Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 21:48:40 (1600)

1996-11-21 21:48:40# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[21:48]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að fyrirtækið er í eigu allrar þjóðarinnar en fyrir þeim eignarhlutum er ríkið skráð að 50%, Reykjavíkurborg í kringum 45,5% og Akureyri fyrir því sem eftir stendur. Með þessu samkomulagi er sú stefna mótuð að lækka orkuverð þegar menn horfa til framtíðar um 3% á ári og það er áfangi út af fyrir sig. Sú stefnumótun hefur ekki fyrr komið frá eigendum þessa fyrirtækis að að þessu skuli stefnt. Eftir sem áður stendur í lögunum hvert sé hlutverk Landsvirkjunar í orkujöfnuninni.

Hitt er svo aftur annað mál að vel kann að vera ef afkoma fyrirtækisins verður mjög góð og er mjög góð að þar skapist svigrúm til þess að ná fram enn frekari orkuverðslækkun. Eignaraðilarnir hver um sig geta síðan ákveðið hvernig þeir vilja ráðstafa þeim fjármunum sem þeir fá af arði fyrirtækisins.

Ég sagði fyrr við umræðuna að ég tel eðlilegt að ríkið nýti þá fjármuni sem það fær til atvinnusköpunar á þeim svæðum sem njóta ekki þeirra arðgreiðslna sem munu koma út úr fyrirtækinu í framtíðinni.