgrn.? Nú er eins og það eigi að draga í land með þetta. Það yrði hálfkarað verk sem varðar Fljótsdalshérað svo dæmi sé tekið. Það hafa verið leyst ákveðin verkefni fyrir höfuðborgarsvæðið en það yrði hálfkarað verk austur á Héraði sem tengist einmitt þessari vinnu og er mjög brýnt er að koma í höfn þó ekki yrði lengra haldið í bili að ljúka því verkefni. Og ég inni eftir því.

Ég tek líka eftir því að nú munu menn ætla sér að einbeita sér að stafrænni kortagerð í mælikvarðanum 1:50.000 en það kostar fjármagn. Það væri æskilegt að fram kæmi hvort hæstv. ráðherra hafi áhuga á því að skila því verki í höfn á afmörkuðum tíma og til þess þarf áætlun og þá áætlun á að leggja fyrir Alþingi að mínu mati.

Það eru líka fjölmörg önnur stór verkefni sem þarf að sinna og alþjóðleg verkefni eins og þátttakan í GPS-mælingum á komandi ári, sem er verkefni sem verið er að vinna að á Evrópumælikvarða og Landmælingar Íslands þurfa auðvitað að vera burðugur þátttakandi í, og ekki um stórupphæðir að ræða. Þetta eru dæmi um mjög brýn verkefni sem vísa til framtíðar og nauðsynlegt er að styðja. Ég ítreka spurninguna: Hvað ætlar ríkið sér að gera varðandi landfræðilegt upplýsingakerfi sem áhugasamtök stofnana hafa verið að reyna að þoka fram en engin trygging er að verði samræmd eins og þörf er á að gerist? Þar þarf löggjafinn og framkvæmdarvaldið að tryggja samræmingu verka og veita náttúrlega forustu í málinu.

Ég get ekki látið hjá líða, virðulegur forseti, að gera við það athugasemd þó að það sé sagnfræðilegs eðlis. En við eigum líka að halda til haga því sem varðar sögu málaflokksins og gera það gjarnan í minningu þess manns sem reist hefur kortagerð á Íslandi úr öskustó að því er varðar söguna, þ.e. Haralds heitins Sigurðssonar bókavarðar sem stóð að því stórvirki sem er Kortasaga Íslands og vel sé honum fyrir það stórvirki sem hann vann í þeim efnum. Ef menn hafa kynnt sér það mál, og það vænti ég að nefndin sem vann málið hafi gert, hefði verið ástæða til að geta þess sem unnið var á 18. öldinni. En í rauninni eru bara nefndir tveir til sögunnar litið til fyrri alda. Það er Guðbrandur Þorláksson biskup sem vann vissulega þrekvirki á sínum tíma og síðan Björn Gunnlaugsson. En hvað veldur því að Magnús Arason liggur óbættur hjá garði? (Gripið fram í.) Frá Haga á Barðaströnd. En hann tók að sér það verkefni að vinna kortagerð við hinar erfiðustu aðstæður sem var grunnurinn að því verki sem síðan var lokið af Tómasi Knopf á árunum 1731--1733. Ég bið um að menn haldi slíku til haga sem þarna var unnið auk margra annarra sem mætti kalla til sögunnar ef grannt er skoðað.

Það rétt eins og hæstv. ráðherra vék að að nefndin greinir frá því í skilagrein sinni að hún hafi haft samband við marga og ég spyr: Mun hæstv. ráðherra tryggja að þingnefndin fái aðgang að þeim gögnum sem aflað var á vegum nefndarinnar í samskiptum við þessar opinberu stofnanir og þá aðila sem um var rætt, rannsóknastofnanir og opinberar stofnanir sem eru tíundaðar í greinargerð á bls. 4?

Ég lýsi að lokum, virðulegi forseti, eftir skilagrein varðandi fyrsta lið sem nefndinni var falið að skilgreina, framtíðarhlutverk Landmælinga Íslands í stjórnsýslu og framkvæmd kortagerðar á vegum ríkisins og tengsl innlendra og erlendra aðila. Þessu er því miður ekki haldið til skila í því stjfrv. sem hér liggur fyrir og er því ærið verk fram undan að mínu mati fyrir þá þingnefnd sem fær þetta frv. að tillögu hæstv. ráðherra. Ég mun glaður taka þátt í því verki að reyna að bæta um betur það frv. sem ég hef gert allnokkrar athugasemdir við.