Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:17:18 (1505)

1996-11-21 11:17:18# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:17]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hafði vænst þess að hæstv. sjútvrh. tæki til máls og lýsti afstöðu sinni til þeirra sjónarmiða sem hér hafa komið fram, ekki aðeins vegna þess sem ég sagði áðan, en efnislega var það á þá leið að ég teldi að hæstv. sjútvrh. væri með þessu frv. farinn að troða þá farsælu slóð að láta sjávarútveginn taka þátt í kostnaði við grunnrannsóknir.

Ég tel að þetta séu nokkur kaflaskil í sögu þessa hæstv. ráðherra. Mér er ekki kunnugt um að hann hafi áður komið fram með þingmál sem svo afdráttarlaust tekur í rauninni undir þá stefnu sem jafnaðarmenn hafa haft í þingsölum. Ég hygg hins vegar að það sé enn frekar ástæða til þess að hæstv. sjútvrh. láti sína afstöðu koma fram vegna þess að hér talaði mætur hv. þm. Kristján Pálsson áðan og tók undir málflutning minn og jafnaðarmanna. Hv. þm. sagði að hér væri verið að festa kaup á hafrannsóknaskipi sem væri tímabært. Hann sagði jafnframt að það væri gert með eðlilegum hætti því að sjávarútveginum væri falið að taka þátt í kostnaðinum og hann sagði: ,,Ég sé ekkert athugavert við það að sjávarútvegurinn taki þátt í kostnaði vegna grunnrannsókna.``

Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Kristján Pálsson hefur sagt. Ég minnist þess ekki, og er þó ekki tiltakanlega tekinn að reskjast, að nokkur þingmaður Sjálfstfl. hafi áður sagt þetta svo afdráttarlaust. Ég spyr hæstv. sjútvrh. hvort hann sé sömu skoðunar og flokksbróðir hans af Suðurnesjum, hv. þm. Kristján Pálsson.