Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 13:43:49 (1437)

1996-11-20 13:43:49# 121. lþ. 28.95 fundur 105#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:43]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt ef það er orðin samstaða um það í Alþfl. að ráðherrar eigi að upplýsa þingið um það sem þeir vita og segja satt. Ég minnist þess að ég spurði á sínum tíma þáv. hæstv. ráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, um launaskrið hjá forstjórum á Íslandi þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru í gildi. Aumara svar hef ég aldrei fengið. Undirstofnanir ráðherrans neituðu að svara, neituðu að upplýsa hver staðan væri. Og ráðherrann leyfði sér að koma hér í ræðustól þá og halda því fram að hann hefði ekki vald til þess að krefja þessar stofnanir um svör.

Ef þetta félagslega kerfi er svona miklu hagstæðara en allt annað í landinu þá vil ég eindregið hvetja þá sem svona grimmt hæla því til að fjárfesta í félagslegum íbúðum á Vestfjörðum. Það er nóg af þeim til sölu þar, mikið magn. Það er sagt að þetta sé mjög hagstætt fyrir þá sem eiga enga peninga og þeir ættu að kaupa. Ástæðan fyrir því að það selst ekki þar er sú að það er á miklu hærra verði en það sem er á frjálsa markaðnum.