Staðlar fyrir gistirými í fjallaskálum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:36:07 (1457)

1996-11-20 14:36:07# 121. lþ. 29.3 fundur 124. mál: #A staðlar fyrir gistirými í fjallaskálum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:36]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Tímans vegna ætla ég að hafa það eins og áðan að endurtaka ekki spurningarnar.

Svar við 1. tölul. fyrirspurnar hv. 4. þm. Austurl. hljóðar svona: Um gistirými í fjallaskálum og sæluhúsum er að finna ákvæði í nokkrum reglugerðum. Í 6. gr., tölul. 10.7.8. í byggingareglugerð, nr. 177/1992, segir að um sæluhús, fjallaskála, veiðihús, skíðaskála, svefnskála og vinnubúðir, leitarkofa, björgunarskýli og þess háttar hús gildi ákvæði byggingareglugerðar, brunamálareglugerðar, heilbrigðisreglugerðar, reglugerðar um veitinga- og gististaði og reglur um húsnæði vinnustaða eftir því sem við á. Þannig að ýmislegt er nú upptalið sem skuli framfylgja. Í öllum framangreindum reglugerðum eru gerðar nokkuð strangar kröfur til gistirýma í fjallaskálum.

Í 69. gr. heilbrigðisreglugerðar, nr. 149/1990, eru gerðar kröfur til þess að gistiskálar skuli hafa baðaðstöðu fyrir gesti svo og salerni fyrir karla sér og konur sér. Ekki skuli svefnrými gistiskála miða við minna rými 6 m³ á hvern gest en heilbrigðisnefnd er þó heimilt að leyfa 5 m³ á hvern gest séu notaðar kojur.

Í reglugerð um veitinga- og gististaði, nr. 288/1987, en sú starfsemi heyrir reyndar undir samgrn., segir í 23. gr. að gistiskálar séu gististaðir með svefnpokagistingu með eða án rúmfata, ýmist í herbergjum eða svefnsölum. Í 24. gr. segir að í gistiskála skuli vera svefndýnur og gestir skuli eiga aðgang að viðeigandi salernis- og hreinlætisaðstöðu sem samþykkt hefur verið af viðkomandi heilbrigðisnefnd.

Í 11. gr., 1. tölul. 2., um brunavarnir og brunamál, nr. 269/1978, en sú reglugerð heyrir undir félmrn., segir að hús með svefnplássum fyrir 10 manns eða færri skuli a.m.k. uppfylla öryggiskröfur fyrir íbúðarhús. Sé um timburhús að ræða gildi strangari kröfur en þegar um steinhús er að ræða með hliðsjón af stöðlum sem byggjast á stærð og umfangi húsanna. Byggingar með svefnplássi fyrir allt 20 manns þurfa sérstaka úttekt eldvarnaeftirlitsins og gera þarf brunatæknilega hönnun á öllum byggingum með fleiri en 20 svefnplássum og þarf samþykkt Brunamálastofnunar ríkisins.

Svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar er: Rökin fyrir þeim reglum sem ég hef lýst eru einfaldlega þau að sömu reglur eigi að gilda um þess konar byggingar og almennt húsnæði og sömu kröfur eigi að gera til umhverfis slíkra húsa og annarra húsa. Er það gert til þess að ekki hljótist af heilsutjón og umhverfisspjöll og að í boði sé viðunandi aðstaða með tilliti til almenns hreinlætis og annars aðbúnaðar. Það eru því öryggissjónarmið sem hér búa að baki bæði gagnvart þeim sem sækja slíka skála heim og eins gagnvart umhverfinu. Hafa verður í huga að í mörgum tilvikum er seldur aðgangur að slíkum skálum.

Enn fremur er rétt að geta þess að við gerð heilbrigðisreglugerðar á sínum tíma var sá skilningur lagður í ákvæði um gistiskála að þau ættu að ná yfir þær gerðir skála sem almennt tíðkast sem einfaldir svefnskálar. Er þar átt við ýmiss konar fjallaskála og skíðaskála sem oft er nefnt svefnpokapláss.

Sem svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar, sem fjallar auðvitað nokkuð um persónuleg viðhorf ráðherrans, vil ég segja að sjálfsagt má segja að þær reglur sem hér hefur verið vitnað til séu ásættanlegar þó eflaust sé pottur brotinn víða varðandi framkvæmdina og vissulega mikil spurning hversu langt á að ganga í því að gera ströngustu kröfur til t.d. baðaðstöðu, salerna og slíkra hluta í gistiskálum til fjalla eða fjallaskálum þó ég ætli ekki að gera lítið úr þörf fyrir slíka aðstöðu. En sjálfur hef ég reynslu af því að gista í skála eða kofa svipuðum þeim sem hv. fyrirspyrjandi var að lýsa þar sem a.m.k tveir þurftu að sofa í kojum og ég hygg að þegar 20 voru komnir þar inn hafi nú ekki verið 6 m³ og ekki einu sinni 5 m³ á hvern sem þar gisti þá nótt.

Hugsanlegt er því að endurskoða meginreglur um gistirými almennt, miðað við breyttar aðstæður frá þeim tíma sem núgildandi reglur voru settar, en þar eru reglurnar um brunavarnir og brunamál elstar eða frá 1978. Í slíkum tilvikum þyrfti þá að skoða gistiskála sem nú eru í notkun og hugsanlega flokkun þeirra með tilliti til mismunandi kröfugerða. Í þessu tilviki vil ég upplýsa að starfshópur á vegum Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga mun á næstunni fjalla um gistiskála á hálendinu með hliðsjón af ákvæðum heilbrigðisreglugerðarinnar. Ég vænti þess að fá tillögur þessara aðila fyrir næsta vor en tek fram að það eru eingöngu málefni Hollustuverndar og heilbrigðiseftirlitsins og svo Skipulags ríkisins og byggingareftirlitsins, sem heyra undir umhvrn., sem ég á færi á að breyta. Ég vek einnig athygli á að frv. til skipulags- og byggingarlaga er til meðferðar hér á hv. Alþingi. Í framhaldi af því verður sett ný byggingarreglugerð og gefst þá tækifæri til þess að taka á byggingarþætti þessa máls. En varðandi reglugerðir sem heyra undir önnur ráðuneyti verða aðrir ráðherrar að svara fyrir.