Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 14:29:40 (1530)

1996-11-21 14:29:40# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[14:29]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá atriði. Ég vil fyrst fagna því að hv. þm. Ögmundur Jónasson skuli mættur til umræðunnar þó ég sjái hann ekki í svipinn því ég er sannast að segja afar undrandi á hans afstöðu og því að nefndin skyldi komast svona einróma að samkomulagi og bíð eftir að fá skýringar hans á þessum málum. En það sem olli því að ég bað aftur um orðið voru fyrst og fremst orðaskipti mín við hv. þm. Pétur Blöndal áðan. Ég ítreka það enn og aftur að ég botna bara ekkert í stefnu Sjálfstfl. eða hvað Sjálfstfl. er að hugsa í þessu máli. Ég auglýsi eftir því að sjálfstæðismenn lýsi afstöðu sinni til þess sem hér er að gerast. Við stöndum í því daga og nætur að verja velferðarkerfið gegn niðurskurði í menntamálum og heilbrigðismálum en hér er verið að leggja til stofnun nýrrar ríkisstofnunar sem verður með útibú út um allt land. Ég spyr að því og vitna til orðaskipta minna við Pétur Blöndal hér áðan: Er eitthvað að framkvæmd sveitarfélaganna? Er það skoðun þeirra sem voru í þessari nefnd og þeirra sem bera ábyrgð á frv. að sveitarfélögin hafi brugðist í þessum málum? Liggur það að baki? Ég vildi gjarnan fá skýringu á þessu því þetta sagði þingmaðurinn Pétur Blöndal. Hann sagði þetta í salnum áðan. Sveitarfélögin hafa brugðist. Ég spyr: Er það skoðun ríkisstjórnarinnar? Ef það er raunin að menn séu að gera þessa breytingu vegna þess að þeir telja að sveitarfélögin hafi ekki staðið sig í stykkinu þá vil ég mótmæla því. Við megum ekki gleyma því að þar til fyrir um það bil fimm árum var atvinnuleysi svo til ekki neitt hér á landi. Það var sáralítið. Síðan brast það á og fór vaxandi um nokkurra ára bil. Nú hefur sem betur fer dregið úr því og ég veit ekki betur en að sveitarfélögin hafi flest brugðist við, og ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, og gripið hefur verið til átaksverkefna og menn hafa smám saman verið að þróa þetta. Sveitarfélögin voru einfaldlega vanbúin og óviðbúin þessu ástandi. Ég ítreka: Liggur það til grundvallar að menn treysti sveitarfélögunum ekki í þetta verkefni, að menn telji að þau hafi brugðist? Mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram. Ég er ekki á þeirri skoðun.

Síðan aðeins eitt atriði til viðbótar og því vil ég beina til hæstv. félmrh. og að hann svari í ræðu sinni á eftir. Það er um 14. gr. En áður en ég kem að því, vegna frammíkalls hæstv. ráðherra hér áðan þá skil ég það svo að hann túlkar 8. gr. eins og hér stendur að ,,svæðisvinnumiðlanir starfa á ákveðnum svæðum. Félagsmálaráðherra ákveður umdæmi þeirra og staðsetningu að fengnum tillögum stjórnar Vinnumálastofnunar``. Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess sem kom fram í frammíkalli, þ.e. að þær gætu verið fleiri en ein í hverju kjördæmi: Hversu margar miðstöðvar sér hann fyrir sér? Ég hafði einhvern veginn gengið út frá því að menn væru fyrst og fremst að tala um eina miðstöð í hverju kjördæmi. En maður sér að í framkvæmd, tökum Austfirði sem dæmi eins og gert var áðan, getur það verið býsna erfitt að hafa aðeins eina miðstöð. Það væri gott ef ráðherrann gæti komið inn á það í sinni ræðu hvað hann sér fyrir sér að svæðisvinnumiðlanirnar verði margar.

Þá er það atriðið sem ég ætlaði að spyrja út í um 14. gr., sem kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir en kannski tengist þessum tengslum við framhaldsskólann. Það er það sem segir hér, með leyfi forseta:

,,Svæðisvinnumiðlun er skylt að aðstoða alla þá sem hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi við atvinnuleit og val á starfsnámi.``

Val á starfsnámi? Er það meiningin að hjá þessum svæðisvinnumiðlunum starfi fólk með það mikla þekkingu og reynslu að það geti stundað námsráðgjöf? Ég lít á þetta sem námsráðgjöf. Hvernig er þetta hugsað? Ég vildi gjarnan fá skýringu á þessu. Eru menn að hugsa það þannig að skólarnir komi inn í þetta eða hvað? Mér finnst það ekki vera hlutverk vinnumiðlunar að veita ráðgjöf um val á starfsnámi. Það er flókið fyrirbæri. Fólk hefur verið að sérmennta sig í ráðgjöf við námsmenn og aðra sem eru að leita fyrir sér að nýjum leiðum og eins og ég sé það fyrir mér, þá kallar þetta á töluverða sérhæfingu. Það kemur fram í uppprentun á þessu frv. --- þegar ég fór fyrst í gegnum þetta þá vantaði umsögn fjárlagaskrifstofunnar --- að reiknað er með því að það verði 60 störf á þessum svæðisvinnumiðlunum og það er nú ekkert smáræði. Spurningin er hvernig þau muni deilast niður á svæðin því þessi vinnumiðlunarsvæði verða náttúrlega afar misstór því þar er íbúatalan ákaflega mismunandi. Ég spyr því: Hvernig eiga þessar svæðisvinnumiðlanir að vera færar til þess að stunda námsráðgjöf eða ráðgjöf til fólks sem er að leita fyrir sér um starfsnám? Mér finnst enn og aftur í þessu máli eins og ýmsum fleirum að verið sé að blanda saman nokkuð óskyldum verkefnum. Ég mundi vilja sjá að þessi ráð gætu vísað fólki til námsráðgjafa. Það er mjög mikið mál að byggja upp námsráðgjöf sem er náttúrlega þegar til staðar í flestum framhaldsskólum. En ráðherrann skýrir það kannski fyrir okkur hvernig þetta er hugsað.