Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 14:36:59 (1531)

1996-11-21 14:36:59# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[14:36]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gat þess áðan að ég hefði sagt úr ræðustóli að sveitarfélögin hefðu brugðist. Ég sagði áðan í tveggja manna tali að svo hefði verið og það er ekki venjan að vitna hér í tveggja manna tal. Ég sagðist halda að sveitarfélögin hefðu brugðist og ég er á þeirri skoðun að einhver þeirra kunni að hafa brugðist. Enda kom það skýrt fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar þar sem hann ræddi um þann vanda sem sveitarfélögin eiga við að etja vegna návígis við fólkið sem er að leita að vinnu og er hugsanlega ekki alveg vinnufært. (RG: Hann kom með mörg önnur sjónarmið ...) Þannig að það er ekki bara ég sem hef grun um þetta heldur eru það fleiri.

Um það að hér sé verið að færa verkefni frá sveitarfélögum til ríkisins þá er það ekki alls kostar rétt. Verkefni vinnumálaskrifstofu félmrn. eiga að flytjast þarna yfir þannig að sama fólkið mun vinna áfram hjá ríkinu. Það mun minnka sem stéttarfélögin hafa verið að gera í sambandi við eftirlit og annað slíkt sem þau hafa fengið greitt fyrir mjög myndarlega þannig að ég hygg að þetta fyrirkomulag muni frekar spara útgjöld ríkissjóðs heldur en hitt.