Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:37:46 (1481)

1996-11-20 15:37:46# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JHall
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:37]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegur forseti. Hér er hreyft þörfu málefni sem þakka ber hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifi Guttormssyni. Mikilvægi þessarar öldnu og mikilvægu skólastofnunar, Hússtjórnarskólans á Hallormsstað, hefur raunar sannað sig og þarf ekki að hafa mörg orð um því að stofnunin hefur bæði sýnt sig vera síung og nútímaleg í störfum. Sú menntun sem þar hefur verið veitt um áratuga skeið í hússtjórnar-, verkmennta- og uppeldisfræðum er löngu viðurkennd og raunar þjóðkunn.

Virðulegur forseti. Það er krafa Austfirðinga og raunar fjölmargra annarra utan fjórðungs, sem þekkja til starfsemi stofnunarinnar, að hún fái afl til að starfa og dafna hér eftir sem hingað til en til að svo megi verða þarf skólinn að fá nægar fjárveitingar og jákvæða umfjöllun og athygli stjórnvalda og því verður að treysta. Undir engum kringumstæðum má henda að sjálfstæði skólans verði skert eða starfsemi hans breytt á þann hátt að hlutverk hans verði rýrt eða skert frá því sem nú er.