Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:09:13 (1492)

1996-11-20 16:09:13# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:09]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Slæm útkoma íslenskra banka og sparisjóða í skýrslu OECD þarf ekki að koma á óvart, sérstaklega þegar það er virt að frá því á 19. öld, er sú skipan bankastarfsemi sem nú þekkist var hvað algengust í heiminum í kjölfar iðnbyltingarinnar, hefur bankastarfsemi verið með arðsömustu atvinnugreinum í heiminum annars staðar en á Íslandi eins og flestir þekkja. Þrátt fyrir að bankar hér á landi hafi lengst af verið í eigu ríkisins hefur eigandi þeirra, ríkissjóður, haft af þeim litlar sem engar tekjur í formi arðgreiðslna. Þvert á móti hefur ríkissjóður oft þurft að hlaupa undir bagga með stofnunum sínum og veita fé inn í þær samanber gamla Útvegsbankann og Landsbankann nú nýverið.

Ástæður þess að íslenskum viðskiptabönkum hefur ekki vegnað of vel eru margvíslegar og engin ein augljós skýring í augsýn. Hitt er jafnljóst að afskipti stjórnmálamanna hafa ekki gert rekstur þessara stofnana arðsamari en ella. Sú staðreynd að stjórnmálaflokkar hafa oft notað lausar stjórnunarstöður í bönkum til að leysa sín innri vandamál hafa ekki verið bankastarfsemi hér á landi til framdráttar. Það bera miklar afskriftir vitni um. Auk þessara ástæðna má benda á að hérlendis er stór hluti langtímalána í atvinnurekstri í fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna utan bankakerfisins, þ.e. í sérstökum fjárfestingarlánasjóðum sem gera eininingarnar óhagkvæmari en ella, og skekkir í einhverju samanburðinn við útlönd auk mikils fjölda óhagkvæmra útibúa. Hvað sem því líður er vaxtamunur á innláns- og útlánsvöxtum hér á landi hærri en þekkist í öðrum OECD-ríkjum. Þá eru rekstrartekjur og þjónustugjöld hærri hér en í samanburðarríkjum og ljóst að ekki verður gengið lengra á þeirri braut. Því er vart að vænta verulegra breytinga á íslensku bankakerfi nema til komi aukin hagræðing. Slík hagræðing næst varla fram nema núverandi ríkisbönkum verði breytt í hlutafélög þar sem tryggður verði ákveðinn fjöldi viðskiptabanka og dreift eignarhald á þeim. Það er því full ástæða til að hvetja hæstv. viðskrh. að fara að sýna á Alþingi frumvörp um hlutafélagavæðingu ríkisbankanna svo takast megi að gera íslenska bankastarfsemi samkeppnishæfa við það sem best gerist erlendis því sagan hefur kveðið upp sinn dóm um pólitísk afskipti af bankastarfsemi og ríkisrekstur á bankastofnunum. Þeim dómi verður ekki áfrýjað.