Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:36:46 (1423)

1996-11-19 19:36:46# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:36]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að hjá mér er fullur vilji til að skila góðu verki á sviði lagasetningar. Ég undirstrika að við sem eigum hér sæti hljótum að hafa áhuga á því að þannig sé gengið frá málum. Það sem okkur greinir kannski á um í þessu efni er það hvernig hér sé staðið að verki. Ég hef leyft mér að halda því fram að nefndin hafi skilað góðu verki og frv. fullnægi því sem til var ætlast þegar nefndin hóf störf sín samkvæmt því erindisbréfi sem fyrir hana var lagt. En hv. þm. er mér kannski ekki alveg sammála um það og vonandi náum við þá saman um að skoða þá hluti sem e.t.v. mættu fara betur.

Í beinu framhaldi af því held ég að það hljóti að vera auðsótt og eðlilegt að fá fyrirliggjandi upplýsingar og gögn. Ég hygg að þingnefndir fái jafnan þá fyrirgreiðslu hjá ráðuneytum að fá aðgang að þeim gögnum sem fyrir liggja varðandi frumvarpssmíð og ég skil ekki í að þar geti verið einhver þau plögg að þau megi ekki sýna. Ég tel því eðlilegt að nefndin fái þau gögn sem hún óskar eftir af hálfu ráðuneytisins til þess að vinna vinnu sína.

Gagnrýni hv. þm. beindist m.a. að því hversu óljóst er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar og verkaskiptingu og heimildir ráðherra til þess að fela öðrum stofnunum eða hugsanlega einkaaðilum ákveðin verkefni. Ég ítreka það sem ég nefndi í framsögu minni að e.t.v. mætti fela öðrum að annast ljósmyndun fyrir stofnunina og það væri mjög líklegt eftir að stofnunin hefur verið flutt upp á Akranes að öðrum væri falin sala á kortum, bæði heildsölu og smásölu í stað þess að láta stofnunina sjá um það. Þetta voru þeir tveir þættir sem ég nefndi í framsögunni þannig að því sé haldið til skila. Og án þess að ég sé með sérstakt eða fleira afmarkað í huga finnst mér að það komi til greina að líta til þess um einstaka verkþætti. Þá á ég ekki við þau markmið sem stofnuninni ber að sinna og þau gögn sem hún þarf að halda utan um, þær upplýsingar sem hún þarf að búa yfir og veita öðrum. En ljósmyndunina t.d. tel ég að megi fela öðrum.

Fyrst ég er að tala um ljósmyndun vil ég nefna það og segja hv. þingmönnum og þingheimi frá því að á nýliðnu sumri kom t.d. upp samkeppnisaðili varðandi ljósmyndun. Það er auðvitað mjög erfitt við því að gera og kannski ekkert við því að segja að stofnunin hafði gert ráð fyrir því að veita t.d. sveitarfélögum þjónustu. Kannski hafa verið fleiri aðilar sem þurftu á hliðstæðri þjónustu að halda sem sneru viðskiptum sínum annað en til stofnunarinnar og einkaaðili veitti þá þjónustu. Ég veit ekki hvort í raun er nokkuð við því að segja en þá þýðir það að stofnunin þarf að öllum líkindum að leggja út meiri kostnað við að afla sér upplýsinga og halda utan um gagnabanka sinn en ef hún hefði getað gert það með sölu á gögnum og aflað sér sértekna. Það er því miður ljóst að á þessu sumri hafa tapast einhverjar sértekjur miðað við þá áætlun sem stofnunin hafði áður gert ráð fyrir.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði um verkefnaáætlunina áðan. Ég tel að vel geti komið til greina að ráðherra telji styrk í því að með fjárlagabeiðni eða öðrum upplýsingum, sem ráðuneytið telur skylt að koma til þingsins, komi verkáætlunin frá ráðuneytinu til þingsins í einu formi eða öðru. Þá tel ég það ekki bara við þessa stofnun heldur fleiri stofnanir svo að mér finnst að það geti ekki verið ágreiningsefni að það beri að skila verkáætluninni til ráðherrans en ekki til þingsins.