Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:53:50 (1565)

1996-11-21 16:53:50# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:53]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vestf. reyndi með öllum ráðum að snúa sér undan því að svara þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hann, þ.e. hvort hann telji eðlilegt að greiða 5,5% arð. Það finnst mér að skipti mjög miklu máli.

Hins vegar eru orðræður hv. þm. um afstöðu einstakra þingmanna til mála. Það er þannig, held ég, að við erum hér á Alþingi til þess að fjalla um mál. Afstaða okkar á að koma hér fram. Við erum ekki múlbundin, hvorki í einu né neinu máli, við eigum að taka afstöðu á grundvelli eigin sannfæringar. Ég held að aðalatriðið í þessu máli sé að reyna að ná niðurstöðu um skynsamlegar leiðir til þess að reka orkufyrirtæki okkar landsmanna.

Varðandi afstöðu mína til arðgreiðslu Pósts og síma þá er það kannski einfaldara vegna þess að ríkið á það fyrirtæki eitt. Ég hef ekki sýnt neina andstöðu við að það sé greiddur arður af því fyrirtæki og ég tel einnig að það sé eðlilegt, hv. 4. þm. Vestf., að það sé greiddur arður hjá Landsvirkjun. Ég tel það eðlilegt. En það verður að taka um það ákvörðun e.t.v. á öðrum forsendum en það samkomulag sem eigendur Landsvirkjunar hafa gert sín á milli. Um það snýst málið.