Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:22:47 (1508)

1996-11-21 11:22:47# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:22]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins minna á að það er ekki nýmæli af minni hálfu að leggja til að þessu gjaldi verði varið til hafrannsókna. Ég flutti sjálfur um það frv. á síðasta kjörtímabili. Því var svo aftur breytt í það form sem verið hefur eftir að þróunarsjóðurinn tók við og núna er lagt til að þróunarsjóðurinn sinni þessu afmarkaða verkefni. Hér er ekki verið að leggja til að hækka gjöld eða leggja á ný gjöld. Það gjald sem ákveðið var að leggja á með þróunarsjóðslögunum á sínum tíma er óbreytt þannig að hér er ekki um að ræða nýja skatta.

Það vill svo til að það ráðstöfunarfé sem sjóðurinn fær á næstu árum umfram það sem hann þarf til þess að greiða fyrirliggjandi skuldbindingar hrekkur fyrir þessu verkefni. Ég er ekki að leggja til að þessi gjöld verði aukin til þess að standa undir nýjum verkefnum. Það er ekki mín tillaga.