Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 14:38:31 (1532)

1996-11-21 14:38:31# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[14:38]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þau orð þingmannsins sem ég vitnaði til féllu í þingsalnum en ég biðst afsökunar ef hann meinti það þannig að þau ættu ekki að fara á milli annarra. Það voru auðvitað vitni að þessum orðaskiptum en ég biðst afsökunar á því ef hann ætlaðist ekki til þess að til þeirra væri vitnað.

En hvað varðar það sem verið er að gera þá finnst mér enn og aftur eins og þingmaðurinn hafi alls ekki kynnt sér málið. Hér fylgir umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. þar sem það kemur vel fram hvílíkur aukinn kostnaður fylgir þessu máli. Þetta er ný ríkisstofnun. Við erum að ræða um 60 störf á þessum svæðisvinnumiðlunum plús það sem þarf náttúrlega að bæta við hjá því sem nú heitir vinnumálaskrifstofa félmrn. sem verður að þessari sjálfstæðu stofnun. Við þurfum því ekkert að deila um það að þessu fylgir aukinn kostnaður. Það er kannski ekki málið. Við vitum að það þarf að grípa til aðgerða og vera með stöðuga vinnu í gangi til að vinna bug á atvinnuleysinu og gefa atvinnulausum kost á menntun og starfsþjálfun og allt það. Spurningin er hvort þetta kerfi sem hér er verið að setja upp muni virka. Er þetta rétta leiðin sem er verið að fara, með þessari miðstýringu, með því að færa verkefnin frá sveitarfélögum til ríkisins sem vissulega er verið að gera? Ég hvet þingmanninn til að lesa 8. og 9. gr. frv. Það kemur m.a. fram í 9. gr., með leyfi forseta, að: ,,Forstjóri Vinnumálastofnunar ræður forstöðumann svæðisvinnumiðlunar ...`` Þetta getur ekki skýrara verið.