Jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:01:47 (1465)

1996-11-20 15:01:47# 121. lþ. 29.5 fundur 153. mál: #A jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 169 legg ég eftirfarandi spurningu fyrir hæstv. menntmrh. varðandi jafnréttisfræðslu í grunn- og framhaldsskólum:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við niðurstöðum úr nýlegri könnun ráðuneytisins um framkvæmd og skipulagningu jafnréttisfræðslu í grunn- og framhaldsskólum sem sýnir að jafnréttisfræðsla er ekki skipulögð sérstaklega í 85--90% skólanna?

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kveðið á um jafnréttisfræðslu í skólum. Þar segir í III. kafla um menntun, með leyfi forseta:

,,Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum skal kynjum ekki mismunað. Skylt skal að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur. Á öllum skólastigum skal veita fræðslu um jafnréttismál, m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Gæta skal þess sérstaklega að kennslutæki og kennslubækur séu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.

Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skal leitast við að kynna bæði piltum og stúlkum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf.

Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd þessarar greinar í samráði við Jafnréttisráð. Ráðuneytið skal fylgjast með þróun jafnréttismála í skóla- og uppeldisstarfi, m.a. með reglubundnum rannsóknum.``

Eins og flestir vita hefur menntmrn. á undanförnum árum unnið að því að móta stefnu og setja markmið um jafna stöðu kynja í skólum. Það er mjög jákvætt. Skýrslur og rit hafa verið send skólunum, m.a. til að veita upplýsingar og vera kennurum til leiðbeiningar í jafnréttismálum. Því miður kemur fram í ofangreindri könnun sem ég vitna hér til að þessi rit eru ekki notuð eða lítið sem ekkert notuð. T.d. var skýrslan um jafna stöðu kynja í skólum, stefnu, markmið og leiðir, í 45% tilfella ekki notuð eða nýttist fremur illa í 20% tilfella og er það mjög alvarlegt.

Fyrir ári síðan sendi menntmrn. út spurningalista til að fá upplýsingar um hvernig skólarnir stæðu að jafnréttisfræðslu. Niðurstöðurnar eru að mínu mati mjög sláandi. 85% grunnskóla skipuleggja ekki jafnréttisfræðslu sérstaklega. Framhaldsskólarnir standa enn verr en 90% þeirra skipuleggja ekki jafnréttisfræðslu.

Þeir örfáu skólar sem skipuleggja jafnréttisfræðslu sérstaklega gera það nánast allir með skólanámskrá eða námsvísi. Að mínu mati er mjög óeðlilegt hve fáir skólar skipuleggja slíka kennslu af því að við vitum öll að það er viðhorfið sem mótast einmitt í náminu hjá börnum. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst bregðast við þessum niðurstöðum. Og þar sem nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á skólanámskrá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort til greina komi að sú nefnd sem vinnur að því að endurskoða skólanámskrá fái það í veganesti að skipuleggja sérstaklega jafnréttisfræðslu í skólum.