Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 21:44:33 (1597)

1996-11-21 21:44:33# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[21:44]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt að hreyft sé við skipan mála í þessari grein þjóðlífsins, orkumálum. Ég er að sumu leyti sammála hæstv. iðnrh. um að breytinga er þörf í þessum efnum. Hins vegar er ég ekki sammála því sem fram kom hjá ráðherranum í upphafi máls hans að með því frv. sem hér er verið að ræða væri engin breyting fyrirhuguð varðandi jöfnun orkuverðs. Fyrst vil ég segja um þetta frv. að það fjallar um fátt annað en greiðslur til eigenda. Þar er veruleg breyting fólgin í því að það er beinlínis gert ráð fyrir því að þeir sem kaupa orkuna, viðskiptavinir fyrirtækisins, njóti ekki lækkunar á orkuverði í kjölfar bættrar stöðu fyrirtækisins því að það er tekið fram að það eigi ekki að lækka verðið fyrr en eftir árið 2000. Ástæðan er sú að eigendur fyrirtækisins og fyrst og fremst sveitarfélögin hafa knúið á um það að fá meiri peninga til sín og það er meginefni þessa frv. Þetta er rukkarafrv. Þetta er frv. frá eigendum þar sem þeir eru að rukka orkukaupendur um meiri peninga handa sér en tekur ekki á þeim atriðum sem hafa stundum verið nefnd í umræðunni og er nauðsynlegt að huga að um skipulag og stefnu í orkumálum, ekki hvað síst í stóriðjumálum. Ég vil láta það koma fram, herra forseti, að ég er ósammála því að hér sé ekki verið að gera breytingar varðandi orkuverðsjöfnun. Þvert á móti er verið að gera breytingar orkukaupendum í óhag.