Sala á lambakjöti

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:07:30 (1448)

1996-11-20 14:07:30# 121. lþ. 29.1 fundur 117. mál: #A sala á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:07]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum ber sexmannanefnd að ákvarða verð afurðastöðva til bænda á lambakjöti og fimmmannanefnd að ákvarða verð til smásala. Það urðu því tilefni blaðaskrifa sl. sumar þegar bændur fóru að gera samninga við einstöku verslanir eða sláturleyfishafa á verðum sem ekki voru ákvörðuð af þessum lögbundnu nefndum. Þá kom fram að í umræðu innan sexmannanefndar hafi komið í ljós að menn töldu þessi viðskipti ólögleg. Nefndinni bæri að ákvarða verðið og gæti ekki vikist undan því. Sama virtist eiga við þegar röðin kæmi að fimmmannanefnd og samningi við verslanir.

Enn virðist, herra forseti, það sama upp á teningnum þegar farið er að bjóða búvöru, sem er undir verðlagsákvæðum þessarar nefndar, upp á markaði, eins og nú hefur gerst. Það virðist hins vegar enginn aðili vilja taka að sér að sjá til þess að lögunum sé framfylgt, eða hvað?

Löggjöfin um verðlagningu búvara er úrelt og langt frá því að vera í takt við tímann. Flest litum við í raun með velþóknun til þess sem bændurnir voru að gera og hafa verið að gera til þess að losa sig undan þessum lögum og vildum sjá lögunum breytt þannig að verð landbúnaðarafurða réðist í ríkara mæli á markaði og að framleiðslan aðlagaðist þannig þörfum neytenda og greiðslugetu okkar og ríkissjóðs. En fyrst lögin eru vond, á þá framkvæmdin að vera háð geðþótta?

Í fréttum af þessum málum hefur reyndar komið fram að fulltrúar bænda vildu halda í þessi úreltu lög og síðan nota þau að vild, enda fari þeir út fyrir þau þegar þeim hentar hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. Fulltrúar neytenda í verðlagsnefndunum standi varnarlausir gagnvart því og raunar hefur komið í ljós að Alþýðusambandið telur að hér sé um lögbrot að ræða. Vegna þessara álitaefna er nauðsynlegt að fram komi:

1. Hvert er viðhorf landbrh. til þeirra samninga um sölu lambakjöts sem bændur hafa gert beint við afurðastöðvar eða verslanir, og nú síðan á uppboði, á öðru verði en fyrrgreindar lögbundndar nefndir hafa ákvarðað?

2. Telur ráðherra, eins og aðrir aðilar sem hér er vitnað til, að um lögbrot sé að ræða? Ef svo er, til hvaða ráðstafana hyggst hann grípa?