Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:40:18 (1483)

1996-11-20 15:40:18# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann hefur þegar veitt varðandi fyrirspurn mína og ég þakka hjartanlega þær miklu undirtektir og samhljóma sem hafa komið fram á þinginu af tilefni fyrirspurnarinnar.

Ég les það út úr máli hæstv. ráðherra að hann hafi hug á að hlúa að því starfi sem fer fram í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað og sú heimsókn sem hann gat um í gær að hann átti til skólans hafi orðið til að styrkja viðhorf hans að þessu leyti. Ég fagna sérstaklega að komin sé heimild fyrir því að bæta húsnæði skólans og auka þar við rými fyrir nokkra nemendur í viðbót og aðra aðstöðu. Eftir stendur það sem ég tel vera kjarna málsins varðandi þá umræðu sem fram hefur farið, þ.e. að ekki verði horfið að því ráði að fella starfsemi skólans undir Menntaskólann á Egilsstöðum. Skýr rök hafa verið leidd að því að það leiði ekki til fjárhagslegs sparnaðar. Augljóst er að það mun stefna því starfi sem þarna fer fram í ákveðna hættu. Samstarf er fyrir hendi sem unnt er að styrkja þó að stofnanirnar séu báðar sjálfstæðar skólastofnanir sem slíkar.

Ég hef síst á móti því að það styrki samstarf á milli framhaldsskóla á Austurlandi og náist sem hagfelldust skipun og verkaskipting þeirra á milli og ég vænti þess að hæstv. ráðherra sjái svo til að þessi starfsemi geti farið fram með eðlilegri samræmingu og samhæfingu. Hugmyndir hæstv. ráðherra um sjálfseignarstofnun eru þess virði að þær verði athugaðar. Til þess þarf ráðrúm og ekki ráð að hrófla í neinu við starfsemi skólans á meðan frekari athugun slíkra kosta fer fram en staðan er breytt frá þeim tíma þegar sýslur á Austurlandi, Múlasýslur, stóðu að rekstri skólans. Sýslur eru ekki lengur fyrir hendi sem slíkar og allt þetta þarf að gaumgæfa.

Ég vænti þess að niðurstaðan af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og víðar verði sú að skólinn fái að starfa sem sjálfstæð skólastofnun og verði efldur í góðu samstarfi við aðra framhaldsskóla í fjórðungnum.