Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:47:53 (1427)

1996-11-19 19:47:53# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:47]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Ekki vegna flutnings stofnunarinnar upp á Akranes, um það hef ég látið skoðanir mínar í ljós áður. Ég vildi aðeins koma inn á það sem snýr að kortagerð. Enn kemur það í ljós þegar menn ræða um störf hjá ríkisstofnunum að oft vill brenna við að menn eru að vinna jafnvel á tvennum vígstöðvum í tveim mjög svipuðum störfum. Koma þá einkum til þau lög sem nú er verið að ræða, frv. til laga um landmælingar og kortagerð.

Þegar litið er til framkvæmdar kortagerðar og þessa lagabálks sem hér er lagður fram koma upp í huga mér lagafyrirmæli um sjókortagerð. Það er athyglisvert að skoða þau mál þegar litið er á það að á einum stað í lögum er fjallað um sjókortagerð en það er í lögum um Landhelgisgæslu Íslands. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Landhelgisgæslan á að sjá um sjómælingar og taka þátt í hafrannsóknum.``

Þetta er allt sem sagt er um sjómælingar og kortagerð varðandi hafið umhverfis Ísland. Enda kemur það fram sem oftar, en hefur ekki komið fram þegar verið er að ræða um ríkisfyrirtæki eða jafnvel samruna þeirra, hagræðingu, þá er eins og það sé mjög erfitt að koma á samstarfi slíkra fyrirtækja ef þau falla undir sitt ráðuneytið hvort. Það er enginn lagabálkur til um sjókortagerð. Kemur það mér mjög á óvart að tvær stofnanir, þar sem annars vegar er unnið að sjókortagerð og hins vegar að landmælingum og kortagerð, skuli ekki starfa náið saman eða að ekki skuli vera unnið að samruna þessara fyrirtækja. Við vitum að um mjög dýr tæki er að ræða sem þarf til kortagerðar og því kemur það mér mjög á óvart að umræðan skyldi ekki snúast neitt um samruna þessara fyrirtækja einkum með það í huga, eins og ég gat um áðan, að það eru dýr og mikil tæki sem þarf að kaupa til þessara stofnana en þau starfa hvort í sínu horninu og virðast ekki vita hvort um annað. Það finnst mér í sjálfu sér athyglisvert. Mér finnst það líka segja það, sem því miður ber of oft á, að eins og fram hefur komið segir nánast ekkert um sjókortagerð við Ísland í lögum. En við erum nú að fjalla um mikinn lagabálk um kortagerð, þ.e. landkortagerð, og því kemur það mér aftur mjög á óvart og vildi ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort engin umræða hafi farið fram í hans ráðuneyti um það hvort ekki hefði verið eðlilegt að sameina þessi tvö fyrirtæki og gera þau að mjög öflugu fyrirtæki. Það eru fjölmörg hafsvæði og fjölmörg svæði á landgrunninu sem þyrftu miklu betri og meiri athugunar við en raun ber vitni um. Jafnvel hafa sum sjókort ekki fengið nánari ígrundun frá því að Danir sáu hér um sjómælingar fyrir nokkrum tugum ára.

Ég ætla að stytta mál mitt, hæstv. forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að það er nánast aðeins ein setning sem fyrirfinnst í íslenskum lögum varðandi sjókortagerð og er það kannski eitt með öðru sem snýr að okkar sjávarútvegi.