Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 21:54:22 (1603)

1996-11-21 21:54:22# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[21:54]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mikill mannasættir í stóli iðnrh. nú um stundir. Eftir að nokkrir af yfirlýstum stjórnarliðum hafa komið með mjög harða gagnrýni á þá stefnu sem hér er fylgt sér hæstv. ráðherra ástæðu til þess að meta málið svo að um þetta ríki fróðafriður mikill og það sé aðeins við einn einasta mann, hv. þm. Svavar Gestsson. Hann nefndi hann ekki með nafni en hann lét að því liggja að hann væri sá eini sem væri með einhvern uppsteit í málinu. Það væri bjart fram undan hjá hæstv. ráðherra ef þetta væri staðan í málinu. En ég held að þeir sem hafa fylgst með umræðunum í dag hafi fengið nokkuð aðra mynd og ég held að margfalda megi nokkuð tölu þeirra hv. sjálfstæðisþingmanna sem hafa talað við umræðuna. Það kynni svo að vera að talsvert fleiri leyndust þar í flokki og mér kæmi ekki á óvart þó að eitthvað af liðsmönnum úr flokki hæstv. ráðherra væri með böggum hildar yfir þeirri stefnu sem hér er á ferðinni og er þó aðeins hluti af ísjakanum kominn sem stendur upp úr. Það er margt sem er dulið og er ég þá að vísa til þess nefndarálits sem byggir á tilskipun Evrópusambandsins og hæstv. ráðherra hefur boðað að verði dregið fram og sett í lagabúning.