Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:47:15 (1588)

1996-11-21 18:47:15# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:47]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert sem bannar okkur að bregðast við strax. Ríki eins og t.d. England, Noregur, Svíþjóð og Finnland hafa þegar brugðist við og raunar gengið lengra en þessi tilskipun gerir ráð fyrir. Ef við kærum okkur um þurfum við ekkert að bíða eftir því að þessi tilskipun gangi í gildi. Við getum gert þetta strax. (Gripið fram í.) Það er að sjálfsögðu ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar og þingmeirihluta hennar hvort svo skuli gert þannig að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gæti haft einhver áhrif á það, ætla ég, ef það er hans vilji. En mér leikur hugur á að vita, hæstv. forseti, út af þeim ummælum sem hann hafði áðan um tortryggni sína í garð þess samkomulags sem umrætt frv. byggist á þá vildi ég gjarnan fá að vita eftirfarandi:

Í fyrsta lagi. Hyggst hann standa að samþykkt frv. eða ekki? Er hann fylgjandi því eða ekki?

Í öðru lagi. Gerði hv. þm. hæstv. iðnrh. grein fyrir afstöðu sinni áður en hann flutti ræðu sína úr ræðustól, þannig að hæstv. iðnrh. vissi að það væru fleiri en hv. þm. Sturla Böðvarsson í liði sjálfstæðismanna sem hefðu einhverjar áhyggjur af þessu máli?

Ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. líka hvort það eru fleiri í þingflokki Sjálfstfl. sem honum er kunnugt um að hafi svipaða afstöðu og hv. þm.