Þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:59:19 (1464)

1996-11-20 14:59:19# 121. lþ. 29.4 fundur 125. mál: #A þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:59]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Fegnastur væri ég að sjálfsögðu, og tek undir með tveimur hv. þm. sem hér hafa tjáð sig í máli þessu, að heimaaðilar kæmu sér saman um málið og auðvitað má segja að þeim beri kannski til þess skylda. En þegar samnefnari fyrir sveitarfélögin á viðkomandi svæði, eins og gerðist á Vesturlandi, hafnar afskiptum af málinu og beinlínis vísar því frá sér þá er kannski úr vöndu að ráða. Að vísu var það tiltölulega auðvelt fyrir ráðherra í því tilviki af því að það var ekki nema ein formleg umsókn sem lá fyrir, þ.e. frá Stykkishólmi. Hins vegar höfðu borist óformleg erindi og hugmyndir um að setja stofuna upp víðar, t.d. í Borgarnesi, á Hvanneyri og nú síðast í Grundarfirði. Reyndar kom formlegt erindi frá þeim en það var eftir að ákvörðun hafði verið tekin þannig að ég var seinast í dag að svara því ágæta sveitarfélagi um það hvernig að þessari ákvörðun hefur verið staðið. Ég er því miður ekki með þau bréfaskipti en hefði getað gefið hv. þm. upplýsingar um það álit og þá afstöðu sem kom fram hjá Sambandi sveitarfélaga í Vesturlandi varðandi málið. Ég álít enn að um staðsetningu stofunnar í Norðurlandi vestra geti orðið samkomulag eða samstaða og þá hafi þar auðvitað mest að segja afstaða heimamanna en það er Samband sveitarfélaga í Norðurlandi vestra sem á fulltrúa í nefndinni. Það er stjórn þeirra samtaka sem hefur tilnefnt þann fulltrúa til þess að vinna þetta verk. Þá væri enginn ánægðari en ég ef um það næðist samkomulag og ég þurfi ekki að taka á einhverjum öðrum forsendum afstöðu til þess hvar stofuna eigi að reisa, ef það á þá ekki hreinlega að hætta við það sem ég held að væri nú ekki rétt. En þar sem ég er afar lítill lögregluaðgerðamaður og vil gjarnan að málum sé stýrt með öðrum hætti, helst með góðu samkomulagi, eins og fram hefur komið hér í svörum við öðrum fyrirspurnum í dag, þá væri ég því fegnastur og vona það enn að um það náist samkomulag og sátt hvar náttúrustofa í Norðurlandi vestra muni rísa.