Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:04:52 (1490)

1996-11-20 16:04:52# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:04]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem ég tel vera mikilvæga. Það vekur hins vegar athygli að enn og aftur bregður hæstv. ráðherra því fyrir sig að hlutafélagavæðing ríkisbankanna sé allra meina bót. Ég spyr í sakleysi mínu eftir talnarunu hans hér áðan, í ljósi þess að eini einkabankinn sem er á markaði hérlendis, Íslandsbanki, virtist ekki skera sig sérstaklega úr hvað varðaði rekstrarhæfni og lágan rekstrarkostnað, hvort hann hafi með höndum einhverjar aðrar vísbendingar sem sýni okkur og sanni að þessi hlutafélagavæðing lækki sjálfkrafa rekstrarkostnað bankanna. Síðan vildi ég gjarnan ganga enn og aftur eftir því sem hér var um spurt í upphafi, þar sem ráðherra svarar því út og suður: Er það á stefnuskrá ráðherrans að setja þessa hluti á markað á kjörtímabilinu eftir að hlutafélagavæðingin hefur gengið yfir og undir hvaða formerkum?

Ég las athyglisverða grein í DV í dag þar sem Íslandsbanki er að ræða við annað stórfyrirtæki um sameiningu. Er það þetta sem koma skal, þ.e. að stóru fyrirtækin í landinu renni saman í eitt, tvö eða þrjú? Eða hvernig öðruvísi hyggst ráðherrann, ef til sölu á þessum hlutum kemur --- sem ég geng að sem vísu þó það hafi ekki verið tímasett enn þá --- tryggja hið efnahagslega lýðræði? Hvernig hyggst hann tryggja eðlilegt og dreift eignarhald í þessum mikilvægu fjármálastofnunum þjóðarinnar? Þetta verður auðvitað að liggja algerlega kýrskýrt fyrir áður en af stað er farið. Það er ekki hægt að ræða þessi mál öðruvísi en að æðsti yfirmaður viðskipta- og bankamála í þessu landi, hæstv. viðskrh., skýri þessi grundvallaratriði að fullu.