Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 17:37:27 (1570)

1996-11-21 17:37:27# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[17:37]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að talsverð ókyrrð er í kringum orkumálin og ástæðan er sú að nú er það í fyrsta skipti að gerast í mjög langan tíma í áraraðir að verulegar breytingar eru að eiga sér stað í orkumálum fyrir utan það að núna er áhugi aðila í orkufrekum iðnaði meiri á Íslandi en kannski í langan tíma. Þau umbrot sem núna eiga sér stað eru vegna þess að framkvæmdir eru meiri. Það er meira að gerast á þessu sviði en nokkru sinni fyrr.

Það er líka verið að kanna ýmsar leiðir til skipulagsbreytinga en þetta eru ekki átök, hv. þm., þetta eru hreyfingar og þetta er vegna þess að það er meira að gerast á þessu sviði en í langan tíma. Kyrrstaðan hefur verið rofin.

Varðandi skipun þeirrar nefndar sem fór yfir Landsvirkjunarmálið veit hv. þm. að það var val borgarstjórnar Reykjavíkur hvaða fulltrúa þeir settu í nefndina. Það var val bæjarstjórnar Akureyrar hvaða fulltrúa þeir settu í nefndina. Það var síðan val stjórnarflokkanna hvaða fulltrúar væru settir í nefndina. Fulltrúar stjórnarflokkanna eru ekki pólitískir aðilar. Þeir eru embættismenn, hv. þm., úr iðnrn., ráðuneytisstjórinn í iðnrn., formaður nefndarinnar, og deildarstjóri í fjmrn. Þetta eru fulltrúar ríkisins, þ.e. eignaraðildar ríkisins í nefndinni, og þarna var ekki um póltíska fulltrúa að ræða valda af stjórnarflokkunum. Hins vegar var ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar og Reykjavíkurlistans hjá Reykjavíkurborg að setja í nefndina pólitíska fulltrúa en sú meginregla höfð að skipta jafnt milli stjórnar og stjórnarandstöðu hjá Reykjavíkurborg og hjá Akureyrarbæ. Er hægt, hv. þm., að gera athugasemdir við það?