Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 10:35:39 (1499)

1996-11-21 10:35:39# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:35]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins hefur þann tilgang að afla fjár til kaupa á nýju hafrannsóknaskipi. Eins og kunnugt er þá er skipakostur Hafrannsóknastofnunar kominn til ára sinna. Tvö meginrannsóknaskipin eru nálega 30 ára gömul og eru þar að auki lítil og vanbúin til þess að taka þátt í nauðsynlegum rannsóknum, ekki síst utan fiskveiðilögsögunnar. Það er orðin mjög brýn þörf á að Hafrannsóknastofnun eignist öflugt rannsóknaskip sem hefur togkraft á við það sem nútímatogarar hafa til þess að geta sinnt nýjum verkefnum og betur ýmsum þeim verkefnum sem Hafrannsóknastofnun hefur unnið fram til þessa.

Í athugasemdum með frv. fylgir greinargerð Hafrannsóknastofnunar um þá brýnu þörf sem er á kaupum á nýju skipi. Jafnframt er úttekt tæknideildar Fiskifélagsins á núverandi skipakosti og kostnaði við kaup á nýju skipi. En áætlað er að það skip sem hér um ræðir, sem er 65 m langt skip, kosti einhvers staðar á bilinu frá 1,1 milljarði upp í tæplega 1,4 milljarða kr. Í byggingarsjóði nýs hafrannsóknaskips eru um 265 millj. kr. en viðbótarfjármagn samkvæmt þeim tillögum sem fyrir liggja í þessu frv. kæmi úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Gert er ráð fyrir að í stað þeirra verkefna sem sjóðurinn hafði fjárráð til að takast á við á næstu árum, þ.e. úreldingarstyrkja til kaupa á fiskiskipum, komi þetta verkefni. Það er með öðrum orðum ekki verið að auka umsvif sjóðsins heldur að færa þau verkefni sem sjóðurinn átti að hafa með höndum á næstu árum yfir í kaup á nýju hafrannsóknaskipi. Meginverkefni sjóðsins eru að baki. Þau voru hugsuð sem tímabundið átak. Á næstu árum hefðu verið til ráðstöfunar samkvæmt þáverandi greiðsluáætlun um 100 millj. kr. á ári til úreldingarstyrkja og það kemur nokkurn veginn heim og saman að á einum áratug hefðu menn haft fjármuni til úreldingarstyrkja sem samsvara kaupum á einum nýjum togara. Það var því alveg ljóst að fram undan í þessum efnum voru ekki stórar aðgerðir. Meginaðgerðin er að baki og því þótti eðlilegra að skipta um verkefni og nota fjármunina til kaupa á hafrannsóknaskipi. Þetta hefur ekki í för með sér að gera þurfi breytingar á þróunarsjóðsgjaldinu. Það verður óbreytt áfram. En hér er síðan gert ráð fyrir því að starfsemi sjóðsins verði lokið árið 2009 og þá verði allar skuldbindingar sjóðsins uppgreiddar og lögin falli úr gildi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. sjútvn.