Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:21:04 (1474)

1996-11-20 15:21:04# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 172 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um framtíð hússtjórnarskólans á Hallormsstað. Fyrirspurnin er tvíþætt:

1. Hvaða ástæður hefur ráðuneytið til að leggja til við fjárlagagerð að miða skuli við, eins og segir í texta fjárlagafrumvarps, ,,að starfsemi Hússtjórnarskólans á Hallormsstað verði hætt í núverandi mynd um mitt næsta ár og húsnæði hans afhent Menntaskólanum á Egilsstöðum. Gert er ráð fyrir að skólinn geti m.a. starfrækt þar nám í samráði við hagsmuna- eða áhugahópa sem greiðist af þátttakendum``?

2. Er ráðherra reiðubúinn, með tilliti til þess að nám í hússtjórnarfræðum er nú óvíða í boði á framhaldsskólastigi og Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað annar ekki eftirspurn, að stuðla að því að skólinn geti orðið hagkvæmari rekstrareining með því að kennslurými við hann verði aukið?

Þessi fyrirspurn snertir mál sem hefur talsvert verið rætt að undanförnu og borið fyrir í fjölmiðlum og hæstv. ráðherra, sem hefur nýlokið heimsókn á Fljótsdalshéraði og kannski víðar á Austurlandi, er vafalaust vel upplýstur um málið.

Það er mikið áhugaefni fólks víða á landinu er mér kunnugt að málefnum Hússtjórnarskólans á Hallormsstað verði skipað með réttsýnum hætti og að ekki verði horfið að því ráði sem tilvitnaður texti, sem á uppruna sinn í menntmrn., gefur tilefni til. Ég vænti þess að hann sé ekki frá hæstv. ráðherra kominn þó hann beri formlega ábyrgð á tillögum sem þaðan koma.

Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað er mjög sérstæð stofnun með langa sögu að baki frá því að skólinn var stofnaður árið 1930 og rækir fræðslu, sem af ýmsum orsökum leið undir lok en hefur haldið velli og náð að blómstra nú upp á síðkastið með námsframboði í hússtjórnarfræðum og samstarfi við nágrannaskóla sem er Menntaskólinn á Egilsstöðum þannig að þar geti farið fram fræðsla á tilteknum brautum. Þannig hefur á milli þessara skóla tekist samstarf sem lengi hefur verið talað um að væri sjálfsagt og eðlilegt og er það sannarlega vel. Ég legg áherslu á að í grundvallaratriðum verði af hálfu stjórnvalda ekki hróflað við þeim ramma sem Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað starfar innan og að hlúð verði að skólanum þannig að ná megi meiri hagkvæmni og að sinna vaxandi eftirspurn eftir því námi, fyrst og fremst verknámi, sem þar fer fram í greinum sem er óvíða sinnt og alls ekki með þeim hætti sem þarna er boðið.

Ég treysti því að hæstv. menntmrh. hafi skilning á þessum málum og að fljótlega náist ásættanleg niðurstaða í málinu.