Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 15:30:27 (1542)

1996-11-21 15:30:27# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[15:30]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hæstv. félmrh., landsbyggðin er fögur, víðast hvar, og þar er víða gott og gjöfult mannlíf en hér hefur verið til umræðu hvort með þeim breytingum sem er verið að gera með þessu frv. og frv. um atvinnuleysistryggingar sé verið að svipta fólk bótum á þeirri forsendu að það vilji ekki flytjast á milli landshluta. Um það snýst málið og í því felst enginn áfellisdómur gagnvart landsbyggðinni. Það getur verið þveröfugt, að það eigi að skikka fólk til að flytja til Reykjavíkur eða hingað á höfuðborgarsvæðið. Málið er að það á að virða vilja fólks.

Hér gefst ekki tími til að ræða öll þessi atriði en varðandi Samband íslenskra sveitarfélaga lentum við í því í fyrra í hv. félmn. að þar kom upp mál þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga hafði alls ekki komið því til skila á nógu skilmerkilegan hátt til félagsmanna sinna hvað þeir höfðu verið að gera í ákveðinni nefnd. Ég dreg í efa að fulltrúi þeirra hafi haft umboð til þeirra breytinga sem verið er að leggja fram og því miður skortir oft á samráð við undirbúning mála eins og þessara.