Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:24:23 (1509)

1996-11-21 11:24:23# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:24]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir á þskj. 189. Ég hafði vonað í fyrradag að fá tækifæri til að mæla fyrir þessu máli og ræða þetta saman með frv. um atvinnuleysistryggingar af því að málin eru mjög skyld og verða að tengjast saman. Þetta frv. kemur að takmörkuðu gagni nema hitt frv. verði samþykkt og öfugt.

Þetta frv. er samið af nefnd sem skipuð var sumarið 1995 til þess að endurskoða lögin um atvinnuleysistryggingar. Í þeirri nefnd áttu sæti hv. þm. Hjálmar Árnason, sem var formaður nefndarinnar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Hervar Gunnarsson, varaforseti ASÍ, Jón Rúnar Pálsson, lögfræðingur hjá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Jón H. Magnússon, lögfræðingur hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, og Nikulás Einarsson, viðskiptafræðingur, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Frv. er flutt óbreytt í því formi sem þessi nefnd skilaði því. Hún var einhuga um frv.

Þessu frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir er ætlað að leysa af hólmi lög um vinnumiðlun, nr. 18/1985, með síðari breytingum. Helstu breytingarnar, herra forseti, sem frv. felur í sér eru þessar:

Lagt er til að vinnumiðlun verði rekin alfarið á vegum ríkisins. Það var einhugur í nefndinni sem samdi frv. um að unnt sé að efla og samhæfa vinnumiðlun betur en nú er ef rekstur hennar er á einni hendi.

Lagt er til að vinnumálaskrifstofa félmrn. verði gerð að sjálfstæðri stofnun sem nefnist Vinnumálastofnun. Stofnunin fari með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu. Hún lúti stjórn nefndar sem verði skipuð aðilum vinnumarkaðarins, en fulltrúi félmrh. gegni formennsku í nefndinni. Auk umsjónar- og eftirlitshlutverks með stofnuninni hafi stjórnin það hlutverk að fylgjast með ástandi vinnumarkaðarins á hverjum tíma, gefa félmrh. skýrslu þar að lútandi og gera tillögur til hans um vinnumarkaðsaðgerðir.

Gert er ráð fyrir að starfsmenn vinnumálaskrifstofunnar verði starfsmenn hinnar nýju stofnunar. Þykir rétt að fela sjálfstæðri stofnun yfirstjórn vinnumiðlunar fremur en hafa hana deild eða skrifstofu í ráðuneytinu. Stofnunin á að hafa með höndum stjórn vinnumiðlunar á landinu öllu. Þetta er í samræmi við þá stefnu að færa hrein stjórnsýsluverkefni frá ráðuneytunum sem annast sem mesta stefnumótun.

Stefnt er að því að efla opinbera vinnumiðlun og þáttur í því er að rekstur vinnumiðlananna verði verkefni ríkisins en ekki sveitarfélaganna eins og nú er. Talið er að með því fáist betri heildarsýn yfir vinnumarkaðinn en það hefur þótt brenna við að starfsemi vinnumiðlunar sveitarfélaga einskorðist um of við eigið sveitarfélag og jafnframt er nauðsynlegt að efla yfirstjórn málaflokksins. Með því að svæðisvinnumiðlanir verði reknar á vegum ríkisins verða tengsl vinnumiðlunar og Vinnumálastofnunar skýrari og nánari en á milli vinnumálaskrifstofu og félmrn. og Vinnumiðlunar sveitarfélaga. Það verður væntanlega auðveldara fyrir Vinnumálastofnun að framfylgja nauðsynlegu eftirliti og samræmingu milli vinnumiðlana heldur en nú er.

Ég tel einboðið að vinnumiðlanir sem eru vel reknar á vegum sveitarfélaganna geti orðið verktakar hjá ríkinu ellegar þá að gerast ríkisstofnanir ef það þykir betur henta. Mér dettur í hug Vinnumiðlun Reykjavíkur t.d. sem hefur verið rekin með miklum ágætum og verið mjög virk í aðgerðum í vinnumarkaðsmálum. Ég tel mjög mikilvægt að nýta þá reynslu og þekkingu sem þar er saman komin í þágu þessa verkefnis áfram.

[11:30]

Gert er ráð fyrir því að ríkið verði eitt vinnusvæði. Það er úrelt fyrirkomulag að skipta landinu niður í mörg vinnusvæði og það eru leifar frá gamalli tíð. Gert er ráð fyrir að svæðisvinnumiðlanir annist opinbera vinnumiðlun hver á sínu svæði undir yfirstjórn Vinnumálastofnunar. Nefndin taldi nauðsynlegt, og það geri ég líka, að a.m.k. ein svæðisvinnumiðlun verði starfandi í hverju kjördæmi. Til þess að tryggja nauðsynlegt aðgengi íbúa svæðis er gert ráð fyrir að samið verði við aðila eins og sveitarfélög eða sýslumenn eða verkalýðsfélög um að annast skráningu atvinnulausra.

Eitt af nýmælum frv. er að svæðisvinnumiðlanir eigi að sjá atvinnulausum fyrir ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi og starfsþjálfun til þess að auka starfsgetu og starfsmöguleika þeirra.

Lagt er til að í tengslum við svæðisvinnumiðlanirnar starfi sérstakar ráðgjafarnefndir sem í frv. eru nefndar svæðisráð og þær verði skipaðar fulltrúum aðila vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum sveitarfélaga og framhaldsskóla. Þessum svæðisráðum er ætlað að fylgjast með atvinnumálum á svæðinu og gefa Vinnumálastofnun skýrslu þar um, og gera tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir og fá aðila á svæðinu til samstarfs um slíkar aðgerðir.

Það skal áréttað, herra forseti, að það er hugmyndin að gera landið að einu vinnusvæði en í því felst að vinnumiðlunin skuli vera rekin á landsvísu. Það er tekið fram að mönnum geti verið skylt að taka vinnu utan heimabyggða sinna samkvæmt nánari ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segir að ef hafnað er vinnu fjarri heimili þá meti úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar og skal þá m.a. gætt heimilisástæðna umsækjenda. Þetta ákvæði, sem kom til umræðu í fyrradag, er reyndar samhljóða 6. tölul. 21. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Þar er áréttað að með heimilisástæðum sé átt við fjölskylduaðstæður, þar á meðal heilsufar fjölskyldumeðlima umsækjenda.

Hverri svæðismiðlun er ætlað að þjóna fyrst og fremst sínu umdæmi en þeim síðan ætlað að miðla upplýsingum sín á milli. Nú lifum við á mikilli tölvuöld og það er búið að tölvutengja landið þannig að þetta eiga að verða nútímaleg vinnubrögð.

Þrátt fyrir að það sé orðað svo í frv. að svæðisvinnumiðlanir skuli vera í hverju kjördæmi landsins, þá er ekki endilega skylda að þær fylgi kjördæmamörkum nákvæmlega. Það er hægt að hugsa sér í því einhvern sveigjanleika. Það er líka nauðsynlegt að í a.m.k. víðlendari kjördæmum séu skráningarstaðir fleiri en einn og e.t.v. fleiri en tveir. Þetta mun svæðisráðunum gert að ákveða.

Mikilvægustu nýmælin varðandi svæðisvinnumiðlarnir met ég vera þau að þeim er ætlað að sjá atvinnulausum fyrir ráðgjöf og úrræðum sem miða að því að auka starfsgetu og starfsmöguleika þeirra. Með úrræðum er átt við að gerður sé samningur við hinn atvinnulausa um að hann sinni ákveðnu verkefni daglega í tiltekinn tíma, annaðhvort á almennum launakjörum eða á atvinnuleysisbótum. Þessi verkefni geta falið í sér nám, störf eða samtvinnun á námi og störfum og þau verða að taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum og þörfum hins atvinnulausa og miða að því að auka starfsgetu hans og starfsmöguleika. Ég minni á merkilega tilraun sem gerð hefur verið með svokallaða vinnuklúbba í Reykjavík sem virðast gefa ágæta raun. Í Kópavogi hafa einnig verið uppi tilraunir í þessa átt sem einnig hafa tekist mjög vel þannig að ég tel alveg einboðið að við eigum að ganga þessa leið lengra. Félmrn. hefur beitt sér fyrir ýmsum nýmælum í þessum málum. Við höfum staðið fyrir námskeiði fyrir byrjendur í fiskvinnslu í samráði við Samtök fiskvinnslustöðva. Það gaf afar góða raun. Við eigum þátt í því með Verkakvennafélaginu Sókn að efna til námskeiða um heimilisaðstoð sem einnig hafa gefið góða raun.

Gert er ráð fyrir því að hinn atvinnulausi geti valið um nokkur úrræði, en það að hafna alfarið slíkum úrræðum geti haft sömu viðurlög í för með sér og að hafna vinnu samkvæmt ákvæðum í lögunum um atvinnuleysistryggingar. Það er von manna að með þessu sé hægt að virkja hinn atvinnulausa til athafna sem auki raunverulega atvinnumöguleika hans í stað þess að hann sé aðgerðalaus sem hefur auðvitað þveröfug áhrif. Þá vinnst það einnig að hægt er að hafa eftirlit með því að hinn atvinnulausi sé ekki í ,,svartri vinnu`` sem einhver dæmi munu finnast um.

Þá vil ég líka, herra forseti, taka fram að gert er ráð fyrir því að svæðisvinnumiðlun annist atvinnuleit fyrir fatlaða og það er einnig mikilvægt.

Í 16. gr. er tekið á því að atvinnulausir, sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum eða sæta missi bóta, skuli einnig eiga rétt á sérstakri aðstoð svæðisvinnumiðlunar við að kanna hugsanlegan rétt sinn til aðstoðar samkvæmt öðrum lögum og reglum. Þá eru í fyrsta lagi höfð í huga lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð. Af þessu hlýst talsverður kostnaður og ég vísa til kostnaðarumsagnar frá fjmrn., sem er birt sem fskj. með frv., en þar segir að gera megi ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs af lögfestingu frv. verði 190--215 millj. fyrsta árið, en 160--175 á ári eftir það. Jafnframt er náttúrlega gert ráð fyrir því að þetta verði liður í verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin eru sífellt að taka við fleiri verkefnum frá ríkinu og það er eðlileg og gleðileg þróun. Ríkið leggur fjármuni með þeim, en þessi skipulagsbreyting gengi upp í þessi fjármálasamskipti.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að svæðisvinnumiðlununum er ekki einungis ætlað að veita atvinnulausum, þeim sem eru á atvinnuleysisbótum, þjónustu. Bótalausir eiga einnig að fá þarna þjónustu og þeir sem vilja skipta um vinnu. Þeir geta skráð sig þarna og atvinnurekendur sem vantar starfskrafta eiga að geta snúið sér til vinnumiðlana og fengið að vita það á svipstundu hvaða vinnuafl er á lausu.

Mér finnst það nýmæli í frv. að mjög mikið er gert úr því að reyna að auka virkni hinna atvinnulausu og reyna að hjálpa þeim til að brjótast út úr þeim vítahring sem atvinnuleysið er og reyna að sjá til þess að einstaklingarnir festist ekki í atvinnuleysinu. Það er lögð áhersla á ráðgjöf og virkni til þess að verða hæfari til þátttöku í atvinnulífinu.

Herra forseti. Að endaðri þessari umræðu leyfi ég mér að óska eftir að þessu máli verði vísað til hv. félmn., sem þegar hefur fengið frv. um atvinnuleysistryggingar, og að þessi frumvörp verði skoðuð samhliða í nefndinni og afgreidd þaðan og fái að verða samferða í gegnum þingið.

Eins og ég sagði í umræðunni í fyrradag er eitt frv. enn tengt þessu máli væntanlegt. Það er því miður ekki alveg fullbúið. Það er frv. um tryggingasjóð einyrkja sem á að verða öryggisnet fyrir smábátasjómenn, bændur og vörubílstjóra. Ég vænti þess að það mál verði komið til hv. félmn. áður en til lokaafgreiðslu hinna tveggja frumvarpanna kemur á Alþingi.