Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:41:47 (1510)

1996-11-21 11:41:47# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns nefna að það er mjög slæmt að það frv. sem ráðherra gat um í lok framsögu sinnar um tryggingasjóð einyrkja skuli ekki hafa komið inn jafnt og þau tvö sem við höfum verið að ræða. Þessi frumvörp eru svo tengd, frv. um Atvinnuleysistryggingasjóð og vinnumiðlun og tryggingasjóð einyrkja, að það er mjög slæmt að tryggingasjóður einyrkja muni koma síðar til umræðu vegna þess að þau mál hefðu átt að ræðast hér samtengt.

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að það frv. sem hér er til umræðu er mun jákvæðara en hið fyrra sem við ræddum í fyrradag. Það er mjög margt í þessu frv. sem ég get tekið heils hugar undir og sérstaklega þau markmið sem er að finna í frv. um að koma hinum atvinnulausa í ríkum mæli til aðstoðar og leggja með honum áætlanir um hvernig hann megi brjótast út úr erfiðleikum atvinnuleysis. Sú hugsun er hin besta og ég styð þau markmið heils hugar. Hins vegar er ýmislegt sem ég vil gjarnan koma inn á í þessu frv., bæði koma með spurningar og vekja til umhugsunar um.

Í fyrsta lagi verð ég að lýsa því yfir að ég er ekki sannfærð um að þessum málum, vinnumiðlum og ráðgjöf, sé betur komið á hendi ríkisins. Ég held að í raun og veru séu þetta þau verkefni sem eru svo nátengd sveitarstjórnarverkefnunum og úrræðunum heima í héraði að það kemur mér svolítið á óvart að það er litið svo á að þörf sé á að flytja þennan þátt til ríkisins. Það er viðurkennt að í öllum nærverkefnum fjölskyldunnar sé málum best komið hjá sveitarfélaginu. Það hefur þekkingu á öllum aðstæðum, það þekkir einstaklingana, það er með úrræðin sem hafa verið byggð upp í sveitarfélögunum. Í þeim sveitarfélögum sem eru með félagslega stjórn hafa verið byggð upp mjög góð úrræði heima fyrir og þess vegna finnst mér að þessi þáttur hefði átt að vera í höndum þeirra eins og önnur fjölskyldutengd verkefni. Ég skil þess vegna ekki alveg hvað rak menn til þess að flytja þennan þátt yfir til ríkisins þó ég geri mér grein fyrir því að að einhverju marki verður þetta unnið heima fyrir þó hætta sé á að það sé einmitt af stærri vettvangi heldur en sveitarfélagavettvangi og kem ég að því síðar.

En ef það verður niðurstaðan, ef þetta frv. verður að lögum og þessi málaflokkur, vinnumiðlun, flyst til ríkisins, þá styð ég það að stofnuð verði sérstök vinnumálastofnun. Ég tel það hárrétt að stjórnsýsluverkefni séu flutt frá ráðuneytum og til undirstofnana. Ráðuneyti á fyrst og fremst að vera stefnumarkandi og úrskurðaraðili í hinum ýmsu málum en ekki að vera í framkvæmdunum þannig að með þessari breytingu er tekin hárrétt ákvörðun að mínu mati.

Í inngangi að umfjöllun um greinar frv. er bent á eitt af nýmælum frv. sem er að svæðisvinnumiðlanir eigi að sjá atvinnulausum fyrir ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi og starfsþjálfun. Það er afskaplega gott mál, en það mun skipta öllu máli hvernig haldið verður á því máli og hvernig þetta verður gert. Það dugir ekkert að setja þetta niður í falleg markmið í frv. ef framkvæmdin verður ekki nægilega sterk og úrræðin eru ekki fyrir hendi. Það er einn af stóru veikleikunum í frv. að úrræðin eru ekki nægilega skilgreind og úrræði hinum atvinnulausa til handa eru ekki lögfest í frv. Það eru fyrst og fremst hugmyndir sem settar eru fram þannig að hvernig þetta verður gert er lykilatriði í því að hér séu sett lög sem eiga eftir að koma hinum atvinnulausa til góða.

[11:45]

Það eru líka nefndar ráðgjafarnefndir eða réttara sagt svæðisráð sem eru ráðgjafarnefndir sem eiga að vera skipaðar fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, fulltrúum sveitarfélaga að sjálfsögðu og framhaldsskóla á svæðinu. Þau hafa það hlutverk að fylgjast með atvinnumálum, gefa Vinnumálastofnun skýrslu, gera tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir og fá aðila til samstarfs. Þarna komum við að punkti sem ég set mikla spurningu við. Nú má enginn skilja orð mín þannig að ég sé á móti skólakerfinu íslenska, síður en svo. Skólakerfið er einhver mikilvægasta grunnstoð í okkar þjóðlífi. Það skulum við öll hafa á hreinu. En þarna birtist þessi ofurtrú þeirra sem sömdu frv. að lausnin sé að senda ungt fólk inn í skólakerfið. Það á ekkert að vera að þvælast á vinnumarkaði og lenda í atvinnuleysi. Ungt fólk innan 18 ára á bara að vera í skólakerfinu. Og þess vegna er verið að draga framhaldsskólana sem fulltrúa inn í þessi svæðisráð. Ég hef miklar efasemdir um að framhaldsskólarnir eigi nokkurt erindi þangað inn. Ég held að það eigi að hafa mikið samráð við framhaldsskóla og alla aðra sem geta verið með úrræði fyrir atvinnulausa en mér finnst í þessu birtast þessi ofurtrú á því að senda unga fólkið bara inn í framhaldsskólana. Og ég spyr: Hver á að koma þarna inn? Það er sagt: ,,fulltrúi framhaldsskólanna``. Á það að vera skólastjóri? Á það að vera kennari? Hvað með það sem stendur í 8. gr. að það eigi að vera svæðisráð að minnsta kosti í hverju kjördæmi en að mörkin þurfi ekki endilega að vera kjördæmi? Þar sjáum við að það er hugsanlegt að í heilu kjördæmi sé eitt svæðisráð. Í þessu kjördæmi eru margir framhaldsskólar og hvernig í ósköpunum á að nálgast það að vera með fulltrúa framhaldsskólanna þarna inni? Ég skil hugsunina. Á litlum stað þar sem er framhaldsskóli og hann er kannski það fræðsluúrræði ...

(Forseti (GÁ): Ég bið hv. þm. um að spara aðra fundi í salnum.)

Ég þakka forseta mjög vel fyrir. Þessar samræður voru satt að segja farnar að angra mig nokkuð. En þessir ágætu félagar mínir voru eflaust að ræða þetta brýna mál svo ég sat á mér að kvarta, en ég þakka forseta.

Það er mjög skiljanlegt á litlum stað þar sem framhaldsskóli er og fá önnur fræðsluúrræði að þá sjái menn að þarna þurfi einhverja tengingu. En á öllum þeim stóru svæðum sem mesta atvinnuleysið er eins og á Suðvesturhorninu erum við að tala um svo stórt net framhaldsskóla að það er dálítið ankannalegt að sjá þessa setningu. Og ég vara við þessari ofurtrú á að framhaldsskólinn leysi mál unga fólksins.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla fyrst og fremst um greinargerðina og það sem sagt er um hinar einstöku greinar. Efst á bls. 7 er talað um að það verði væntanlega auðveldara fyrir Vinnumálastofnun að framfylgja nauðsynlegu eftirliti og samræmingu milli vinnumiðlana en nú er með því að þessi þáttur fer til ríkisins. Þetta eru að mínu mati eiginlega helstu rökin fyrir því að ríkið axli ábyrgð á vinnumiðlunum, eiginlega einu rökin þannig að það er nú jafngott að ríkinu takist að samræma og framfylgja eftirlitinu út frá þeim sjónarhóli að samræmingin og eftirlitið sé til þess að gera hið besta fyrir hinn atvinnulausa sem ég tel að eigi að vera það markmið sem þessi löggjöf setur sér. Allar aðrar aðgerðir, eins og ég hef áður sagt, tel ég að séu betur komnar hjá sveitarfélögunum.

Hér er nefnt að hugsanlegt sé að ráðherrann neyti heimildar til að fela stofnuninni útgáfu atvinnuleyfa og þau verkefni sem þjónustustofnun þarf að hafa samkvæmt EBE-reglugerð og það held ég líka að sé mjög gott mál.

Þar sem fjallað er um stjórn Vinnumálastofnunar er verið að ákveða að Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið verði ekki lengur aðilar að þessari stjórn og ég ætla ekkert að fjalla nánar um það. Ég býst við að það verði gert á eftir. En í 6. gr. er lögð áhersla á að stjórnin haldi reglulega samráðsfundi með fulltrúum sem tengjast vinnumarkaðinum og þeim sem ekki eiga fulltrúa í stjórninni. Ég legg bara áherslu á að það er afar brýnt að atvinnuleit fyrir fatlaða verði ekki út undan í þeirri löggjöf sem verið er að setja. Það er mjög mikil hætta á því þegar harðnar á dalnum í atvinnumálum, eins og við höfum kynnst á liðnum árum, að þeir sem búa við skerta starfshæfni verði út undan á vinnumarkaði. Það er fólkið sem missir vinnuna fyrst, þ.e. þeir sem ekki eru samkeppnisfærir. Þeir sem eru ekki með öfluga framleiðsluhæfni o.s.frv. víkja fyrst af vinnumarkaði. Þá erum við komin að sértæku úrræðunum. Og af því að við erum mjög upptekin af því að fötluðum sé gert kleift að stunda vinnu á almennum markaði þá er afar brýnt að þeim sé tryggður réttur í þessum lögum.

Í 8. gr. er verið að tala um það að mönnum --- takið eftir því þetta er einn af stóru þáttunum í frv. --- mönnum getur verið skylt að taka vinnu utan heimabyggðar sinnar samkvæmt nánari ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 13. gr. frv. til laga um atvinnuleysistryggingar. Og hvað segir 13. gr. í atvinnuleysistryggingafrv. sem við ræddum í fyrradag: ,,Það veldur missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.`` Og nokkru neðar: ,,Þegar hafnað er vinnu fjarri heimili metur úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar og skal þá gætt m.a. heimilisástæðna umsækjanda.`` Mér finnst þetta óhugnanlegt ákvæði. Mér finnst þetta óhugnanlegur texti í stjfrv. Úthlutunarnefnd á að hafa úrskurðarvald um það hvort einstakling sem hefur verið atvinnulaus eigi að senda úr sinni heimabyggð. Hann hefur e.t.v. lent í því að brotna niður þess vegna, eins og gerist með þá sem lenda í langtímaatvinnuleysi, er búinn að reyna og reyna að fá vinnu í sínu heimaumhverfi, í sinni heimabyggð, á þar sína fjölskyldu, börn í skólum o.s.frv. Hann þráir að komast á vinnumarkað. Hann bognar yfir því að eiga ekki kost á atvinnu og nú bætist eitt við óttann við atvinnuleysið, óttinn við það að þegar vinnumiðlunin leitar úrræða fyrir hann og segir honum hvaða úrræði sé að finna, hvar vinnu sé að hafa, þá sé hann bara sendur annað. Ég veit að ráðherrann sagði í umræðunni um atvinnuleysistryggingafrv. að fólk yrði ekki flutt hreppaflutningum. En hér stendur að úthlutunarnefndin eigi að meta hvort --- þegar hinn atvinnulausi segir: ,,Ég get ekki hugsað mér að fara í annað bæjarfélag, í annan landshluta að vinna.`` Þá er það ekki hann sjálfur sem á að meta það --- hagir atvinnulausa mannsins séu þannig að honum sé leyft að bíða um sinn eða hvort hann eigi bara að fara. Mér finnst, með fullri virðingu, að við séum í sumum ákvæðum þessara tveggja frv. að hverfa langt aftur í tímann varðandi félagslegan hugsanagang og virðingu fyrir einstaklingnum og virðingu fyrir hinum vinnandi manni. Enn minni ég á það að sennilega 90% þeirra sem eru atvinnulausir þrá að komast í vinnu. Það getur vel verið að einhverjir hugsi sem svo að það sé gott að vera atvinnulaus. En það er svo mikill minni hluti og það er svo lítil tala að það má ekki miða heila löggjöf við hana.

Ég benti á það áðan að í 8. gr. segir að hver svæðismiðlun eigi að þjóna sínu umdæmi og að svæðismiðlanir þurfi að vera starfandi í hverju kjördæmi en skiptin eru ekki endilega bundin við kjördæmi. Þetta segir okkur að við erum að víkja nokkuð frá sveitarfélagastörfunum með vinnumiðlunum. Það getur verið að vinnumiðlanir nái yfir mjög stór svæði og séu mjög fjarlæg úrræðunum.

Svo ætla ég að nefna eitt, virðulegi forseti, þar sem segir um 9. gr.: ,,Í starfsáætluninni verði gerð áætlun um áherslur og markmið í starfi svæðisvinnumiðlunar, innan ramma gildandi laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla.`` Mér finnst þetta eiginlega algjör textaþvættingur, ef ég á að segja alveg eins og er, vegna þess að ég hef alltaf upplifað ylhýra málið þannig að maður setur sér markmið, maður setur sér markmið og síðan býr maður til áætlun til að ná því markmiði. En hér stendur að gerð verði áætlun um áherslur og markmið. Þetta er eitt af því sem ég gagnrýni í þessu frv., virðulegi forseti, þ.e. að í því er svo mikið talað um markmið og eitthvað sem á að gera en það skortir beinhörð úrræði fyrir þá sem vinnumiðlun á að fjalla um og gera starfsleitarsamninga fyrir. Hins vegar endurtek ég það enn og aftur eins og kemur fram í 10. gr. að það er lögð áhersla á að svæðisvinnumiðlanir verði virkar og að þær hafi upp á víðtæka ráðgjöf og úrræði að bjóða fyrir atvinnulausa og það er gott. En gleymum því ekki að vinnumiðlanirnar hafa verið hjá hverju sveitarfélagi en verða núna e.t.v. ein í heilu kjördæmi. Það á að gera samning við hinn atvinnulausa og þannig að hann sinni ákveðnu verkefni daglega í tiltekinn tíma. Verkefni geta falið í sér nám, störf, samtvinnun á námi og störfum en þau verða að taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum og þörfum hins atvinnulausa og miða að því að auka starfsgetu og starfsmöguleika hans. Þetta hljómar mjög vel þó reyndar komi önnur hugsun í ljós í umfjöllun um þessa grein í hugmyndum formanns nefndarinnar. Ég spyr af því þetta er alvara. Ef hinn atvinnulausi fær úrræði eða tækifæri, hvort fer hann þá á laun eða er hann settur í úrræði eða störf á atvinnuleysisbótum? Ég spyr ráðherra: Er hugsanlegt að einstaklingur sé settur til vinnu á atvinnuleysisbótum? Ég ætla að koma betur að þessu í umfjöllun um hugmyndirnar.

En áður en ég kem að því ætla ég að nefna það sem líka kemur fram í greinargerðinni efst á bls. 9. Þar segir: ,,... að hinn atvinnulausi muni geta valið um nokkur úrræði, en það að hafna alfarið slíkum úrræðum geti haft sömu viðurlög í för með sér og að hafna vinnu samkvæmt nánari ákvæðum laga um atvinnuleysistyggingar.`` Og nokkru neðar: ,,Einnig er með þessum hætti unnt að hafa eftirlit með því að hinn atvinnulausi sé raunverulega atvinnulaus og hafi vilja til þess að fá atvinnu.`` Þetta gefur til kynna neikvæðar hugmyndir um atvinnulaust fólk á vinnumarkaði. Það gefur til kynna að öll frumvarpssmíðin snúist um það að þeir sem eru atvinnulausir séu að svindla, vilji svindla og vilji ekki vinna.

Þá kem ég að úrræðunum sem mér skilst á nefndarmönnum að séu fyrst og fremst hugarsmíð formannsins enda er þetta í greinargerð. Takið eftir að engin af þessum úrræðum eru beinlínis tiltekin sem lögfest ákvæði. Það er ekki tekin afstaða til þeirra öðruvísi en að nefna þær sem hugmyndir. Ég vil taka það fram, til að fyrirbyggja misskilning, að ég hef ekkert á móti skylduvirkni. Ég hef alls ekkert á móti skylduvirkni ef útfærslan er ásættanleg. En það er slæmt ef hún fyrst og fremst tekur mið af viðhorfunum um svindl og eftirliti með að viðkomandi sé nú örugglega að leita að vinnu.

Ef við skoðun lið 7, um endurmenntunarstefnu fyrirtækja. Þar er bent á að fyrirtæki geri sér endurmenntunaráætlun og verði einstaklingar ráðnir af atvinnuleysisskrá. Og ég bið ráðherrann að staðfesta það við mig að ef það gerist, þá fái hinn atvinnulausi laun en fari ekki á atvinnuleysisbótum til starfa til að létta á fyrirtækinu.

[12:00]

Ég vil líka nefna varðandi 10. lið, sem er svona sænsk leið til að fólk fái vinnu og ílendist, að ef fólk er fastráðið í Svíþjóð, þá er vinnulöggjöf þeirra þannig að fólk er fyrst fastráðið og mikið þarf til að fólki sé sagt upp. Ég flutti frv. í fyrra og mun endurflytja það, sem er þessi sænska leið, til að kanna hvort virkilega er vilji til að fara þá sænsku leið vegna þess að þar er ríkið að gefa ákveðinn afslátt af gjöldum ef ráðið er af langtímaatvinnuleysisskrá og starfsmanni gefið tækifæri til að sanna sig.

Rétt í lokin, virðulegi forseti, af því að tími minn er að renna út. 16. liður þessara hugmynda er aukin opinber þjónusta og þar er talað um að auðvelt sé að skilgreina ný verkefni á sviði umönnunar, m.a. fyrir aldraða, fatlaða og sjúka, að ýmsum félagslegum þáttum megi sinna betur og talað er um ýmislegt í opinbera geiranum sem hægt sé að ráða atvinnulaust fólk til. Hárrétt. En hvað þýðir þetta? Á að senda fólk á atvinnuleysisbótum til að sinna umönnunarstörfum fyrir hið opinbera til að spara hefðbundna starfskrafta? Það er ekki óeðlilegt að ég spyrji, virðulegi forseti, vegna þess að ríkið er búið að vera að spara í opinberum rekstri, draga saman og draga saman og hvað er það sem sparast? Það er reksturinn, það er starfsfólkið. Það er starfsfólk á launaskrá sem er þungi kosturinn hjá ríkinu og ef á að ráða fólk af atvinnuleysisskrá í auknum mæli inn til ríkisins, þá væri alveg eins hægt að segja: Því er þá ekki dregið úr þessari opinberu stefnu að fækka starfsfólki hjá hinu opinbera í umönnunarstörfum?