Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:05:44 (1502)

1996-11-21 11:05:44# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:05]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vildi gera athugasemd við það að gert er ráð fyrir því að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs verði heimilt að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 1.000 millj. kr. Þetta tel ég að eigi heima í lánsfjárlögum en ekki í svona lagasetningu þar sem verið er að skuldbinda ríkissjóð og á þar af leiðandi heima í lánsfjárlögum. Þá vildi ég gjarnan koma inn á það að við þurfum að sjálfsögðu ný rannsóknaskip en við þurfum líka varðskip og það er verið að tala um það á sama tíma. Ég vildi gjarnan að það yrði skoðað hvort ekki mætti nýta skip í hvort tveggja og spara þar með jafnvel milljarða því að rannsóknaskip sigla um höfin en varðskip þurfa sömuleiðis að sigla um höfin.

Við erum að tala um ákveðinn vísi að auðlindaskatti. Þetta er auðlindaskattur, þetta er skattur á kvótann. Ég vil að menn horfi á það raunverulega með þeim augum. Ef við ætlum að taka upp auðlindaskatt, sem ég er í prinsippinu á móti, vil ég að það sé gert með opnum augum og horft sé á það. Ég vil miklu frekar að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar en ekki í formi skatts í gegnum ríkið. Ég vil að menn horfi á það raunhæfum augum. Ég er hins vegar hlynntur því að greinin borgi þær rannsóknir sem eru beint í hennar þágu og eru ekki í reynd grunnrannsóknir eins og þær eru stundaðar almennt. Verið er að framkvæma mjög hagnýtar rannsóknir beint í þágu viðkomandi greinar. Mér finnst því eðlilegt að hún borgi það. Ég vil að jafnframt sé skoðað hvort við séum að fara út í auðlindaskatt og þá sé horft til þess að hv. efn.- og viðskn. fjalli um það eins og um aðra skatta. Ég tek undir með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að ég hef ekki trú á þessu sólarlagsákvæði. Við höfum oft upplifað sólarlagsákvæði sem hafa orðið varanleg þannig að ég hef ekki trú á því. Einnig tek ég undir það með henni að þessi álagning er furðu flókin og ég væri mjög fylgjandi því ef menn ætla að taka upp auðlindaskatt og láta borga fyrir hvert kíló af þorskígildi sé það gert á einfaldan máta eins og hv. þm. benti á.