Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:02:58 (1489)

1996-11-20 16:02:58# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:02]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er, þá styðjum við alþýðubandalagsmenn það að allt verði gert sem hægt er til þess að taka niður kostnað í bankakerfinu eins og margar tillögur okkar á seinni árum og fyrr bera vott um. Við höfum bent á óhóflegan vaxtamun. Við höfum bent á gríðarlega há þjónustugjöld og við höfum bent á þennan heiftarlaga afskriftakostnað sem lagst hefur á bankakerfið og þar með á þjóðina á undanförnum árum. Jafnframt höfum við bent á það að við teljum ekki endilega að málið sé þannig vaxið að hlutafélagavæðing bankanna leysi þennan vanda. Það hefur ekkert komið fram sem sýnir fram á að hlutafélagavæðingin leysi vandann, ekki neitt. Hæstv. viðskrh. vitnar gjarnan í þessu sambandi í erlent fyrirtæki sem heitir Standard \& Poor's og ég kýs að kalla Staðlar og fátækt. Þó að þetta fyrirtæki, Staðlar og fátækt, hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé hagstæðara að breyta bankakerfinu á Íslandi, þá tel ég það ekki viðhlítandi dóm. Það liggur ekkert fyrir í þeim efnum að nauðsynlegt sé að gera bankana að hlutafélögum.

Við alþýðubandalagsmenn höfum bent á að til greina kæmi í þessu sambandi að sameina t.d. ríkisviðskiptabankana þannig að um verði að ræða einn öflugan banka sem gæti á virkan hátt tekið þátt í hinni alþjóðlegu bankasamkeppni á komandi árum sem mun í vaxandi mæli halda innreið sina hér á Íslandi. Við erum með öðrum orðum ekki sammála því að einkavæðing og hlutafélagavæðing leysi allan vanda. Við bendum líka á það höfuðatriði í þessu máli að það kostar dálitla fjármuni að búa við þær aðstæður sem við gerum í okkar landi og okkur finnst að það verði að viðurkenna það og ekki eigi að reyna að sníða á Ísland stakk eftir vexti margra milljóna þjóðar.