Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:52:16 (1428)

1996-11-19 19:52:16# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:52]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Ég þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir hans innlegg í þessa umræðu og tel að hann hafi hreyft þar máli sem full ástæða væri til að skoða og hefði ef til vill átt að skoða í tengslum við þessa frumvarpssmíði. En það er einu sinni svo að þegar málaflokkum er með þessum hætti skipt milli ráðuneyta þá vill oft brenna við að málaflokkar, sem þó eiga afar margt sameiginlegt og ættu að skoðast í samhengi, lenda í þeim farvegi að menn ná ekki saman um málið. Ég vil þó segja það út af þeirri fyrirspurn sem hv. þm. beindi til mín, hvort ekki hefði komið til umræðu að sameina þessar stofnanir, að það hefur það vissulega gerst. Það hefur verið rætt um að sameina stofnanir og reyndar voru það fleiri stofnanir sem komu inn í þá umræðu. En það er því miður eins og oft sé æðimikil tregða á því að stofnanir, sem heyra undir hin ýmsu ráðuneyti og þar með mismunandi málaflokka, nái saman. Því miður vilja menn standa dálítið fast hver á sínu í þessu efni. Eins má kannski nefna, þó það sé ekki aðalatriði, að ekki er örgrannt um að mér finnist stundum eins og nokkurrar tregðu gæti líka þegar ný verkefni eru að færast undir umhvrn. og sumum finnist kannski að það hafi nú þegar nóg á sinni könnu.