Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:51:03 (1564)

1996-11-21 16:51:03# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:51]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Nú finnst mér ástæða til þess að ég bæti einni spurningu við og spurningin er þessi: Er þetta ekki stjfrv.? Veit hæstv. iðnrh. eða hefur hann fengið að vita að einhverjir tilteknir þingmenn, kannski í báðum stjórnarflokkunum, kannski bara í öðrum stjórnarflokknum, geri athugasemdir af þessu tagi við það samkomulag sem hann hefur gert við tvö sveitarfélög? Liggur það ekki alveg fyrir að hér sé um stjfrv. að ræða? (Iðnrh.: Jú, jú.) Og liggur það ekki fyrir að það hefur stuðning stjórnarþingmanna? (Iðnrh.: Jú, jú.) (EgJ: Það þarf nú ekki endilega að vera.) Það er nú akkúrat það. Kemur nú Sjálfstfl. eina ferðina enn með tvær skoðanir. Það gat nú verið. (EgJ: Ég sagði að það þyrfti ekki endilega að vera.) Ég held að það ætti nú bara að fara að leggja auðlindaskatt á þennan tvískinnung Sjálfstfl. Það yrði góð tekjulind fyrir ríkissjóð (Gripið fram í.) vegna þess að það er varla nokkurt meiri háttar mál sem þessi ,,ágæta ríkisstjórn`` leggur fram þar sem sjálfstæðismenn hafa ekki a.m.k. tvær skoðanir og í mjög mörgum efnum kemur það ekki fram við ráðherra samstarfsflokksins fyrr en í 1. umr. um málið eftir að þeir hafa lagt það fram hér á Alþingi í góðri trú. Það yrðu því miklar tekjur af þeim auðlindaskatti sem lagður yrði á tvískinnungsháttinn.

En auðvitað er það alveg ljóst, herra forseti, að þeir hv. þm. sem greiða atkvæði með því samkomulagi sem hér er verið að gera, eru að greiða atkvæði með því að af virkjunar- og vatnsréttindum í eigu ríkisins skuli greiða arð til þjóðarinnar. Það er ekki gert ráð fyrir því að arðgreiðslan sé 5,5%, heldur að menn taki ákvörðun um það á hverjum ársfundi eins og í hlutafélagi og einungis er gert ráð fyrir því að hluti þessa reiknaða arðs geti komið til útborgunar á næstu árum. Og ég spyr aftur, virðulegi forseti: Hver er afstaða varaformanns fjárln. til arðkröfu gagnvart Pósti og síma? Póstur og sími gæti notað það sem hann er látinn greiða til þess að jafna símkostnað landsmanna. Er þá varaformaður fjárln. reiðubúinn til þess að hverfa frá greiðslukröfu arðs á hendur Pósti og síma gegn því að Póstur og sími lýsi því yfir að hann muni nota arðgreiðslufé til þess að jafna símkostnað landsmanna?