Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 12:46:04 (1519)

1996-11-21 12:46:04# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:46]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. er náskylt og snertir að hluta til nákvæmlega sömu svið og það frv. sem var rætt í fyrradag um atvinnuleysistryggingar. Frv. sem rætt er nú hefur örlítið skárri ásýnd en frv. um atvinnuleysistryggingar. En þótt yfirbragðið sé skárra en á hinu fyrra frv. eru margar hættur sem leynast í þessu frv. og mjög margt sem þarf að varast og margt af því hefur þegar komið fram í umræðunni.

Markmið laganna er að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu, eins og frv. segir. Því er ætlað að sjá atvinnulífinu fyrir hæfu starfsfólki rétt eins og það sé nóg vinna þarna úti. Það þurfi bara að koma fólki út úr bótakerfinu og yfir á vinnumarkað.

Þegar maður les þetta frv. fær maður sömu tilfinningu og við að lesa frv. um atvinnuleysistryggingar. Það er helst að halda að stærsta orsök aukinna útgjalda vegna atvinnuleysistrygginga sé leti launafólks en ekki úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar í að vinna bug á atvinnuleysinu og í því að endurmennta vinnuaflið til að það sé hæfara að takast á við þær þarfir og þær kröfur sem atvinnulífið gerir.

Í þessu frv. sem hér liggur fyrir er jákvæður punktur sem snýst um að auka virkni vinnumiðlana þannig að þær aðstoði fólk í raun og veru við starfsleit. Það er mjög jákvæður punktur. En það er ekki margt annað jákvætt að finna í frv. Kannski mætti öllu heldur tala um það sem vantar inn í það miðað við markmiðið sem því er ætlað að sinna. Hver er aðferðin sem hæstv. félmrh. og ríkisstjórnin ætlar að nota við að ná fram þessum markmiðum sínum? Það á að stofna Vinnumálastofnun ríkisins og ráðherra ætlar að skipa forstjóra þeirrar stofnunar. Vinnumiðlun á að vera rekin á vegum ríkisins í stað sveitarfélaganna. Það er sem sagt verið að leggja til algera miðstýringu þessara mála þrátt fyrir það að með hinni hendinni sé ríkisstjórnin að færa verkefni af ríki yfir á sveitarfélög. Til að tryggja nauðsynlegt aðgengi íbúa alls landsins að þessari þjónustu er gert ráð fyrir að samið verið við aðila eins og sveitarfélög, verkalýðsfélög eða sýslumenn um að annast skráningu atvinnulausra og síðan eiga sérstakar ráðgjafarnefndir að starfa í tengslum við svæðisvinnumiðlanir sem hafi það hlutverk að fylgjast með atvinnumálum á svæðinu og gera tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir.

Samkvæmt frv. á landið að vera eitt vinnusvæði sem þýðir að allt er opið fyrir það að mögulegt sé að skipa fólki, senda fólk hreppaflutningum á milli staða á landinu jafnvel þó það þurfi að flytjast búferlum. Ég hef ekki getað séð þess stað í frv. sem hæstv. ráðherra hefur verið að halda fram að þetta sé einhver misskilningur í mér og fleirum sem hafa túlkað þetta svo. Það eru ekki nægilegir öryggisventlar í frv. eða í hinu frv., sem við ræddum í fyrradag, til að hægt sé að segja að það sé tryggt að ekki sé virkilega illa farið með launafólk í þessum efnum. Ég tel þetta algerlega óviðunandi og algerlega óraunhæft markmið með öllu sem hæstv. ráðherra hefur verið að benda á trekk í trekk að ekki sé viðunandi að atvinnuleysi sé á einum stað og þar sé fólk á bótum og á öðrum stað sé nóg vinna.

Út af hverju eru þessar tillögur óviðunandi? Í fyrsta lagi er vinnan, sem hæstv. ráðherra er að leggja til að fólk eigi að fara í, að miklum hluta til fiskvinna. Það fólk sem í henni vinnur býr við þannig kjör að engan veginn er hægt að gera þær kröfur að fólk flytjist á milli landshluta til að fara í þá vinnu. Það verður að segjast alveg eins og er. Við búum við lög um uppsagnarfrest sem eru sett á hinu háa Alþingi þannig að hæstv. ráðherra getur beitt sér fyrir breytingu á því ákvæði ef hann hefur áhuga á því, en það hefur ekki verið vilji til þess hingað til, en þessi lög gera ráð fyrir því að þegar um er að ræða fiskvinnslu og um er að ræða hráefnisskort, sem hefur verið túlkað vægast sagt mjög rúmt af dómstólum, sé hægt að víkja frá ákvæðum laganna um uppsagnarfrest. Launafólk í þessum geira á ekki uppsagnarfrest eins og annað fólk þannig að það er hægt að segja því upp daginn eftir að það kemur á staðinn.

Við vitum hvernig launin eru, þau eru lág. Þau eru ekki beinlínis aðlaðandi. Við getum líka bent á atriði eins og það að það hljóta að vera grundvallarmannréttindi að geta valið sér búsetu. Fólk er bundið af ýmsum öðrum ástæðum en fjölskylduástæðum, eins og hér hefur komið fram. Það er svo margt, m.a. fjárhagsástæður, sem getur gert það að verkum að fólk getur ekki farið. Það á kannski íbúð í bænum sem það þarf að koma í leigu en þarf jafnframt að kosta undir sig húsnæði úti á landi.

Ég get bent á fleiri atriði þó aðalatriðið sé ótrygg atvinna sem hlýtur að vera lykillinn að öllu saman. Fólk gerir ráð fyrir að það geti unnið sér inn alla vega fyrir flugfarinu eða rútufarinu, en það eru ýmis fleiri atriði sem hefur verið bent á að á mörgum stöðum, því miður, úti á landi og örugglega ekki bara úti á landi, er aðbúnaður óviðunandi fyrir þetta fólk. Og fyrir farandverkafólk er alþekkt að aðbúnaður er mjög víða algerlega óviðunandi þó hann sé sums staðar mjög góður. Þetta þarf hæstv. ráðherra að laga. Þetta þarf hann að tryggja launafólki áður en hann sendir það hreppaflutningum á milli fjarða. Það er grundvallaratriði og þar sem hæstv. ráðherra hefur margoft lýst því yfir að hann sé sérstakur vinur launamanna og vinur litla mannsins, þá held ég að hann ætti að byrja á þessu. Hann er ráðherra félagsmála og það er gersamlega með ólíkindum að trekk í trekk skuli koma upp hvert frv. á fætur öðru þar sem aftur og aftur er vegið að sama hópnum. Við getum í þessu sambandi minnt á umræðurnar um atvinnuleysistryggingarnar í fyrradag þar sem verið er að lækka bætur til lægst launaða fólksins. Það er algerlega út í hött.

Maður skyldi ætla að verið væri að spara með þessu vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur hreykt sér hátt af því hvað hún sé dugleg í að spara og hér hafi náðst svo góður árangur í ríkisfjármálunum. En þegar maður skoðar umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem fylgir með frv. kemur í ljós að það virðist ekki vera sparnaður heldur er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs af lögfestingu frv. verði 190--215 millj. kr. fyrsta árið en 160--175 millj. kr. á ári eftir það. Ég hugsaði þá með mér þegar ég sá þetta: Það hlýtur að vera út af því að bæta á stórlega þjónustuna við hina atvinnulausu og fara út í stuðningsaðgerðir við þá til að hjálpa þeim að fá sér vinnu og það hlýtur að vera aðalkostnaðaraukinn. Ónei, alls ekki. ,,Gera má ráð fyrir``, segir hér, ,,að kostnaður af Vinnumálastofnun verði nokkru meiri en kostnaður af vinnumálaskrifstofu félmrn. og felst hækkunin í auknum verkefnum þar sem stofnuninni er ætlað að hafa eftirlit með svæðisvinnumiðlunum, samræma starfsemi þeirra og veita starfsfólki þeirra faglega aðstoð og fræðslu.`` Síðar segir: ,,Gert er ráð fyrir að stofnuninni verði skipuð sjö manna stjórn og áætlað er að kostnaður vegna hennar verði 0,5--1 millj. kr. á ári.`` Í frv. er lagt til að ráðgjöf og úrræði svæðismiðlana verði víðtækari en annarra miðlana nú og þar segir: ,,Af þessu má ljóst vera að kostnaður af ráðgjafarstarfsemi svæðisvinnumiðlana verði meiri en af starfsemi vinnumiðlana sveitarfélaga nú en áætlað er að hann verði um 70--80 millj. kr. árið 1996.`` Mér sýnist aðalatriðið ekki vera það, í þessum kostnaði sem verið er að benda á, að verið sé að bæta þjónustuna. Það er t.d. bent á að stofnkostnaður svæðisvinnumiðlana verði um 30--35 millj. kr. Það þarf að fara út í miðstýrða, tölvutæka atvinnuleysisskráningu o.fl. Spurningin er sú: Er þjónustan það miklu betri eftir þetta að það réttlæti þennan kostnaðarauka? Það leyfi ég mér að efast stórlega um að svo verði.

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga hefur verið nefnd sem eitt meginatriði sem fólk hefur minnst á og ég vil taka undir þær efasemdir sem hafa komið fram. Stefnan hefur verið sú undanfarin ár, og að mörgu leyti hefur sú stefna að mínu mati átt rétt á sér, að æskilegt sé að færa þjónustuna nær fólkinu. Að sveitarfélögin taki við verkefnum sem geti fært þjónustuna nær fólkinu. Nú skyldi maður ætla að þjónustan við atvinnulausa væri einmitt dæmi um þetta þar sem þjónustan þyrfti að vera nálægt fólkinu og það væri óæskilegt að hún væri mjög miðstýrð. Ég hef ekki enn þá heyrt þau rök hjá hæstv. ráðherra sem spyrna við þessum rökum. Maður áttar sig ekki alveg á hvað hæstv. ríkisstjórn er að gera með þessu vegna þess að manni sýnist að þetta séu dæmigerð verkefni sem ættu að vera hjá sveitarfélögunum.

Við getum líka bent á að ríkisstjórnin og hið háa Alþingi hefur nýlega samþykkt lög um reynslusveitarfélög. Ýmis verkefni eru í gangi á vegum þessara sveitarfélaga og má eiginlega segja að á vegum reynslusveitarfélaganna sé að verða svona fyrsti vísir, viðkvæmur vísir að virkri vinnumiðlun. Hjá Reykjavíkurborg hafa verið í gangi verkefni t.d. fyrir ungt fólk, sem reyndar á að fara að setja út úr bótakerfinu að hluta til, í Hinu húsinu og vinnumiðlun Reykjavíkur hefur verið með ýmiss konar aðgerðir í gangi sem hafa þótt skila árangri. Við getum líka tekið sem dæmi annað reynslusveitarfélag sem er Akureyri. Ekki er annað að sjá í raun og veru en frv. gangi gersamlega í berhögg við hugmyndir um að færa verkefni ríkisins í auknum mæli yfir til sveitarfélaganna og ef við tökum Akureyri sem dæmi, þá er þar um að ræða reynslusveitarfélag sem hefur nýlega yfirtekið þjónustu við fatlaða frá ríkinu. Við yfirtökuna var nauðsynlegt fyrir Akureyrarbæ að gera ákveðnar skipulagsbreytingar innan bæjarkerfisins til að fella þjónustuna við fatlaða inn á hið almenna þjónustukerfi bæjarins. Í þeim tilgangi var m.a. ákveðið að setja á laggirnar nýja deild innan félags- og fræðslusviðsins, sem er atvinnudeild og hún ber ábyrgð á þjónustu, atvinnuleit fyrir fatlaða, endurhæfingar- og starfsþjálfunarvinnustöðum, vernduðum vinnustöðum og hæfingarstöðum.

Með þessu frv. sé ég ekki betur en verið sé að slíta úrræðin, sem verið er að búa til, úr tengslum hvert við annað. Og ég vil gjarnan óska eftir því að hæstv. félmrh. leiðrétti þetta. Ef það er misskilningur að frv. storki þessum viðkvæmu --- ég vil segja þessum aðgerðum sem eru á viðkvæmu stigi í reynslusveitarfélögunum, þá væri ágætt að fá það út úr myndinni strax, ef svo er ekki, og ef tryggt er að þessum verkefnum verði ekki raskað. En það er alla vega ljóst að þarna stangast markmiðin í raun og veru á. Á meðan verið er á einum stað að færa þetta yfir til sveitarfélaganna og rétt byrjað að byggja upp þá starfsemi, þá á að brjóta allt saman niður, nei, nú er það miðstýringin sem við ætlum að láta gilda.

Það er von að margir spyrji: Hver er í raun og veru stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum? Það er eins og hver höndin sé uppi á móti annarri og maður er alveg hættur að skilja upp né niður í þessum hlutum.

Herra forseti. Ég vil líka segja að ég sakna mjög að sjá ekki einhver merki þess í frv. á sama hátt og ég sakna þess í frv. um atvinnuleysistryggingar, að hæstv. félmrh. ætli atvinnurekendum eitthvert hlutverk í þeim aðgerðum sem fram undan eru. Að hann ætli atvinnurekendum á einhvern hátt að koma meira að bæði uppbyggingu endurmenntunar og ekki síður hreinlega kostnaðarþátttöku vegna slíkrar uppbyggingar. Ég get ekki séð í þessu frv. frekar en annars staðar að þeim sé ætlaður stór hlutur. Það er alltaf sama sagan. Það er horft á atvinnulausa og á vinnuaflið sem er til staðar og er ekki nógu menntað og ekki nógu hæft fyrir vinnumarkaðinn. Það er litið á það sem vandamál og reynt að tukta það til.

[13:00]

Í öðrum Evrópuríkjum taka vinnuveitendur mjög virkan þátt m.a. í endurmenntuninni, í markmiðslýsingu náms fyrir atvinnulausa. Þar eru rekin sérstök starfsþjálfunarnámskeið hjá einstökum fyrirtækjum. En íslensk lagasetning a.m.k. gerir ekki ráð fyrir slíku. Það má vel vera að það tíðkist hjá einhverjum fyrirtækjum eða einhverjum fyrirmyndaratvinnurekendum að gera slíkt. En hvar er línan frá stjórnvöldum hæstv. félmrh.? Hún liggur ekki fyrir ég bíð alltaf eftir að hún komi einhvers staðar fram.

Gerð hefur verið mjög umfangsmikil skýrsla á vegum atvinnurekendasamtaka Evrópu um atvinnumál ungs fólks og hún er kannski táknræn fyrir þátttöku atvinnurekenda í umræðunni erlendis. Í þessari skýrslu er að finna yfirlit yfir menntakerfi aðildarríkjanna, atvinnuástand og þau ráð sem þjóðirnar hafa brugðið á til lausnar atvinnuleysisvandanum. Við getum nefnt sem dæmi úr þessari skýrslu nokkur lönd. Ég vil nefna t.d. Þýskaland. Starfsþjálfun og iðnnám fara aðallega fram á vinnustað. Átta til tólf kennslustundir eru á viku og fólki undir 18 ára aldri er beint inn í löggiltar iðngreinar. Starfshluti þessa náms er skipulagður af atvinnurekendum og reyndar verkalýðsfélögum í sameiningu og síðan ræðir tækninefnd á vegum sérstakra ríkisstofnana námsbrautina og leggur blessun sína yfir hana. Atvinnurekendur bera stærstan hluta kostnaðarins. Atvinnurekendur í járn- og rafiðnaði í Þýskalandi hafa sett upp miðstöðvar víðs vegar um landið þar sem tekið er á móti nemendum og þeim kynnt störf í greininni. Úttekt á árangri verkefnisins leiðir í ljós að 20% gestanna velja sér starf í járn- eða rafiðn. Skólaatvinnulífsfélag er net 450 starfsgreinafélaga sem með útgáfu blaða og námsefnis og heimsóknum til nemenda og kennara í skólum vinnur að endurmenntun og símenntun.

Við getum tekið sem dæmi Danmörku. Þar er ýmislegt í gangi og komið hefur lína frá stjórnvöldum um málið, eins og hagnýt starfsþjálfunarnámskeið, starfsþjálfun í vaxtargrein svo sem þjónustu og ferðamennsku, auk þess sem atvinnumálaráðuneytið lætur fara fram skipulegt mat á námskeiðum fyrir atvinnulausa. Auk þess hefur mikil áhersla verið lögð á starfsráðgjöf í danska skólakerfinu og utan þess hin seinni ár. En það hlýtur að vera mjög mikilvægur hlekkur í þessu öllu saman að námsráðgjöfin sé virk þannig að fólki sé beint þangað sem það mögulega getur átt von á að fá vinnu.

Ég get líka nefnt sem dæmi Austurríki þar sem ýmiss konar aðgerðir hafa verið í gangi auk hefðbundinna valkosta í menntun, m.a. fjölbreytt starfsþjálfunarnám á hinum ýmsu sviðum. Þessa línu, hæstv. forseti, verður hæstv. ríkisstjórn að leggja á einhvern hátt. Hún er ekki lögð í þeim frv. sem hér eru lögð fram. Línan frá ríkisstjórninni er fyrst og fremst sú að það þurfi að koma fólkinu í vinnu --- það virðist ekki vera gert ráð fyrir því að vinnan sé ekki til --- og að það þurfi að tukta þetta launafólk til.

Ég vildi líka vekja athygli á samantektinni úr þessari skýrslu sem ég nefndi áðan. Hún er eiginlega sú að almennt virðist það gilda í öðrum löndum, annars staðar en hér, að ábyrgðin á því að koma ungu fólki á vinnumarkaðinn hvílir aðallega á ríkisvaldinu, aðilum vinnumarkaðarins og öðrum stofnunum á landsvísu og að hlutverk samtaka vinnuveitenda virðist vera að tryggja nú og í framtíð að fyrirtækið hafi aðgang að vinnuafli. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægur punktur. Það hlýtur á einhvern hátt líka að vera hlutverk vinnuveitendanna, atvinnurekendanna, að taka þátt í því að vinnuaflið sé hæft til að takast á við þá þróun sem á sér stað á vinnumarkaðnum, t.d. þessa öru tækniþróun. En það er a.m.k. öruggt mál að á meðan þessi ríkisstjórn situr er ekki gerð mikil krafa til atvinnurekendasamtakanna í þessum efnum enda hefur þeim gengið mjög vel og mjög samhliða lína hefur komið annars vegar frá hæstv. ríkisstjórn og hins vegar frá atvinnurekendasamtökunum.

Að lokum, herra forseti, verð ég að segja að mörgum er farið að blöskra yfirlýsingar hæstv. félmrh. sem hann hefur haft í frammi að undanförnu og meira og minna frá því að hann tók við störfum sem félmrh., um atvinnulausa, um misnotkunina, um það að til sé nóg vinna, það þurfi bara að senda fólkið þangað sem vinnan er o.s.frv. Fólki þykir þetta sýna mikla vanvirðingu gagnvart þeim sem eru atvinnulausir og sýna mikið skilningsleysi á þeirra aðstöðu. Ég er ein af þeim sem get tekið undir það. Ég verð að segja eins og er að mér blöskrar oft og tíðum.

Ég vil benda á grein, sem reyndar var minnst á í umræðunum í gær um þessi mál, sem Ólafur Ólafsson landlæknir skrifaði í Morgunblaðið í gær. Ég get ekki séð annað en að í henni séu mjög hörð skot á þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur verið að reka og þess málstaðar sem hæstv. félmrh. m.a. hefur tekið að sér að flytja. Yfirskrift þessarar greinar er spurning: Er leti aðalorsök atvinnuleysis? Í þessari grein landlæknis er nánast í hæðnistóni gert grín að því að aðalorsök og rót vandans hljóti að vera leti launafólks og vanhæfni en vel rekin fyrirtæki hafi hins vegar brugðist vel og rösklega við þessum ósóma og neitað alfarið fólki yfir fimmtugt um störf vegna þess að það sé ekki nógu hæft o.s.frv. Ég hef því miður ekki meiri tíma en það mætti virkilega vitna víðar í þessa grein landlæknis. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég held að hæstv. félmrh. ætti að fara að taka alvarlega þessar glósur sem beint er til hans frá landlækni og það sem fleiri hafa bent á hér í umræðunni að það gengur ekki lengur að nota þessa taktík sem birtist m.a. í þessu frv.