Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:38:08 (1582)

1996-11-21 18:38:08# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:38]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði samkeppnina sem þyrfti að vera til staðar í orkugeiranum að meginatriði ræðu sinnar og vísaði í nefnd sem iðnrh. skipaði og nú hefur skilað af sér. Niðurstaða þeirrar nefndar er sú að í áföngum skuli innleiða samkeppni í orkugeiranum. Ég tek undir þessi sjónarmið. Þær breytingar sem verið er að gera á Landsvirkjun ganga ekki þvert á slíkt, heldur hið gagnstæða. Þær eru áfangi á þeirri leið og það skýri ég með því að ekki verður hægt á einni nóttu að innleiða samkeppni í orkugeirann. Það mun taka langan tíma og það er best að að taki nokkurn tíma, einfaldlega vegna þess að þær umfangsmiklu skipulagsbreytingar sem gera þarf þurfa tíma til undirbúnings. Og af því að hv. þm. Svavar Gestsson minntist á það áðan að Landsvirkjun eins og sér og sjálfstæð væri farin að undirbúa aðskilnað vinnslu, flutnings og dreifingar í bókhaldi sínu, þá er það fyrsta skrefið á þeirri leið að fara að innleiða hægt og bítandi samkeppni í orkugeirann. Ég tek undir það með hv. þm. að það er afskaplega mikilvægt.

Hins vegar er með þessum samningi líka verið að ákveða --- og það er misskilningur hjá hv. þm. --- að Landsvirkjun taki þátt í bættum lífskjörum í framtíðinni, bættum kjörum bæði fyrirtækja og almennings vegna þess að með þessum samningi er ákveðin orkuverðlækkunarstefna tekin eftir aldamót. Og af því að fyrirtækið, samkvæmt þeim forsendum sem gefnar eru, mun skila hagnaði og mun skila arði, þess vegna, eins og hv. þm. gerði svo glögga grein fyrir áðan, er þetta hægt. Fyrirtæki sem tapar mun ekki geta skilað arði og það mun ekki geta lækkað taxta sína. Þess vegna er það frumskilyrði að halda rekstri fyrirtækisins réttu megin við núllið, að það skili arði, að hluti af arðinum renni til eigenda og það leiðir til þess að orkuverð í landinu lækkar.