Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 13:37:11 (1433)

1996-11-20 13:37:11# 121. lþ. 28.95 fundur 105#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er alvarlegt umhugsunarefni fyrir þingheim allan að þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir fái slík svör sem hún hefur greint frá hér. Það hefur verið gagnrýnt úr ræðustól Alþingis að undanförnu hvernig svör sumra ráðherra við fyrirspurnum þingmanna eru. Þetta svar er sýnu verst. Samanburði sem beðið er um er sleppt þrátt fyrir að upplýsingar um efnið liggi fyrir. Annar samanburður er settur á blað sem ekki er beðið um, samanburður sem vekur tortryggni. Við hljótum að spyrja: Hvers vegna?

Það á að vera sameiginlegt keppikefli okkar allra að varpa sem skýrustu ljósi á húsnæðismálin. Þess vegna eiga þingmenn að geta kallað eftir þeim svörum, upplýsingum og samanburði sem þeir kjósa til að átta sig á stöðu mála og það hvernig svör þingmenn hafa fengið eru fullkomlega óásættanleg vinnubrögð. Ég hlýt að spyrja: Hvað hyggst forseti Alþingis gera í slíku máli?