Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:09:01 (1579)

1996-11-21 18:09:01# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:09]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. staðfesti það sem ég sagði að þetta sjónarmið hefði legið til grundvallar áður en til viðræðna var gengið. Annaðhvort að verða við þessari hörðu arðsemiskröfu sveitarfélaganna eða að þeir seldu hlut sinn í fyrirtækinu. Ég held að menn hefðu betur gætt sín áður en út í þetta var lagt og horft til þess möguleika að auka hlut ríkisins í Landsvirkjun ef átti að ræða málin á þessum forsendum. Síðan í sambandi við möguleikann til að ná þeirri lækkun sem hv. þm. hefur eðlilega lagt áherslu á en sýnist í hættu stefnt, og ég tek undir það með hv. þm., að vonin um að geta lækkað raforkuverðið upp úr aldamótum svo og svo mikið verður minni m.a. eftir að fallist er á þá háu arðsemiskröfu og útgreiðslu á arði til sveitarfélaganna sem gerð hefur verið. Ég held að það sé alveg ljóst. Það er því uppistaðan í því máli sem lagt var upp með sem við erum að fá í bakið. Síðan kemur matið á framtíðinni sem hv. þm. vék að. Ég les ekki út úr nefndaráliti orkulaganefndarinnar, sem þjóðhagsforstjóri veitti forstöðu, þá möguleika sem hv. þm. túlkaði hér. Þvert á móti sýnist mér að þar horfi til verri vegar varðandi þau markmið sem við ölum sameiginlega í brjósti fyrir okkar umbjóðendur á hinum köldu svæðum, og væntanlega almennt séð í landinu, vegna þess að þar er verið að kippa fótunum undan möguleikum til að halda uppi lögboðinni jöfnun á orkuverði í landinu. Það sýnast mér vera hinar köldu staðreyndir í sambandi við innihald í því nefndaráliti (Forseti hringir.) sem vissulega hefur á bak við sig tilskipun Evrópusambandsins í orkumálum.