Jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:13:20 (1469)

1996-11-20 15:13:20# 121. lþ. 29.5 fundur 153. mál: #A jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:13]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum okkur meðvituð um það að jafnréttisfræðsla þarf að vera innan skólanna, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla. En það nægir ekki að segja börnum og unglingum að iðka jafnrétti. Þetta fólk þarf að hafa þær fyrirmyndir í daglega lífinu að fræðsla um jafnrétti rími nokkurn veginn eðlilega við þær upplifanir sem það fær bæði innan skóla og utan.

Það var mér mjög dýrmæt reynsla fyrir nokkuð mörgum árum síðan reyndar þegar ég var með jafnréttisfræðslu í 10. bekk og það var einhvers konar viðhorfskönnun sem ég hafði lagt fyrir, þar sem spurt var m.a. um viðhorf til konu sem verkstjóra, að einn drengjanna leit á mig og hann hreinlega skildi ekki af hverju hann átti að vera að hafa viðhorf til þessa allt í einu. Málið var nefnilega það að þessi drengur hafði aldrei kynnst öðru. Hann var frá sjómannsheimili og móðirin var verkstjóri á heimilinu. Hann hafði farið í unglingavinnu á sumrin og þar var kona verkstjóri. Hann hafði alltaf haft konu sem kennara, alla sína skólatíð, og þarna var ég, kona, verkstjóri við þessa vinnu og hann leit á mig og skildi hreinlega ekki um hvað var verið að tala og af hverju var verið að spyrja svona asnalegra spurninga. Honum hafði aldrei verið gefinn kostur á öðru. Þannig að þarna rímaði klárlega ekki það sem verið var að reyna að kanna eða segja við þann veruleika sem þessi drengur bjó við. Ég held að það skipti öllu máli fyrir okkur núna að fara að skoða hver veruleikinn er sérstaklega innan skólanna varðandi þær fyrirmyndir sem ekki síst drengir fá þar.