Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 13:47:10 (1439)

1996-11-20 13:47:10# 121. lþ. 28.95 fundur 105#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki frekar en sumir þeir sem hafa gagnrýnt svör ráðherra kynnt mér sérstaklega það svar sem hér liggur fyrir og hefur orðið að umræðuefni. Sumir hv. gagnrýnendur hafa lýst því yfir að þeir hafi ekki kynnt sér málið, (Gripið fram í.) þar á meðal sá sem nú kallar fram í. Ég vil hins vegar að það komi hér fram að ráðherrann er staddur á ráðstefnu sveitarfélaga og þarf að vera þar vegna embættis síns og það veit ég að ýmsir skilja sem til máls tóku.

Ég vil að það komi hér fram að ég veit ekki betur heldur en ráðherrar reyni eftir bestu getu að gefa þau svör sem um er beðið en það er auðvitað engin trygging fyrir því að fyrirspyrjendur fái þau svör sem þeir vilja fá, það er engin trygging fyrir því. Og eins og menn sjá á þessum svörum byggja þau á gögnum frá tveimur stofnunum, annars vegar Húsnæðisstofnun og hins vegar Fasteignamati ríkisins.

Það er sjálfsagt að ræða hér, og ég veit að forsætisnefndin gerir það, tilhögun fyrirspurna og svara á hinu háa Alþingi. Það hafa menn gert áður úr þessum ræðustól og var t.d. rætt á mánudaginn. Hins vegar er ekki ásættanlegt að menn séu hér í efnislegum umræðum og allra síst að ráðherra fjarstöddum. Það eru til úrræði, það má biðja um skýrslu, það er hægt að biðja um utandagskrárumræðu og ræða málið við slík tækifæri efnislega en ekki gera það að ráðherra fjarstöddum eins og hv. þm. sem hóf þessa umræðu gerði með því að fara efnislega í svarið. Ég vil eingöngu segja og ítreka það að ég tel að ráðherrar og ráðuneyti reyni eftir bestu getu að svara fyrirspurnum, en stundum eru fyrirspurnir þingmanna þannig að ákaflega erfitt er að gera það í stuttu og skýru máli.