Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 13:45:17 (1438)

1996-11-20 13:45:17# 121. lþ. 28.95 fundur 105#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:45]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Þetta fer að verða daglegur viðburður í þinginu að hæstv. ráðherrar bjóði þingmönnum á hinu háa Alþingi upp á það að leggja hér fram ,,svör`` sem alls ekki eru svör við því sem um er spurt. Á síðustu dögum hafa verið gerðar athugasemdir við svör hæstv. menntmrh. um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna, við svör hæstv. félmrh. um skilgreiningu á fátækt og einnig var gerð nýlega athugasemd við svör hæstv. heilbrrh. við fyrirspurn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur.

Málið snýst nefnilega ekki bara um það efni sem hér er til umræðu, sem er í sjálfu sér alvarlegt mál eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri hafa bent á, ef beinlínis er verið að bera saman vitlausa hluti og eins og hv. þm. sagði, að nánast væri um falsanir að ræða, þá er það mjög alvarlegt mál. En málið snýst líka um framkomu hæstv. ráðherra gagnvart þinginu og upplýsingaskyldu þeirra gagnvart þinginu.

Það hefur líka komið fram hjá hæstv. forseta að það er lítið sem þingið getur gert í þessum málum, ef ég skildi hæstv. forseta rétt síðast þegar þessi mál voru rædd hér. En ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður að Alþingi hlýtur á einhvern hátt að bregðast við svona framkomu, ella tel ég að löggjafarvaldinu væri veruleg hætta búin ef ekki er á einhvern hátt hægt að grípa til ráða sem duga þannig að hér séu lögð fram svör við því sem um er spurt.