Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:40:43 (1583)

1996-11-21 18:40:43# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:40]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það væri yndislegt ef önnur fyrirtæki á Íslandi nytu þeirrar náðar að ekki væru gerðar kröfur til þeirra um að taka þátt í lífskjarabata og lífskjarakröfum Íslendinga öðruvísi en þau skiluðu fyrst arði í fjögur til fimm ár. Mikið væri það gott líf og þægilegt fyrir þá stjórnendur.

Ég ætla bara að vona að hæstv. iðnrh. hafi rétt fyrir sér og ég rangt fyrir mér. Ég á þá ósk heitasta. En ég ætla að halda því fram að milli þeirrar hugsunar sem er í skýrslunni um framtíðarskipan orkumála og þess hugsunarháttar sem má lesa úr gerðum þeirra manna sem stóðu að því að búa til samninginn milli Reykjavíkurborgar, Akureyrar og Landsvirkjunar um að borga sér arðinn fyrst, er himinn og haf þannig að ég vona þá að betri tíð sé í vændum. En það eru engin merki um hana enn þannig að ég hef fullkomna ástæðu, herra forseti, til að vera mjög tortrygginn.