Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:44:40 (1586)

1996-11-21 18:44:40# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:44]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ósköp vel áhyggjur hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar af einokun á þessum markaði. En það kerfi er einfaldlega á undanhaldi vegna þess að 20. júní sl. náði ,,kommisariat`` Evrópusambandsins samkomulagi um nýja tilskipun sem sennilega mun ganga í gildi um næstu áramót. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir afnámi einkaréttar starfandi orkufyrirtækja til að framleiða rafmagn. Í öðru lagi að aðskilja vinnsluflutning og dreifingu raforku. Í þriðja lagi að veita þriðja aðila aðgang að flutningskerfum. Þetta mun m.a. kalla á þær breytingar á Íslandi að breyta þarf ákvæðum orkulaga um að samþykki Alþingis þurfi fyrir öllum virkjunum sem eru stærri en tvö megavött, en í staðinn að setja opin og gagnsæ skilyrði fyrir alla aðila sem óska eftir að fá að virkja. Þannig að það er bara tímaspursmál hvenær þessi frjálsa samkeppni verður ráðandi og ríkjandi á íslenskum orkumarkaði. Við munum að sjálfsögðu fá einhvern aðlögunartíma til að tryggja það en þetta er framtíðin. Þetta er það sem koma skal þannig að ótti hv. þm. við einokun í þessu sambandi, þ.e. að Landsvirkjun sitji ein að orkuvinnslu á Íslandi, er ástæðulaus.