Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 13:51:07 (1527)

1996-11-21 13:51:07# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[13:51]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan leggja nokkur orð í belg varðandi það frv. sem hér er til umræðu og byrja á því að fara nokkrum orðum um þá stefnumörkun sem hér er að finna og lýtur að þætti sveitarfélaganna í landinu í vinnumarkaðsaðgerðum. Mér sýnist að með þessu frv. sé enn verið að hnykkja á því að vinnumarkaðsaðgerðir og vinnumarkaðsmál skuli alfarið lúta forsjá ríkisvaldsins en koma sem minnst nálægt verkefnum sveitarfélaganna. Skref í þessa átt voru vissulega tekin fyrir nokkrum árum þegar aðstöðugjaldið var afnumið og nú með þessu frv. er ábyrgð að fullu létt af sveitarfélögunum í landinu hvað varðar skráningu atvinnulausra og aðstoð við útvegun atvinnu. Þetta þýðir með öðrum orðum að við erum að stíga það skref að sveitarstjórnirnar og sú þjónusta sem þar er innt af hendi verði að miklu leyti slitin úr tengslum við atvinnulíf viðkomandi staða. Það er mjög slæmt. Það er ákaflega slæmt.

Vissulega er ég meðvitaður um það að margar sveitarstjórnir, sérstaklega úti á landi, hafa kvartað mikið yfir því að pressan á þeim af hálfu atvinnufyrirtækja á viðkomandi stöðum til að koma til hjálpar og aðstoðar hafi verið þeim ofviða og þau séu mörg hver að kikna undan því. En það breytir því ekki að eðlilega hljóta sveitarstjórnarmenn og sveitarfélögin í landinu að láta sig það varða með hvaða hætti atvinnulífið á viðkomandi stað gengur fram. Atvinnulífið hlýtur eðlilega að vera snar þáttur í öllu mannlífi og í rauninni undirstaða þjónustu, að fólk vilji vera þarna og að sveitarfélögin eigi sér einhverja framtíð. Þá spyr maður sig auðvitað og með nokkrum áhyggjum hvort það sé þá rétt stefna að taka þetta hlutverk formlega, ég undirstrika það, að fullu og öllu úr höndum sveitarstjórnanna og segja einfaldlega: Þetta er verkefni sem á að vera á hendi ríkisvaldsins. Ég hef áhyggjur af þessu. Auðvitað er það þannig, og ég undirstrika orðið formlega, að sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórnirnar munu hér eftir sem hingað til, einfaldlega vegna þess að fólk mun sækja til þeirra, auðvitað ekkert komast hjá því að láta sig ekki varða þróun atvinnumála í viðkomandi sveitarfélagi.

En formlega er auðvelt fyrir viðkomandi sveitarstjórnir að segja: Nei, nei, elsku vinur þetta er ekki á okkar færi, það er annars vegar hann Páll í félmrn. sem sér um þetta og síðan er það hann Friðrik sem leggur skattana á fyrirtækin í bæjarfélaginu.

Þetta er hættuleg þróun og hún gengur þvert á það sem ég hélt að væri nokkuð almenn samstaða um í þessari hv. samkundu, að menn vildu dreifa valdi, vildu þvert á móti fara í hina áttina. Að færa vald úr höndum miðstýrðs ríkisvalds heim í hérað til sveitarstjórnanna og efla þau sem stjórnsýslustofnanir. Menn úr öllum flokkum hafa farið hátt og mikinn í umræðum í þá veruna. Hér er algerlega verið að fara í þveröfuga átt. Ég átti satt að segja ekki von á því úr þessari áttinni frá hæstv. félmrh. Páli Péturssyni að hann væri sérstakur aðdáandi þessa miðstýrða kerfis sem hann er að mæla fyrir.

Vissulega veit ég að nokkuð skiptar skoðanir eru um það milli flokkanna hvernig skuli haga valddreifingunni, þessari útdeilingu valds og ábyrgðar út í dreifðari byggðir. Ég veit að margir framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn hafa kannski mun fremur en aðrir bent á mikilvægi amtanna eða fylkjanna og þessa þriðja stjórnsýslustigs en flokksbræður mínir hafa aftur á móti talað um stærri einingar á sveitarstjórnarstiginu en það er kannski aukaatriði í þessu sambandi. Hér er ekki verið að ræða á þeim nótum heldur þvert á móti veri að styrkja ríkisvaldið og raunar gera það allsráðandi og alfarið ábyrgt á þessum vinnumarkaðsmálum. Þetta er verulegt áhyggjuefni.

Mér er kunnugt um að það hefur verið erfiðleikum bundið að reka vinnumiðlanir sveitarfélaganna fram undir það síðasta eins og nauðsynlegt er. Á því eru margar skýringar. Sumir hafa haldið því fram að nálægðin væri of mikil, sérstaklega á minni stöðum, þegar kemur að samskiptum við það fólk sem á í erfiðleikum og er að leita eftir atvinnu. Nálægðin væri of mikil og erfitt væri að taka með kaldri skynsemi á þeim erfiðleikum sem þar væru heldur réðu tilfinningar þar og kannski vinatengsl stundum of miklu um þær ákvarðanir sem teknar væru. Ég held að það sé engin lausn á þessu vandamáli að láta pendúlinn slá algerlega í hina áttina. Með öðrum orðum að þeir sem höndla með málefni þessa fólks og fjölskyldur þeirra hafi nákvæmlega enga þekkingu á högum fólksins, raunar engan áhuga á því hvernig hagir þessa fólks muni verða. Mér finnst farið rangt í upphafi að því að leysa úr þeim sannanlegu agnúum sem hafa verið á vinnumiðlunum sveitarfélaga. Ég hefði frekar kosið að sjá að undirbúningsnefnd hæstv. ráðherra, sem hefur samið þetta frv. að stærstum hluta til og er sammála, hefði skoðað nákvæmar hvar hægt hefði verið að berja í brestina, hvar hægt hefði verið að lagfæra sannanlega þá vankanta sem hafa verið á þessu fyrirkomulagi, m.a. þá að styrkja vinnumiðlanir sveitarfélaganna í sessi og skapa þeim víðtækara og rýmra umboð til þess að nálgast þau viðfangsefni sem þeim eru og hafa verið falin lögum samkvæmt. Þá á ég við auðvitað þessa jákvæðu uppbyggingu sem er að finna í frv. og ég þakka sérstaklega fyrir varðandi það að aðstoða fólk við leit að starfi, koma því til aðstoðar með jákvæðum og uppbyggjandi hætti. Þetta hefðum við vel getað gert í eldra kerfinu og hefðum kannski átt að gaumgæfa miklu betur áður en farið var í þennan farveginn, þennan gamalkunna ríkisfarveg og búa til enn eina ríkisstofnunina.

Það er auðvitað ekki óeðlilegt að hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur bregði eilítið í brún þegar hún heyrir í einkavæðingarsinnanum, hv. þm. Pétri H. Blöndal, mæra þetta frv. og þessa nýju ríkisstofnun alveg sérstaklega. Öðruvísi mér áður brá. Og lítið var á andsvörum hv. þm. að græða í þeim efnum enda gengur hann nú á dyr. En þetta er líka aukaatriði.

Ég hlýt að leita eftir því af hálfu hæstv. ráðherra hvernig hann sjái að þessu frv. samþykktu hlutverk sveitarstjórnanna í þessum efnum. Mér er kunnugt um að þessi svokölluðu svæðisráð, svæðisstjórnirnar eða hvað þetta heitir nú, svæðismiðlanirnar, eiga að sækja til sveitarstjórnanna, verkalýðsfélaganna eða hverra annarra um að veita tiltekna þjónustu, skráningu á atvinnulausum og vafalaust eitthvað meira. Með öðrum orðum sveitarfélögin eða verkalýðsfélögin, sem hafa borið hitann og þungann fram að þessu í vinnumiðlun sveitarfélaganna, eiga núna að vera eins konar verktakar hjá þessum svæðismiðlunum, hjá þessari undirstofnun ríkisstofnunarinnar sem heitir Vinnumálastofnun. Með öðrum orðum bera enga ábyrgð en vera eins konar verktakar ríkisins. Er þetta það fyrirkomulag sem mun auka sveitarfélögunum og verkalýðsfélögunum áhuga og kraft til þess að sinna þessum málum eins og raunveruleg þörf er á? Ég hef mínar efasemdir um það.

Í fljótu bragði má eiginlega segja að fyrirkomulagið hafi ekki tekið neinum stökkbreytingum, þ.e. þessi rammi utan um starfsemina. Eftir sem áður er það einhver stofnun hjá ríkinu, nú á hún að heita Vinnumálastofnun, áður var það vinnumálaskrifstofa ráðuneytisins. Síðan er komið þarna milliapparat sem á að heita svæðismiðlun. Það er nýtt apparat. Ég fæ ekki séð að til að mynda í mínu kjördæmi, Reykjaneskjördæmi, muni þær breyta einhverju stórkostlegu varðandi atvinnuþróun.

[14:00]

Ég sé fyrir mér að fyrsta deilumálið verði hvar hún eigi að vera. Það er ekki flóknara en það. En sveitarfélögin þar eru vel í stakk búin til að geta sinnt þessu hvert og eitt. (Félmrh.: Það er hægt að hafa fleiri en eina.) Það má víst hafa fleiri en eina þannig að þá sjáum við það fyrir okkur að hægt er að leysa það vandamál sem skapast milli Kópavogs, Hafnarfjarðar, Reykjanesbæjar og Grindavíkur. Þær verða a.m.k. fjórar í Reykjanesbæ. Ég er að tala um svæðismiðlanir. Ég hafði nú skilið þetta þannig að það væri ein í hverju kjördæmi en þær gætu hins vegar skarast út yfir kjördæmi eftir hendinni. En látum vera með það. Svæðisráðin munu koma í staðinn fyrir vinnumiðlanir sveitarfélagana eins og við höfum þekkt þær. Nema það að svæðisráðin hafa enga ábyrgð. Þau hafa engin völd og þeir sem þau eiga að rekja, sem hljóta að vera eðli máls samkvæmt sveitarfélögin eða verkalýðsfélögin samkvæmt einhverjum verktakasamningi við ríkið, munu auðvitað ekki taka á þeim málum eins og áður var gert því að nú eru þau einfaldlega þjónustuaðilar fyrir ríkið. Mér er dálítið til efs að þetta skapi þann anda og vilja sem menn vilja gjarnan sjá í þessum mikilvægu störfum.

Ég vildi því gjarnan að ráðherrann færi yfir það hvernig hann sér þetta allt færast til betri vegar með því einu að ríkið beri hundrað prósent ábyrgð á þessu og að sveitarfélögin komi að þessu sem einhvers konar verktakar eða þjónustuaðilar. Ég hef áhyggjur af því og það vil ég undirstrika, virðulegi forseti.

Mér er kunnugt um það, og ég veit ekki hvort þetta frv. kemur til með að breyta nokkru í því sambandi og það veit hæstv. ráðherra líka, að það er að sumu leyti kalt stríð í gangi milli sveitarfélaganna og ríkisins þegar kemur að greiðslum til þeirra sem höllum fæti standa. Það skiptir verulegu máli fyrir báða þessa aðila hvort viðkomandi einstaklingur sem stendur höllum fær atvinnuleysisbætur eða hvort hann nýtur aðstoðar hjá félagsmálastofnun í bænum með venjubundnum framfærslustyrkjum. Annars vegar er það ríkið sem borgar brúsann og hins vegar sveitarfélögin. Þessi sama togstreita mun verða til eftir sem áður, því er nú verr og miður. Þetta frv. leysir ekki þá togstreitu sem þar er að finna. Ekki meira um þetta virðulegi forseti, en þetta veldur mér áhyggjum.

Ég er sveitarstjórnarmaður í (Gripið fram í: Í hjartanu.) hjartanu. Þakka þér fyrir, hv. þm. Það er að segja ég lít þannig á að sveitarfélögin hafi mikilvægu og vaxandi hlutverki að gegna. Mér finnst þetta þess vegna skref í vitlausa átt.

Það sem ég vil að lyktum nefna við þessa fyrstu umræðu málsins er 8. gr. sem menn hafa eðlilega staldrað við, þ.e. að landið sé eitt vinnusvæði. Auðvitað hef ég eins og aðrir skilning á því að menn eigi að nálgast viðfangsefnið á þennan hátt. En ég hygg að hæstv. ráðherra viti það nákvæmlega jafn vel og ég, miðað við þann tíma sem hann hefur starfað í félmrn. og raunar áður sennilega líka, að það er auðveldara um að tala en í að komast. Auðvitað verða ekki fjölskyldufeður eða fyrirvinnur, feður eða mæður, sendar landshorna á milli. Það gerist ekki þannig. Menn hafa lesið um það í blöðum á síðustu mánuðum þegar hæstv. ráðherra sjálfur gekk fram í því með talsverðum krafti að koma fólki í vinnu og fluttar voru fréttir af því að fólk var að fara að norðan og austur á Hornafjörð á vertíð, í verbúðir og hafði ekki annað upp úr krafsinu en erfiðleika og tár og tapaði stórum fjármunum á öllum þeim tilraunum. Það þurfti að borga háar upphæðir í gistikostnað og launin voru lægri en lofað var og svo fram eftir götunum. Ég ætla ekki að útlista það mikið nánar. En auðvitað er þetta svona. Þar er allt annað vandamál sem við leysum ekki í þessari umræðu. Það er láglaunastefnan í þessu landi sem skapar það. Lítill mismunur á atvinnuleysisbótum og bótakerfinu annars vegar og greiddum launum hins vegar.

En ég hef áhyggjur af því og bið hæstv. ráðherra hér að lokum þessarar 1. umr. að fara nokkrum orðum það hvort hann sjái þetta gerast í raun og sanni, þ.e. að landið verði allt eitt vinnusvæði, að hans sveitungar úr Húnavatnssýslunni frétti af starfi á Fáskrúðsfirði og fari þangað glaðir, keikir og kátir frá sinni fjölskyldu. Þetta gerist ekki svona og við vitum það sem hér erum inni þannig að ég held það sé rétt að við horfumst í augu við þetta vandamál hvað svo sem okkur þykir æskilegt og nauðsynlegt í þessum efnum. Þessi vegna er það hárrétt sem komið hefur fram við umræðuna að það verður að vera nokkuð skýrt í lagatexta að þegar aðstæður eru þannig að fjölskyldufyrirvinna á ekki heimangengt, að það er ekkert fjárhagslegt eða efnahagslegt vit í því að reka hann landshornanna á milli, þá auðvitað þarf hann ekkert að fara. Það er ekki til bóta hvorki fyrir þá fjölskyldu né fyrir þjóðarbúið í heild að stunda þannig nauðungarflutninga á fólki landshorna á milli. Það hygg ég að hæstv. ráðherra viti manna best sjálfur. Ég held að hann hljóti að vera mér sammála um að það þurfi að gera skýra grein fyrir því í þessu frv. að það er ekki tilgangur þessarar greinar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta en vænti þess og reikna með því að nú eins og fyrr, komi hv. félmn. hæstv. félmrh. til hjálpar og geri úr þessu það sem menn vilja og lagfæri þetta frv. þannig að við það sé búandi.