Jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:17:49 (1472)

1996-11-20 15:17:49# 121. lþ. 29.5 fundur 153. mál: #A jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þær miklu umræður sem hafa orðið um þessa fyrirspurn. Síðasti ræðumaður kom inn á að það yrði að verða viðhorfsbreyting í þjóðfélaginu og það er alveg rétt. En maður spyr sig: Hvernig í ósköpunum á sú viðhorfsbreyting að eiga sér stað hratt og vel ef skólarnir standa sig svo illa í jafnréttisfræðslu sem raun ber vitni?

Mig langar líka að koma inn á það sem nefnt var áðan varðandi þær afsakanir sem skólarnir bera fram, hvað þeir segja, af hverju þeir standa sig ekki. Þeir hafa nefnilega engar sérstakar afsakanir, það er málið. Við skulum taka sem dæmi framhaldsskólann. Það er spurt: Hindrar eitthvað framkvæmd jafnréttisfræðslu? Ónóg fræðsla, hindrar hún? Nei, segja 69% framhaldsskólanna. Tímaskortur, hindrar hann jafnréttisfræðslu? Nei, segja 66,7%. Skortur á fræðsluefni, hindrar hann kennsluna? Nei, segja 55,6%. Þannig eru engar sérstakar afsakanir. 90% skólanna eru ekki með sérstaka jafnréttisfræðslu, en þeir geta ekki gefið neinar sérstakar skýringar á því. Þeir virðast bara ekki hugsa nógu mikið um þessi mál og hafa engin haldbær rök.

Ég vil hins vegar að lokum þakka þau svör sem hæstv. ráðherra gaf og taldi að það væri full ástæða til þess að hvetja skólana til að gera sérstaka jafnréttisáætlun. Það kom líka fram í máli hæstv. ráðherra að nefnd sú sem mun endurskoða skólanámskrána mun fá þau fyrirmæli að jafnréttisfræðsla fái verðugan sess í skólanámskránni.

Mig langar þá að lokum að spyrja hvað það þýði nákvæmlega ,,að fá verðugan sess í skólanámskránni``. Stendur til að skylda skólana til þess að taka upp sérstaka jafnréttisfræðslu sem er skipulögð? Á ráðherrann við það? Ég hefði sjálf viljað sjá að það væri skylda af því að ég held að annars verði þessum málum ekki nógu vel fyrir komið.