Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:06:56 (1491)

1996-11-20 16:06:56# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:06]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða upplýsingar sem við fáum eftir að samanburður hefur verið gerður á íslensku bankakerfi og því bankakerfi sem er í öðrum OECD-ríkjum. Og það kemur fram sem marga grunaði að rekstrarkostnaður hér er um það bil helmingi hærri sem og vaxtamunur og þjónustugjöld. Það er ekki bara slaki í daglegum rekstri heldur virðast þeim sem stjórna okkar bankastofnunum vera einkar mislagðar hendur við lánveitingar því að afskriftir eru hér hærri en annars staðar. Okkar bankar hafa sem sé tapað meira en sambærilegar stofnanir erlendis (Gripið fram í.) þrátt fyrir það, hv. þm., að fyrir örfáum árum var skuldbreytt með ríkisábyrgð í gríðarlega mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum og þannig var enn dýpri bankakreppu afstýrt hér á landi en ella hefði orðið.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra gat þess að hér hefði bankakreppan verið af svipaðri dýpt og á hinum Norðurlöndunum. En af hverju varð hún ekki verri? Vegna þess að ríkið tók á sig ákveðna ábyrgð af skuldbreytingum sem farið var í, ella hefði verr farið.

Það er fleira sem íslenskir bankar hafa iðkað fram yfir þá sem verið er að bera þá saman við núna. Þeir hafa nefnilega í mörgum tilfellum, af miklu siðleysi, varpað af sér ábyrgð á gerðum sínum með því að kalla þriðja aðila til ábyrgðar. Þetta er alsiða þegar um einstaklinga er að ræða. Þetta er líka einstakt hér á landi. Og hvað gerum við svo við svona bankakerfi? Hverjir bera ábyrgð? Mér heyrist að fulltrúar þeirra flokka sem nú ráða í landinu vilji helst búa til fleiri banka. Það á ekki að setja fjárfestingarsjóðina inn í bankakerfið eins og hér er talin ein þeirra leiða til þess að bæta það. Nei, það á að búa til nýjan fjárfestingarbanka og enn eru menn að tala um sjóði.

Ég vil ítreka: Hverjir bera ábyrgð og hvað er hægt að gera til að tryggja að þeir sem bera hér ábyrgð bregðist við til hagsbóta fyrir almenning í landinu, því að almenningur í landinu á skilið betra bankakerfi?