Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 20:32:47 (1595)

1996-11-21 20:32:47# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[20:32]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er haldið áfram umræðu um frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun. Ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. sé skammt undan og vænti þess að hann verði í sal þegar ég flyt mál mitt. En það frv. til breytinga á lögum um fyrirtækið mun vera fyrsta breytingin sem einhverju skiptir a.m.k. á lögum sem samþykkt voru um Landsvirkjun, lögum nr. 42/1983, og samþykkt voru í þinginu 23. mars það ár. Ég held að það hafi aðeins lítilfjörlegar breytingar ef einhverjar verið gerðar á lögunum frá þeim tíma umfram það sem fólst í lögum um raforkuver eða breytingu á lögum um raforkuver sem samþykkt voru 1990 og felld voru inn í lögin um Landsvirkjun þar sem um var að ræða verulega aukningu á virkjanaheimildum til fyrirtækisins og þá í tengslum við ráðgerð áform um orkufrekan iðnað af hálfu þáv. ríkisstjórnar og sérstaklega þá starfandi iðnrh.

Ég held að það sé rétt að ég fari yfir örfá atriði sem tengjast þeirri miklu breytingu sem varð á Landsvirkjun á árunum um og eftir 1980 vegna þess að það hefur verið degið nokkuð inn í umræðu um þessi mál og m.a. af hæstv. iðnrh. Ég bið virðulegan forseta að gera gangskör að því að fá hæstv. ráðherra í þingsal vegna þess að það er erfitt að eiga tal við ráðherrann í fjarska.

(Forseti (StB): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að fá hæstv. ráðherra í salinn.)

Eins og menn væntanlega minnast var Landsvirkjun fram að þessum tíma sem ég gat um þangað til nýr sameignarsamningur var myndaður, fyrst og fremst raforkufyrirtæki sem starfaði á suðvesturhluta landsins sem sameignarfyrirtæki ríkisins og Reykjavíkurborgar eins og frá því var gengið í sameignarsamningi á árinu 1965 að mig minnir. Aðrir önnuðust raforkuöflun í öðrum landshlutum og þá sérstaklega Laxárvirkjun með eignaraðild Akureyrarbæjar á móti ríkinu og Rafmagnsveitur ríkisins. En með samkomulagi sem tengdist störfum ríkisstjórna 1978--1979 og 1980--1983 sem voru sum hver byggð inn í stjórnarsáttmála þeirra ríkisstjórna sem þá sátu, var gerð mjög veigamikil breyting á þessu fyrirtæki sem góð samstaða tókst um að lokum þó að nokkrar deilur væru uppi um skeið hvernig á skyldi haldið. Það sjónarmið sem stjórnarflokkar sem mynduðu ríkisstjórn 1978 sameinuðust um í þessum efnum var að gera Landsvirkjun að meginraforkuöflunarfyrirtæki landsmanna og freista þess að nýta þá breytingu sem þannig næðist til þess að tryggja verðjöfnun á raforku í landinu. Gerður var sameignarsamningur sumarið 1979 milli eignaraðila ríkisins og tveggja sveitarfélaga sem nú eiga aðild að Landsvirkjun á móti ríkinu. Þessi samningur náði því miður ekki fram að ganga og ég segi því miður af því að það var viss söknuður að sjá hann felldan í borgarstjórn Reykjavíkur af meiri hluta sem skapaðist þar með því að fulltrúi Alþfl. í borgarstjórn sameinaðist Sjálfstfl., þá í minni hluta í borgarstjórn, og felldi þennan sameignarsamning. Ég held að það hafi verið á þeim tíma sem minnihlutastjórn Alþfl. sat í nóvembermánuði 1979 sem þessi atburður varð þannig að ég sat ekki í ráðherrastóli á þeim tíma en hafði gengið frá samningnum fyrir ríkisins hönd þá um sumarið.

Þær deilur sem þá voru uppi voru að nokkru leyti pólitísk leikflétta, kannski meira heldur en það að Sjálfstfl. hafi greint svo stórkostlega á við þáv. ríkisstjórn. En það voru auðvitað mjög harðar innbyrðis deilur í borgarstjórn Reykjavíkur eftir það áfall sem Sjálfstfl. varð fyrir í sveitarstjórnarkosningunum 1978 um þau efni. Og þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens tók við völdum í febrúar 1980, var málið tekið upp á nýjan leik á sama grunni, á grundvelli stjórnarsáttmála og þá tókst að leiða það mál til lykta í alveg bærilegu samkomulagi og var jafnhliða gerð geysileg breyting á hlutverki Landsvirkjunar sem fólst í því að sett voru ný lög um raforkuver sem gengu síðan inn í lögin um Landsvirkjun, þ.e. heimildir til virkjana sem Landsvirkjun yfirtók og breytingar á lögum um Landsvirkjun sem voru innsiglaðar í marsmánuði í mjög þokkalegum friði með fáum undantekningum á Alþingi undir lok stjórnartímabils þessarar ríkisstjórnar sem ég nefndi.

Ég er nú að rifja þetta upp, virðulegur forseti, vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur dregið það fram að haldið sé hliðstætt á málum af hans hálfu nú og gert var á þeim tíma þegar sú Landsvirkjun sem síðan hefur starfað í rauninni varð til með samningum og lögum og er mönnum kunnuglegt fyrirtæki, eitt þýðingarmesta fyrirtæki í landinu. Það er ekki með öllu rétt að bera þessa hluti saman eins og hæstv. ráðherra gerir. Ég hef engan ágreining uppi um það að að formi til er farið með málið á hliðstæðan hátt að því er varðar tilnefningu aðila af hálfu eignaraðila. En það sem mér sýnist að muni á málsmeðferð allverulega er að stjórn Landsvirkjunar hefur lítið verið höfð með í ráðum að því er virðist varðandi samningsgerðina. En þegar þessi mál voru til umfjöllunar fyrir 15 árum eða vel það, var mjög náið samráð við Landsvirkjun á þessu tímabili og hlaut að vera m.a. vegna þeirra miklu skuldbindinga sem fyrirtækinu var ætlað að taka á sig. Stjórnarformaður Landsvirkjunar átti mjög drjúgan hlut í að leiða ýmis mál til lykta sem byggð voru inn í þetta heildarsamkomulag um fyrirtækið. Þetta er auðvelt að sýna fram á með bréfum. Ég fór ekki djúpt í gagnasafn af þessu tilefni, hafði ekki ráðrúm til þess. En ef menn líta á hverjir voru t.d. í samninganefnd sem skipuð var upphaflega í mars 1979 til að fara með þessi mál, þá var þar ekki gripið til þess ráðs eins og hér var nefnt af hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og gagnrýnt af hans hálfu, að embættismenn hefðu verið settir í málið, að lítið pólitískt samráð hefði verið haft. En á þessum tíma fyrir nærri 17 árum síðan voru trúnaðarmenn þeirra flokka sem störfuðu í ríkisstjórn í samninganefndinni og reyndar trúnaðarmenn stjórnarandstöðu. Ég leyfi mér bara að nefna þetta af því að þetta hefur verið til umræðu. Það skiptir máli fyrir þessa málsmeðferð. Það voru reyndar allir tilnefndir af hálfu ráðherra. Tryggvi Sigurbjarnarson leiddi starfið ríkisins megin. Pálmi Jónsson sem ég man ekki betur en væri þá í stjórnarandstöðu --- þetta er 1979 --- þingmaður Sjálfstfl. var í stjórninni og Helgi Bergs trúnaðarmaður Framsfl. og mjög fær maður og ötull. Hann lét sig mikið m.a. orkumál skipta. Og þáv. framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, ef ég man rétt, Magnús E. Guðjónsson --- þetta eru handritaðar undirskriftir --- var þarna til að tryggja samstarf við samtök sveitarfelaga.

Ég vek athygli á þessari málsmeðferð. Svipað var síðan uppi þegar málið var endurunnið, má segja, og leitt til lykta þremur árum síðar, 1982 held ég að það hafi verið. Þá var reynt að hafa um það sem best pólitískt samráð og ekki fylgt þar stífustu flokkslínum eða stjórnarlínum í sambandi við málið. Stjórnarformaður Landsvirkjunar um áratugi var trúnaðarmaður ráðuneytisins í ýmsum þýðingarmiklum hliðarsamningum sem gerðir voru um yfirtöku á eignum ríkisins sem færðar voru undir Landsvirkjun, færðar frá Rafmagnsveitum ríkisins sem hafði þær undir tímabundið og tók við þeim. Allt þetta leiddi til þess að bærileg sátt varð um þennan sameignarsamning á þessum tíma að lokum sem og lagasetninguna. Þannig tókst það sem verið var að leggja áherslu á af stjórnarliðum sem hér töluðu, þ.e. þýðing þess að ná sem bestri sátt um þetta stóra fyrirtæki okkar landsmanna þar sem ríkið fer með 50% eignaraðild og hæstv. iðnrh. hverju sinni er vörslumaður almannahagsmunanna með sveitarfélögunum sem auðvitað líta á sína hagsmuni öðru fremur.

[20:45]

Ég sé það í skjölum m.a. að það voru uppi, og sé ástæðu til að nefna það hér vegna þess að það er verið að breyta stjórnarformi á Landsvirkjun, að hugmyndir voru uppi frá iðnrn. hálfu á þessum tíma, 1982, þegar heildarlögin um Landsvirkjun voru undirbúin, að breyta stjórnarkjöri nokkuð frá því sem áður hafði verið ætlað, færa það jafnvel að nokkru leyti í ekki ósvipað form og hæstv. ráðherra er nú að leggja til að gert verði, stytta stjórnartíma og að ríkið tilnefni formann. Þessar hugmyndir voru uppi, voru bréfaðar, en það komu viðbrögð frá þessu og borgarstjórinn í Reykjavík ritaði þeim sem hér stendur, eða þáv. iðnrh. bréf og fór kurteislega fram á að þær hugmyndir sem ráðuneytið hafði sett fram yrðu teknar til endurskoðunar og vitnaði til bráðabirgðaákvæða sem voru í samningi eignaraðila frá 26. febr. 1981 sem kvað á um að aðilar væru sammála um að vinna að endurskoðun á fyrirkomulagi stjórnarkjörs Landsvirkjunar og nauðsynlegri lögfestingu á samkomulagi þar að lútandi. Þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, nú hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, segir í framhaldi af því:

,,Enginn vafi er á að þetta ákvæði var sett inn í samninginn og hafði töluverð áhrif að samkomulag náðist þar sem vitað var að sveitarfélögin, sem hlut eiga að máli, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, una illa núverandi ákvæði laga um stjórnarkjör eftir sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun. Nú er mjög langt liðið á aðlögunartímabil samningsins og því er hér með óskað eftir af borgarinnar hálfu að gengið verði til formlegra viðræðna milli aðila í þeim tilgangi að vinna að þeirri endurskoðun sem 5. gr. kveður til.``

Samhljóða bréf sent bæjarstjóranum á Akureyri, Helga Bergs, undirritað af Davíð Oddssyni.

Þetta rifja ég hér upp fyrir þingheimi. Tekist var á við Sjálfstfl. um ýmis efni á þeim tíma sem ég fór með þessi mál og það voru að mörgu leyti ekkert óskemmtileg átök þannig séð. Þau voru á ákveðnum forsendum og þau voru leidd til lykta. Það vannst allfarsællega úr þeim málum. Þau tengdust talsvert spurningunni um raforkuverð til stóriðju á þessum árum og margar ræður voru haldnar í þessum stól um það en sem leiddu til þess að það tókst að brjóta upp þann harðsnúna innrammaða raforkusamning sem átti að gilda um áratugi við Alusuisse um raforkusölu til álversins í Straumsvík, tókst að brjóta þann samning upp, knýja gagnaðilann til þess að fallast á endurskoðun og að lokum undir forustu Sjálfstfl., ráðherra hans tókst 1984 að uppskera það sem Landsvirkjun hefur búið að síðan og hefur haldið styrk sínum og náð að halda stöðu sinni þó að móti hafi blásið í efnahagslegu tilliti hjá fyrirtækinu vegna ýmissa breyttra forsendna, m.a. í sambandi við markaðsmál á undanförnum árum, sérstaklega í kringum 1990 er verulegur taprekstur var á raforkusölu fyrirtækisins og fjárfestingar skiluðu sér ekki eins og ráðgert var. Þetta var allt saman tiltölulega farsælt að lokum þó að nokkuð deildar meiningar væru um hvernig á málum var tekið og það átti alldjúpar sögulegar og pólitískar rætur sem hér verða ekki raktar og ekki ástæða til að fara út í en héldu þó um þá miklu hagsmuni að lokum sem þarna voru í húfi, efnahagslega hagsmuni fyrir Ísland og skiluðu sínu.

Það skyldi nú vera að þeir aðilar sem eru að gera hvað stífastar kröfur um arðgreiðslur frá fyrirtækinu séu ekki að nokkru leyti að byggja á þeirri stöðu sem þarna vannst og þarna skapaðist. Inn í lögin um Landsvirkjun 1983 voru sett ákvæði um arðgreiðslur en þau voru á allt öðrum grunni en nú er gert. Mér finnst að hér sé verið að fara inn á mjög hæpna braut svo að ég kveði ekki fastar að orði. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hv. þm. Árni M. Mathiesen mælti áðan í þessari umræðu að mér finnst sú krafa vera bæði efnislega og siðferðilega á veikum grunni byggð sem sett var fram og sem hæstv. iðnrh. lét undan af hálfu viðkomandi sveitarfélaga um mjög stíf og ákveðin ákvæði um arðgreiðslu byggt á nýjum formúlum að þessu leyti sem kallaði á lagabreytingar og byggt er inn í þennan nýja sameignarsamning.

Ég harma þau veðrabrigði sem orðið hafa á þessum tíma af hálfu sveitarfélaganna. Sveitarfélögin gengu inn í endurnýjað samstarf um Landsvirkjun 1982 og studdu frv. um Landsvirkjun á þeim tíma en venda nú kvæði í kross með þeim hætti sem gerst hefur og hæstv. iðnrh. lætur undan þeim kröfum. Ég óska eindregið eftir því, virðulegi forseti, að þessi mál verði skoðuð mjög vandlega af hálfu þingsins í frekari málsmeðferð og það samkomulag um arðgreiðslukröfur til eigenda fyrirtækisins, sem prentað er sem fskj. með frv., verði ekki af einhverju fljótræði innsiglað á Alþingi. Eins og margir sem hér hafa talað, einnig stjórnarliðar, óttast ég að svo geti farið að þeim hugmyndalega grunni sem byggt hefur verið á varðandi þetta fyrirtæki verði rift og allt annað andrúmsloft skapist í kringum fyrirtækið, engum til góðs og síst af öllu þjóðinni til góða, og það eigi að færa mjög ljósa markaðshugsun inn í afstöðu til fyrirtækisins af hálfu eignaraðila. Ég gef ósköp lítið fyrir það að menn ætli að reyna að þrýsta þessu máli í gegn með einhverjum óljósum þokukenndum loforðum um að ríkið kunni að verða svo gjöfult og myndarlegt og sáttfúst gagnvart landsbyggðinni sérstaklega að það væri til með að deila út þeim arði sem það innheimti til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni eins og það er kallað. Hvernig líst mönnum á þær hugsanir á sama tíma og á leiðinni eru hugmyndir, sem ég skal ekkert fullyrða um hversu langt fara, en óttast þó vissulega að eigi eftir að ganga yfir m.a. studdar af ákvæðum sem ættuð eru frá Evrópusambandinu, tilskipuninni um orkumál frá júní sl., sem verði til þess að rifta þeim megingrunni sem var undir sáttinni um endurnýjaða Landsvirkjun 1982--1983 að festa í sessi þá stefnu og lögfesta þá stefnu að eitt og sama heildsöluverð skyldi vera á raforku frá fyrirtækinu miðað við hliðstæða spennu á öllum afhendingarstöðvum út frá byggðalínu.

Þetta var eitt meginatriðið sem sameinaði menn og sem menn bundust samtökum um og sem meiri hluti Sjálfstfl., sem var í stjórnarandstöðu, studdi að lokum heils hugar. Ég fagna því að sú hugsun og sá skilningur skuli lifa hjá sjálfstæðismönnum sem tala hér og væntanlega mörgum fleiri að það beri að standa vörð um þessi sjónarmið um leið og ég verð að lýsa bæði hryggð og nokkurri undrun yfir því að Framsfl., sem ábyrgðaraðili í orkumálum og iðnaðarmálum í landinu, skuli ganga fram fyrir skjöldu til að rifta þessum grundvelli eða a.m.k. setja hann í mjög mikla hættu svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Framsfl. vildi ekki síður en Alþb., það var viss samkeppni um það, eigna sér þær breytingar í sambandi við raforkumál í landinu sem voru innleiddar fyrir hálfum öðrum áratug og átti mjög mikið í því, m.a. fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson sem var sá sem mikið lagði til orkumála af hálfu flokksins á þeim tíma ásamt Helga Bergs bankastjóra, þeim greinargóða manni, sem var einn elsti ráðgjafi flokksins í þessum málum og fylgdist þar mjög náið með og var í forustu í Rafmagnsveitum ríkisins ef ég man rétt í lengri tíma.

Síðan er annað atriði, sem ég leyfi mér að tengja inn í þetta mál, virðulegi forseti, og það snertir stöðu annarra sveitarfélaga í landinu en Akureyrarbæjar og Reykjavíkur. Sú hugsun var uppi þegar lögin voru sett um Landsvirkjun árið 1983 að í framtíðinni fjölgaði þeim sveitarfélögum og samtökum sveitarfélaga sem gerðust eignaraðilar að Landsvirkjun og lögin voru miðuð við það að þessum sameignaraðilum á móti ríkinu fjölgaði. Það var viðurkennt af þeim sveitarfélögum sem áttu í hlut, Reykjavík og Akureyri á þessum tíma, að slíkt væri eðlileg þróun. Skref í þá átt var ársfundur Landsvirkjunar með fulltrúaaðild frá samtökum sveitarfélaga en einnig var gert ráð fyrir því að aðilar sem eignuðust og keyptu sig inn í fyrirtækið og það var allt opið um það, með 2% eignaraðild að mig minnir, fengju aðild að stjórninni. Ég vil ekki fullyrða þetta án athugana en menn þyrftu a.m.k. að reiða fram ákveðinn lágmarkshlut og miðað við ákveðnar forsendur fengju menn einnig aðild að stjórn fyrirtækisins. Einmitt þessi hugsun var þarna uppi og það var þetta sem menn hefðu átt að reyna að þróa áfram og styðja við til þess að þetta landsfyrirtæki stæði á þeim fótum sem því var ætlað og þeir sem að fyrirtækinu stóðu vildu að gæti gerst en það hefur því miður ekki gerst á þessu tímabili og það var kannski ekki sá hugur eða efnahagslegu burðir af hálfu sveitarfélaga til þess að láta þessar hugmyndir rætast og það er vissulega leitt að skuli hafa gerst.

Nú er sótt að þessu fyrirtæki úr allt annarri átt, stutt af hersveitum sunnan úr Evrópu, stutt af ákvörðunum sem teknar eru af Evrópusambandinu. Það er verið að nota það til þess að innleiða breytingar í raforkumál okkar sem eru víðs fjarri að þjóna hagsmunum Íslendinga. Hér er á ferðinni eitthvert ljósasta dæmi um það hvernig menn með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið binda sig til þess að lúta ákvörðunum sem eru teknar langt í burtu af aðilum sem hugsa ekki nokkurn skapaðan hlut hvernig þetta virki fyrir aðstæður eins og á Íslandi, leiða ekki hugann að því, og það er svo sem ósköp eðlilegt, en við göngum í gapastokkinn.

[21:00]

Svo koma hér ýtrustu markaðskröfumenn, talsmenn Alþfl., og eru að nota þennan samning sem þeir knúðu upp á Íslendinga og fengu Sjálfstfl. að lokum í lið með sér, illu heilli, til þess að koma í gegn á Alþingi Íslendinga. Ég hugsa það séu ýmsir sem hugsa til baka að það hefði betur verið látið ógert að gangast undir það jarðarmen sem þáv. formaður Alþfl. knúði upp á Sjálfstfl. og hann fór inn í ríkisstjórn, á þeim forsendum varð sú ríkisstjórn til 1991. Því að þær ákvarðanir eiga eftir að verða Íslendingum dýrkeyptar þegar fram í sækir og við erum hér með eitt mjög ljóst dæmi þar sem nýkjörinn formaður Alþfl. kemur í stólinn og notar ákvarðanirnar, teknar í fjarska af embættismannavaldinu í Brussel, því engar ákvarðanir eru þar teknar með lýðræðislegum hætti. Það er ekki byggt inn í þetta draumaland sem Alþfl. ætlar að koma Íslendingum inn í. Þar er lýðræði, í þeim skilningi sem Íslendingar hafa lagt í það orð og Norðurlandaþjóðir, ekki fyrir hendi, síst af öllu í sambandi við ákvarðanatöku. Og eina stofnunin sem hefur heimildir til þess að leggja fram lagafrv. er embættismannalið kommissara og enginn annar. Enginn annar má leggja fram tillögur um lög fyrir samkvæmið. Og það er fallegt veganesti sem þessi nýkjörni formaður Alþfl. er að leggja hér inn á sama tíma og verið er að gera gælur við að sameina það sem kallað er einhverju nafni, því skrýtna mengi sem fellur undir jafnaðarmennsku og væri nú ástæða til að pakka aðeins utan af því hugtaki miðað við þann málflutning og þann skilning sem fremstu menn í Alþfl. virðast leggja í það hugtak.

Virðulegur forseti. Það var mjög sérstakt að hlusta á þá messu en ég ætla nú ekki að eyða frekari orðum að því. En ég spái ekki góðu fyrir Alþfl. ef þetta er inntakið og þetta er aðferðafræðin sem beita á til þess að laða menn til samstarfs og kemst ekki hjá því að nefna það hér vegna þess að það er ástæða til þess og gefið tilefni til þess.

Ég ætla síðan, virðulegur forseti, eftir að hafa aðeins farið yfir þessi mál, og ég vona að menn misvirði það ekki að aðeins hefur verið stiklað hér á þessum bakgrunni fyrirtækisins sem við erum að ræða um breyta lögum fyrir og ég tel að það sé ástæða til þess, þá ætla ég aðeins að minnast á fáein atriði sem tengjast með beinum hætti frv., og þá fyrst það sem snertir 1. gr. um verktöku og sölu tækniþekkingar og annarrar sérþekkingar til annarra aðila hér á landi og erlendis. Þetta er nú ekki stóra málið kannski í þessu samhengi en ég er svolítið efins um að þetta sé það verkefni sem við eigum að fara að fela Landsvirkjun og gera fyrirtækið upptekið af því að fara að selja tækniþekkingu og sérþekkingu til útlanda. Þar er að vísu undanskilin mannvirkjagerð, þátttaka í mannvirkjagerð er ekki innifalin heldur eins og þarna stendur. Ég er svolítið undrandi á því að þessi markaðshyggjusæknu leiðtogar sem nú verma stjórnarstóla o.fl. sem í stjórnarandstöðu eru, sumir hverjir, að þeir skuli endilega vilja láta þetta opinbera fyrirtæki, ríkisfyrirtæki, vera að sinna þessum málum og þá í beinni samkeppni væntanlega við aðra sem gjarnan vilja reka slíka starfsemi. Ég nefni það jafnframt að ég held að orkufyrirtæki almennings í landinu, ég er ekki að segja Landsvirkjun því hún hefur ekki gengið langt í þessum efnum, en ég nefni önnur orkufyrirtæki sem hafa einkaleyfi til að selja sína afurð sem þau eru mynduð til að starfa að, þ.e. að framleiða orku hvort sem það er raforka eða jarðvarmi, t.d. Hitaveita Suðurnesja, ágætt fyrirtæki, öflugt fyrirtæki sem hefur blómstrað en hefur farið að færa starfsemi sína langt út fyrir eðlilegt starfssvið sem aðili sem er að starfa með einkaleyfi til markaðssetningar á heitu vatni og raforku, þó í takmörkuðum mæli sé, og er farið að spekúlera og leggja fjármagn í alla mögulega óskylda hluti á sínu svæði. Ég held að þetta séu siðir sem þykja ekki mjög góðir sums staðar í löndum þar sem menn leita þó fordæma. Og ég vara við því að ganga þessa braut. Ég gerði það þegar verið var að gera breytingar á lögum um Hitaveitu Suðurnesja til að opna fyrir svona heimildir eins og gert var. Það þarf að vera gagnsætt og ljóst að einokunaraðili í þessu tilviki, ég segi það ekkert í neikvæðri merkingu, sem hefur þarna einokun gagnvart ákveðnum markaði, sé ekki að sýsla við óskyld atriði og enginn hendir reiður á því hvernig kostnaðurinn fellur til og hvort orkuverð sem verið er að selja endurspeglar eitthvað rekstrarstöðu eða möguleika fyrirtækisins til orkuafhendingar. Þetta er mjög einkennilegt. Og hinir markaðstrúuðu sem eru hér að reiða fram samkeppnislögin, oft á tíðum, stundum með réttu, til að gagnrýna ýmsa skrýtna þætti út frá markaðssjónarmiði koma hér og vilja að þetta fyrirtæki okkar fari að sýsla við sölu á þekkingu út í lönd o.s.frv. En þetta er kannski ekki stóra málið.

Í 2. gr. frv. er svo þessi samningur og eigendaframlög. Ég hef þegar gagnrýnt það hvernig þar er að verki verið og ég tel að þar hafi verið illa á máli haldið. Það er leitt til þess að vita að svokallaður, fyrirgefið ég segi svokallaður, vinstri meirihluti í Reykjavík, alla vega meiri hlutinn sem stendur að R-lista í Reykjavík, en undir forustu framsóknarmanns, Alfreðs Þorsteinssonar, skuli ganga fram fyrir skjöldu með þessar kröfur og Nesjavallavirkjun að auki. Brjótast undan Landsvirkjun til þess að rjúfa í rauninni þá sátt sem hefur verið um orkuöflun á þeim grunni sem Landsvirkjun var reist á, útvíkkuð Landsvirkjun, til þess að taka fyrir sína umbjóðendur aukinn hlut af auðlindinni til hagsbóta fyrir takmarkaðan hóp. Ég skal ekkert segja um það hvort þessi minni hluti í borgarstjórn hefði staðið öðruvísi að málum. Það var látið liggja að því að þeir hefðu viljað halda öðruvísi á málum. Það verður erfitt að sjá það fyrr en sagan þá dæmir það eða sýnir það. En betur væri að menn hefðu spurningarmerkin uppi og létu bjöllurnar aðeins hringja í sambandi við þessa málsmeðferð. Og það fær mig enginn til þess að greina þar á milli út frá því hver á heldur, heldur er það efni máls sem hlýtur að ráða afstöðu okkar í þessum efnum.

Síðan er það stjórnarkjörið sem 3. gr. kveður á um og hæstv. ráðherra leggur mikið upp úr því að með þessari tilhögun sé verið að greina svona með skýrum hætti, jafnvel í anda blessaðrar stjórnarskrárinnar, á milli löggjafar- og framkvæmdarvalds. Já, já, það kann að vera gott markmið á stundum en þá þyrfti líka að vera samkvæmni í hlutunum að því leyti. Og hvaða samkvæmni er í sambandi við þessa uppsetningu mála að hérna í þessum röðum hér hægra megin, virðulegur forseti, og vinstra megin sitja handhafar framkvæmdarvaldsins með atkvæðisrétt á Alþingi Íslendinga og eiga hlut að því að setja lögin, koma með frv. ofan úr ráðuneytunum og reyna að beisla sitt lið til þess að setja lögin. Af hverju standa þeir ekki upp úr stólum og láta aðra taka við á meðan þeir eru að sýsla uppi í ráðuneytum? Það væri aðgreining á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sem menn tækju eftir. Svo koma sömu menn hér heilagir á svipinn og segja: Jú, við ætlum greina hérna í sambandi við stjórn Landsvirkjunar, burt með alþingismenn úr stjórninni og við ætlum að skipa okkar menn eða menn sem við veljum. Hér er ekki tími, virðulegur forseti, til að fara yfir þann lista, þær embættisveitingar og skipanir. Það er fróðlegt samt að líta yfir sitthvað sem snýr að orkusviðinu í þessum málum. Það vill svo til, virðulegur forseti, að þar hefur Framsfl. hentað að setja sitt fólk til verka sem víðast. Menn geta litið um garða. Þeir bera ábyrgðina á meðferð orkumálanna með mjög skýrum hætti og hafa gengið þar langt í þeim efnum. Ég er ekkert að segja að það geti ekki farið saman hæfileikar og flokksskírteini. Jú, jú, það getur farið saman en það er ekki alltaf sem það fer saman. (Gripið fram í: Og þá ræður skírteinið.) Og þá er stundum hætt við því að skírteinið ráði, já. Ég er ekki að segja að framsóknarmenn séu einir um það. Það er svo langt frá því. (Iðnrh.: Hvar eru dæmin?) Hvar eru dæmin, spyr hæstv. ráðherra. Virðulegur forseti, það er nú hægt að fara yfir sviðið ef sérstaklega er óskað eftir því í þessum málum.

Að lokum, virðulegur forseti. Ég treysti því að menn skoði sinn gang hér á Alþingi og iðnn. þingsins vandi yfirferðina á frv. og þeim gögnum sem því fylgja. Ég hefði talið að menn hefðu átt að halda á því eins og hér var nefnt af hv. þm. Svavari Gestssyni og fleirum að leita leiða til að ná ásættanlegum breytingum í samkomulagi við iðnrh. hæstv. m.a. án þess að fara út í stórar lagabreytingar varðandi fyrirtækið, ekki síst með það í huga að áform eru uppi um það að grípa til langtum róttækari breytinga sem varða stöðu þessa fyrirtækis, innan ekki langs tíma, og hefði nú verið æskilegt að líta á hlutina í samhengi og doka við.