Staðlar fyrir gistirými í fjallaskálum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:41:29 (1458)

1996-11-20 14:41:29# 121. lþ. 29.3 fundur 124. mál: #A staðlar fyrir gistirými í fjallaskálum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Margt fróðlegt kom hér fram. Mitt ráð til hæstv. ráðherra varðandi þessi mál er að ég tel að þau þurfi að taka mun heildstæðari tökum heldur en verið er að gera þó að góðra gjalda sé vert að þarna séu tveir aðilar á vegum umhvrn. sem eru að fara yfir málin. Ég tók ekki eftir að það væri neitt samráð tilskilið þar við þá sem standa að viðkomandi rekstri. Og vegna þess að hér eru mál sem heyra undir mismunandi ráðuneyti þá hvet ég hæstv. umhvrh. til þess að efna til samstarfs við þau ráðuneyti sem í hlut eiga, fá þaðan aðila og leiða alla þessa aðila saman og fá inn í skoðun málsins hagsmunaaðilana, ferðafélögin, hvort sem þau heita Ferðafélag Íslands, Útivist eða öðrum nöfnum, og aðra þá sem hlut eiga að máli því þarna eru leitarskálar líka, það eru þá samtök bænda, þetta eru gangnamannakofarnir sem þarna falla undir. Mér sýnist að þetta sé allt saman í hers höndum miðað við þær reglur sem settar eru að því er varðar rými þannig að hæstv. ráðherra grípur sennilega til lokunar í stórum stíl ef hann ætlar að framfylgja settum reglum. Ég er ekki að hvetja til þess. Ég hvet til þess að þetta sé skoðað, það sé lagt raunsætt mat á það, menn séu kannski ekki með of miklar og harðar kröfur varðandi rými. Ég held að hreinlætiskröfurnar séu þýðingarmiklar. Ég hvet til þess að litið verði til nágrannalanda t.d. Noregs. Það er fullyrt að svona kröfur, varðandi t.d. rými, séu ekki uppi hafðar í því mikla fjalla- og ferðamannalandi Noregi og hvers vegna ekki að leita fanga þar? Ég hef ekki heyrt neinar kvartanir þar. Ég hef sjálfur gengið svolítið um það góða land og notað skála þar og mér sýnist að þar sé nokkuð vel á málum haldið. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess að taka málin heildstæðum tökum og efna til nauðsynlegs samráðs um málið og það hið fyrsta áður en til ónauðsynlegra árekstra þurfi að draga vegna þess að ekki séu tengsl milli aðila eða eðlileg málstök.