Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:13:38 (1494)

1996-11-20 16:13:38# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:13]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að það væri mjög hollt fyrir menn að íhuga að hve miklu leyti afskriftir og töp í bankakerfinu stafa af ítökum og áhrifum stjórnmálamanna á lánveitingar bankanna, bæði beint og óbeint. Ég held að það sé líka ástæða til þess að íhuga hvort það sé rétt og eðlilegt að 70% af fjármálakerfi þjóðarinnar sé rekið með ríkisábyrgð. En ég vil leggja áherslu á að það er auðvitað ekki sama hvernig hlutafjárvæðing banka og fjármálakerfisins á sér stað og hvernig að henni er staðið. Eru menn að gera það í þeim tilgangi að auka styrk þessa kerfis, auka lýðræði í meðferð fjármuna og ábyrgð eða eru menn að gera það í því skyni að færa þær eignir sem eru í þessu kerfi á hendur tiltölulega fárra einstaklinga? Það skiptir miklu máli hvernig að þeim framkvæmdum er unnið.

Mig langar til þess að leggja fyrir hæstv. viðskrh. tvær spurningar. Hann sagði að erfiðleikar ríkisbankanna stöfuðu m.a. af takmörkuðu eigin fé. Þá er spurningin þessi: Hyggst ríkisstjórnin og ráðherrann styrkja eiginfjárstöðu bankanna með því að leggja þeim til fé beint eða óbeint úr opinberri eigu? Fyrri spurningin er: Hyggst ríkisstjórnin gera það með því að færa bönkunum með einhverjum hætti fjárfestingarsjóði atvinnuveganna að hluta eða öllu leyti? Hver er afstaða ráðherra til þess? Og hyggst ríkisstjórnin styrkja eiginfjárstöðu bankanna með því að breyta reglum um húsnæðiskerfið þannig að viðskiptabankarnir taki að einhverju leyti við þeim byggingarsjóðum sem nú eru í vörslu Húsnæðisstofnunar ríkisins? Ef ríkisstjórnin hefur ekki mótað afstöðu sína í þeim efnum, hver er þá afstaða hæstv. ráðherra?