Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 13:40:26 (1435)

1996-11-20 13:40:26# 121. lþ. 28.95 fundur 105#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:40]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Sú ósvífni sem við höfum orðið vitni að hér í dag er eitthvað sem hefur viðgengist í ríkjum sem ég hef bara lesið um til þessa. Það er með ólíkindum að ráðherra skuli leyfa sér, þegar hann fær spurningar um tiltekið efni, að svara í rauninni allt öðru, koma með upplýsingar um það sem ekki er beðið um og velja síðan sjálfur hverju hann sleppir. Og það er enn furðulegra vegna þess að það er svo gegnsætt hvað hæstv. ráðherra er að reyna að gera. Hann er að þjóna sinni pólitísku lund með þessu. Er það stjórnarfar sem við viljum viðhafa hér? Eru það vinnubrögð sem við teljum samboðin? Sem dæmi um þessi vinnubrögð þá kemur fram í svari ráðherrans sem er dreift á borð alþingismanna að vegna þess hve félagslega kerfið komi illa út í samanburði, ef kaupandi eigi ekkert fé, þá vilji hann ekki svara spurningunni. En hvað kemur í ljós þegar skoðuð eru svör Húsnæðisstofnunar við sömu spurningu? Þá kemur í ljós að nákvæmlega þessir kaupendur koma svo margfalt betur út í félagslega kerfinu að það skiptir tugum þúsunda á mánuði. Hver er tilgangurinn með svona blekkingum? Við hljótum að spyrja okkur, þegar við stöndum frammi fyrir staðreyndum af þessu tagi í framkomu ráðherra, í framkomu framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi, hvert mun þetta leiða okkur ef ekki verður tekið á því? Hvað næst? Alþingi hlýtur að taka á þessu máli þannig að eftir verði tekið og ekki þurfi að koma til þess aftur, alla vega ekki á næstunni, að menn komi hér upp vegna þess að ráðherrar sýna þann hroka að þeir svari ekki einu sinni spurningum alþingismanna.